Grímar skrifar:
Það er magnað að taka þátt í framleiðsluævintýrinu „Eldarnir: ástin og aðrar hamfarir“ heilum fjórum árum eftir að ég las samnefnda bók. Án stuðnings Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og einstaks endurgreiðslukerfis væri framleiðsla á kvikmynd af þessu tagi ekki möguleg. Flest okkar eru sammála um mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar. Myndir á íslensku um íslenskan veruleika viðhalda tungumálinu, auðga menninguna, efla sjálfsmynd okkar auk þess sem þær eru frábær landkynning. Myndir á borð við Eldana eru þó að stærstum hluta fjármagnaðar með erlendu fjármagni og eru innlendir styrkir og stuðningur einungis lítill hluti heildarkostnaðar. Þrátt fyrir það er heimanmundurinn – styrkur frá Kvikmyndasjóði – algjör frumforsenda þess að unnt sé yfirhöfuð að sækja erlent fjármagn. Hærra endurgreiðsluhlutfall kemur ekki í staðinn fyrir öflugan Kvikmyndasjóð. Hann leggur grunninn að íslenskri kvikmyndagerð.