Kvikmyndamiðstöð auglýsir eftir ráðgjafa fyrir heimildamyndir og þjónustufulltrúa

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur auglýst tvö störf laus til umsóknar, annarsvegar ráðgjafa fyrir heimildamyndir og hinsvegar þjónustufulltrúa.

Kvikmyndaráðgjafi fyrir heimildamyndir

Kvikmyndaráðgjafi er sjálfstætt starfandi sérfræðingur sem leggur listrænt mat á umsóknir og með hliðsjón af fjárhags- og framkvæmdaþáttum. Ráðgjafi heimildamynda fylgist jafnframt með framvindu þeirra verkefna sem stuðning hljóta.

Kvikmyndaráðgjafi skal hafa staðgóða þekkingu og/eða reynslu á sviði heimildamyndagerðar og má ekki hafa hagsmuna að gæta varðandi úthlutun eða gegna störfum utan Kvikmyndamiðstöðvar sem tengjast íslenskri kvikmyndagerð meðan á ráðningartíma stendur. Umsækjandi þarf að hafa lokið námi frá viðurkenndum kvikmyndaskóla og/eða hafa a.m.k. 3ja ára starfsreynslu af einhverri af lykilstöðum í gerð heimildamynda. Gert er ráð fyrir að kvikmyndaráðgjafi fylgist vel með innlendri og alþjóðlegri heimildamyndagerð. Að auki er mikilvægt að ráðgjafi hafi breiða þekkingu og gott menningarlæsi.

Krafist er góðrar íslensku- og enskukunnáttu, auk þess er kunnátta í einu Norðurlandamáli kostur.

Í starfinu felst nákvæm fagleg skoðun og skriflegur rökstuðningur ákvarðana. Mikilvægt er að ráðgjafi hafi góða samskiptahæfileika og eigi auðvelt með að tjá sig jafnt í ræðu sem í riti.

Ráðgjafi á í virku samstarfi við framleiðslustjóra, og aðra starfsmenn KMÍ á sviði framleiðslu og kynninga.

Umsóknir skulu berast til Martin Schlüter framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvar í formi ferilskrár ásamt kynningarbréfi, á netfangið martin.schluter@kvikmyndamidstod.is

Umsóknarfrestur er til og með 10.september.

Þjónustufulltrúi á skrifstofu

Kvikmyndamiðstöð Íslands óskar eftir að ráða fjölhæfan, áreiðanlegan og drífandi einstakling á skrifstofu miðstöðvarinnar í Reykjavík. Þjónustufulltrúi sinnir fjölbreyttum verkefnum m.a. móttöku gesta, skipulagningu viðburða, skjalavistun, bókhaldsverkefnum og vefumsjón. Í starfinu reynir á samskiptafærni og skipulögð vinnubrögð.

Um staðbundið starf er að ræða en Kvikmyndamiðstöð Íslands er staðsett á Hverfisgötu 54 í Reykjavík. Opnunartími miðstöðvarinnar er frá 9-12 og 13-16 alla virka daga nema á föstudögum en þá er opið frá 9-12.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Viðvera á opnunartíma skrifstofunnar, móttaka gesta, símsvörun og úrvinnsla erinda.
  • Skjalavarsla og ábyrgð á skráningum mála í málsmeðferðarkerfi.
  • Þátttaka í bókhalds- og uppgjörsverkefnum.
  • Aðstoð við úrvinnslu gagna varðandi kvikmyndamál, skráningu þeirra og birtingu upplýsinga á vef og samfélagsmiðlum miðstöðvarinnar.
  • Þátttaka í mótun verklagsreglna, kortlagningu ferla og þróun gæðamála.
  • Skipulagning viðburða á vegum miðstöðvarinnar, t.d. fyrir vinnustofur og námskeið.
  • Ritun fundargerða.
  • Ýmis önnur tilfallandi verkefni.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun og reynsla sem nýtist í starfi.
  • Reynsla af sambærilegum verkefnum er kostur.
  • Framúrskarandi samskiptahæfni, sveigjanleiki, jákvæðni og þjónustulund.
  • Frumkvæði og skipulögð vinnubrögð.
  • Góð almenn tölvukunnátta og reynsla af Office365 umhverfinu. Reynsla af skjalavistunarkerfum og/eða vefumsjónarkerfum er kostur.
  • Geta til að vinna með gögn og miðla upplýsingum á aðgengilegan hátt.
  • Mjög góð íslensku- og enskukunnátta í töluðu og rituðu máli.

Þjónustufulltrúi heyrir undir fjármála- og rekstrarstjóra. Um fullt starf er að ræða.

Sótt er um starfið gegnum heimasíðu Vinnvinn.

Við hvetjum öll áhugasöm, óháð kyni og uppruna, til að sækja um.

Umsókn skal fylgja ferilskrá og ítarlegt kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur um hæfni viðkomandi til að gegna starfinu.

Umsjón með starfinu hafa Margrét Stefánsdóttir (margret@vinnvinn.is) og Auður Bjarnadóttir (audur@vinnvinn.is).

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR