LJÓSBROT og O (Hringur) til Toronto

Tvær kvikmyndir Rúnars Rúnarssonar, bíómyndin Ljósbrot annarsvegar og stuttmyndin O (Hringur) hinsvegar, hafa verið valdar á Torontohátíðina sem fram fer 5.-15. september.

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto (TIFF) í Kanada er stærsta og jafnframt mikilvægasta kvikmyndahátíð Norður-Ameríku. Vinni O (Hringur) aðalverðlaunin á hátíðinni verður myndin sjálfkrafa hluti af forvali fyrir Óskarsverðlaunin 2025 en Rúnar var einmitt tilnefndur til þeirra árið 2006 fyrir Síðasta bæinn.

Ljósbrot verður sýnd í Centrepiece flokki hátíðarinnar sem einblínir á nýjar samtímamyndir eftir þekkta leikstjóra og á myndir sem skara fram úr á líðandi stundu.

Ljósbroti hefur vegnað vel á hátíðum allt frá því hún var heimsfrumsýnd á Cannes hátíðinni og hlotið fjögur alþjóðleg verðlaun. Myndin verður frumsýnd á Ísland þann 28. ágúst. Með aðalhlutverk fara Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.

Myndin gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu og upphefst rússibanaferð tilfinninga. Þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.

Heather Millard, framleiðandi beggja myndanna, segir valið til marks um stöðu Rúnars í alþjóðlegri kvikmyndagerð. “Að eiga tvær myndir á hátíð af þessari stærðargráðu er auðvitað einstakt afrek. Cannes og Feneyjar eru stóra sviðið í Evrópu. Ljósbrot var opnunarmynd á Cannes og O (Hringur) er í aðalkeppni í Feneyjum. Við erum auðvitað orðlaus yfir þessari velgengni og viðurkenningum beggja mynda og nú að vera komin til Toronto sem er stóra sviðið í Norður Ameríku.”

Rúnar segir þetta viðurkenningu fyrir alla sem að verkunum komu sem og fyrir íslenska kvikmyndagerð. Hann hlakkar til að frumsýna myndirnar hér heima. “Við byrjum á Ljósbroti 28. ágúst og svo mun O (Hringur) fara í sýningar 5. september. Við erum að gera myndir fyrir íslenska áhorfendur, sem gerast í íslenskum veruleika. Til að mynda er það svo merkilegt hvað það er mismunandi á milli landa hvar fólk hlær. Við erum spennt að heyra hversu mikið Íslendingar hlæja og hvar.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR