Eiríkur Örn Norðdahl um Megasarmynd Spessa: Bautasteinn um mann sem þjóðin þráir að gleyma

Pigeon International Film Festival (PIFF) stendur nú yfir á Ísafirði í fjórða sinn. Opnunarmynd hátíðarinnar síðastliðið fimmtudagskvöld var heimildamyndin Afsakið meðanað ég æli eftir Spessa.

Dagskrá PIFF má skoða hér.

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur ræddi við leikstjórann eftir sýningu og segist svo frá á bloggi sínu:

Kvikmyndahátíðin PIFF er í gangi. Í gærkvöldi fékk ég þann heiður að spjalla við Spessa um mynd sína Afsakið meðanað ég æli. Sem fjallar einsog frægt er um tónleika sem Megas hélt árið 2019. Myndin er einfaldlega afbragð – auga Spessa fyrir römmum og myndbyggingu er auðvitað legendary, en hún hefur líka tempó sem er ekki hægt að ætlast til af manni sem hefur lítið fengist við sagnalist. Og svo fær hún auðvitað aukna vídd af því sem gerist svo – myndin sýnir Megas sem ídolið sem hefur verið að fella íkon í 50 ár, manninn sem hefur sprengt helgar kýr í loft upp, með dónaskap, tilfyndni og – ekki síst – með fegurð; hann er umvafinn hæfileikaríkustu tónlistarmönnum landsins og endar í standandi uppklappi í stappfullri Hörpu. Augnabliki eftir að tónleikarnir voru haldnir var þetta allt orðið óhugsandi – flestir viðmælendur hefðu áreiðanlega bara fengið kvef þegar þeir áttu að koma í viðtal og honum hefði tæplega tekist að selja nema fjörutíu sæti í sal. Íkonafellandi ídolið fallið sjálft og myndin einhvers konar bautasteinn um mann sem þjóðin þráir að gleyma.

Klapptrésklippu um Spessa og myndina má skoða hér:

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR