spot_img

Lestin um LJÓSVÍKINGA: Með hjartað á réttum stað

Kolbeinn Rastrick fjallar um Ljósvíkinga Snævars Sölvasonar í Lestinni á Rás 1 og segir hana meðal annars hugljúfa og fyndna, en grafi ekki alltof djúpt.

Kolbeinn skrifar:

Ljósvíkingar er fjórða mynd leikstjórans Snævars Sölva Sölvasonar en hann hefur áður sent frá sér myndirnar Slægingameistararnir, Albatross og Eden. Ljósvíkingar fjallar um vinina Hjalta og Björn sem reka saman veitingahúsið Rauða húsið á Ísafirði á sumrin. Undir lok sumars ákveður Björn að koma loksins út úr skápnum sem trans kona fyrir bænum og besta vini sínum Hjalta. Hún upplýsir hann um að hún heiti Birna og hafi alltaf verið Birna. Hjalti á erfitt með að sætta sig við þennan nýja veruleika og vill hann helst ekkert með Birnu hafa. Málin flækjast þó þar sem þeim er boðið að halda Rauða húsinu opnu yfir veturinn fyrir danska norðurljósa-túristahópa. Þurfa vinirnir því að geta starfað saman ef þau vilja ekki missa af þessu gullna tækifæri.

Handritið skrifaði Snævar með hjálp Veigu Grétarsdóttur sem sjálf er trans kona auk þess sem að hann fékk ráðgjöf frá bæði Örnu Magneu Danks, sem fer með aðalhlutverk í myndinni, og transaktívistanum Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur. Kvikmyndin markar augljóslega ákveðin straumhvörf í íslenskri kvikmyndagerð þar sem þetta er fyrsta íslenska myndin í fullri lengd þar sem trans kona fer með aðalhlutverk því Arna Magnea Danks, sem fer með hlutverk Birnu, er auk þess fyrsta leiklærða trans konan á Íslandi.

Snævar er sjálfur Bolvíkingur og skín það í gegn í myndinni sem gerist nær öll á Ísafirði.

Það er smábæjarbragur yfir myndinni sem fylgir mikill sjarmi og er ljóst að Snævari er annt um sveitarfélagið og það fólk sem býr þar. Það hefði verið mjög auðvelt, sérstaklega fyrir leikstjóra af mölinni, að mála smábæinn einungis sem uppfullan af fordómum. Þess í stað verður til mikil samstaða og samhugur hjá bæjarbúum um að koma vel fram við Birnu, enda er kominn tími til að tilvist trans fólks sé ekki bara sýnd sem eilíf sorg. Í samhengi bæjar þar sem að allir þekkjast verður svo bersýnilegt hvað það ætti ekki að vera vandamál að koma fram við fólk af virðingu.

Hjalti á þó erfiðara með þetta en aðrir. Björn Jörundur, sem fer með hlutverk hans, fer í fýlu og stendur gapandi forviða hvað eftir annað þegar Birna og samstarfsfélagar hans krefja hann um að vera almennilegur. Myndin er þó ávallt á léttum nótum og er Björn Jörundur drepfyndinn sem þröngsýna kjánaprikið. Þrátt fyrir að verið sé að kljást við erfið málefni er þó aldrei langt í ákveðna kímni eða grín. Birna til dæmis stendur uppi í hárinu á Hjalta þegar hann er að vera vitlaus og hún svarar fyrir sig og gerir grín að honum. Grínið er sem betur fer aldrei að kýla niður fyrir sig í hinseginleikann og er virðingin fyrir honum augljós. Samt sem áður verður grínið einstaka sinnum að hulu fyrir sársauka sem skýrt er að býr að baki ákveðnum málum. Samræður sem snerta á málefnum sem áhugaverðara hefði verið að taka lengra og dýpra leiðast stundum út í léttúðugra grín.

Veruleiki trans fólks er samt sem áður vel framsettur og myndin fræðir áhorfendur um trans tilveruna. Birna segir frá leiðréttingarferlinu og líðan sinni og við fylgjumst með upplifun hennar af því hvernig bærinn tekur henni. Arna Magnea á sérstaklega skilið hrós fyrir leik sinn í hlutverki Birnu þar sem henni tekst vel að miðla þessum flóknu tilfinningum sem krauma undir niðri og brjótast út í kjölfar þess að hún kemur út fyrir vinum og vandamönnum.

Það er þó megineinkenni myndarinnar að hún snýst aðallega um það hvernig Hjalti lærir að lifa með því að besta vinkona hans sé trans. Hann á í sambandserfiðleikum við konuna sína sem býr með syni þeirra í Reykjavík. Mæðginin þurftu að flýja Ísafjörð þar sem krakkarnir lögðu son þeirra í grimmilegt einelti fyrir að vera samkynhneigður. Samhliða því hrífst hann af gamalli vinkonu sinni, sem leikin er af Söru Dögg Ásgeirsdóttur, en hún er nýflutt aftur í bæinn frá Kaupmannahöfn eftir að eiginmaður hennar lést. Verða þessar hliðarsögur að tækifærum til þess að sýna Hjalta vaxa, læra og fagna hinsegin manneskjunum í sínu lífi.

Það er þó ákveðin synd að Hjalti fái svona mikinn skjátíma og sínar eigin litlu sögur þegar tími Birnu á skjánum er skertur á móti og nær allt sem snýr að henni snýst um transleika hennar. Birna er besti kokkurinn í bænum og það hefði til dæmis verið gaman að sjá hana fá sitt tækifæri til þess að skína á veitingastaðnum í sinni eigin hliðarsögu tengdri matargerðinni. Í staðinn er oft eins og sagan sé um miðaldra manninn Hjalta að dúlla sér á Sjóminjasafninu, á hálfgerðu stefnumóti eða í sambandskrísu sinni til skiptis við innskot sem varða transmálefni og hinseginleika Birnu. Birna er í raun mun áhugaverðari og ferskari karakter en Hjalti og hefði verið skemmtilegra að sjá meira af henni. Vináttan sem átti að vera til staðar á milli þeirra er heldur ekki sett upp nógu vel í upphafi myndar. Virðist því stundum sem hún hafi ekki verið til staðar þegar þau eyða takmörkuðum tíma saman eftir að Birna kemur út úr skápnum. Hefði til dæmis getað verið betra að einskorða myndina meira við veitingastaðinn og leyfa sambandi vinanna að þróast innan veggja Rauða hússins.

Sagan á sér stað yfir nokkra mánuði og er Ísafjörður gullfallegur þegar kvikmyndatökuvélinni er beint að náttúrunni. Í samtölum vantar þó upp á kvikmyndatökuna, oft eru notuð mjög einföld skot þar sem myndavélin beinist að persónum á meðan þær standa eða sitja og tala, skot sem á ensku eru kölluð shot/reverse shot. Hefði jafnvel verið hægt að láta persónurnar oftar vera að gera eitthvað á meðan þær töluðu saman til þess að gefa römmunum meira líf. Myndmálið hefði einfaldlega mátt nota á mun áhrifaríkari hátt.

Ljósvíkingar er þó greinilega með hjartað á réttum stað. Hún er hugljúf og fyndin þrátt fyrir að hún grafi ekki alltof djúpt og er hressandi að sjá mynd sem gefur hinseginleikanum rými til þess að vera til í gleðinni en ekki bara sorginni. Ef það er eitthvað sem hún sannar er það að við getum öll lært að koma almennilega fram við hvert annað. Nýr veruleiki blasir við Hjalta þar sem hann þarf að breyta hvernig hann ávarpar Birnu og stoppa sig af þegar sonur hans eignast vinkonu í skólanum sem er auðvitað bara vinkona. Hann er þó tilbúinn að læra og kjarnast það svo fallega í því þegar hann segir frá björgunarbátnum Maríu Júlíu. Hún var vígð á Ísafirði um sömu mundir og Þjóðleikhúsið var opnað í Reykjavík. Fyrir Hjalta er það sem gerir samfélag að samfélagi það hvernig hugsað er um menninguna og íbúa landsins. Menningin er bæði leikhúsin og sjóminjar báta eins og Maríu Júlíu sem höfðu það eina hlutverk að bjarga fólki. Samfélag sem ekki hlúir að öllum þeim sem búa innan þess og skeytir ekki um menningu sína mætti ekki samfélag kalla.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR