Hátíðin, sem var stofnuð af hinum kunna gagnrýnanda Rogert Ebert, er haldin í Chicago í apríl ár hvert. Þá verður Snerting sýnd fyrir 1400 áhorfendur á 50 feta tjaldi í einum fullkomnasta bíósal í Bandaríkjunum.
Baltasar segir þetta mikinn heiður. „Roger Ebert var geysilega áhrifamikill og arfleið hans lifir enn. Ég deili þessum verðlaunum með samstarfsfólki mínu sem á ekki síður en ég þátt í velgengni Snertingar.“
Meðal þeirra sem áður hafa fengið Gullna þumalinn eru Oliver Stone, Ava DuVernay og Guillermo del Toro.
Snerting hefur fengið frábærar viðtökur, bæði hér heima og vestanhafs, þar sem gagnrýnendur hafa hlaðið hana lofi. Leikarar myndarinnar, ekki síst Egill Ólafsson, hafa fengið afbragðsdóma og það sama má segja um aðra sem koma að myndinni. Bergsteinn Björgúlfsson hefur til dæmis verið rómaður fyrir kvikmyndatöku, Sunneva Weisshappel fyrir leikmynd, Högni Egilsson fyrir tónlist og Margrét Einarsdóttir fyrir búninga.
Snerting hefur verið tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og er hún nú stærsta mynd þessa árs á Íslandi. Hún hefur þegar verið sýnd í Þýskalandi og Ástralíu, en sýningar hefjast í Bretlandi 30. ágúst. Á næstu mánuðum mun Universal Pictures dreifa myndinni um allan heim.