Sara Nassim og Grímar Jónsson taka höndum saman í Sarimar Films

Framleiðendurnir Sara Nassim (Dýrið) og Grímar Jónsson (Northern Comfort) hafa stofnað nýtt framleiðslufyrirtæki, Sarimar Films. Ný kvikmynd Gríms Hákonarsonar, 200 Kópavogur, verður fyrsta verkefni hins nýja félags.

Fjallað er um þetta í ScreenDaily. Þar kemur meðal annars fram að bæði munu halda áfram að reka sín eigin sjálfstæðu framleiðslufyrirtæki utan hins nýja samstarfs – Sara hjá S101 (sem hún rekur ásamt Hrönn Kristinsdóttur) og Grímar hjá Netop Films. Þau munu skoða hverju sinni hvaða verkefni henta best til að fara í gegnum Sarimar.

Þau segja: „Hugmyndafræði okkar er frekar einföld. Saman stöndum við sterk og myndum þannig regnhlíf fyrir fyrirtækin okkar og þau verkefni sem við erum að vinna saman og sitt í hvoru lagi. Sarimar Films er ekki bara fyrirtæki heldur hreyfing; samstarf okkar við fagfólk sem okkur þykir vænt um og viljum vinna áfram með. Við viljum virkja umfangsmikið tengslanet okkar betur, innanlands sem utan, í þágu verkefna okkar og byggja á reynslu okkar í þróun, fjármögnun og framleiðslu kvikmyndaðs efnis.

200 Kópavogur í leikstjórn Gríms Hákonarsonar, sem einnig skrifar handrit, hefur þegar fengið handritsstyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Stefnt er á að hefja tökur síðsumars 2025.

Sagan gerist á sjöunda áratugnum og fjallar um tvo bræður sem eru meðal fyrstu íbúa nýs bæjar á Íslandi. Dag einn biður eldri bróðirinn þann yngri um greiða sem á eftir að hafa djúp áhrif á líf þeirra beggja.

„Þetta er í raun þroskasaga yngri bróðurins. Það að sýna varnarleysi karla er eitthvað sem alþjóðlegir áhorfendur geta tengt við,“ segir Sara og Grímur bætir við: „Ef fólki líkaði við Hrúta og kímnigáfu Gríms mun því einnig líka við þessa mynd.“

Sara vinnur nú að frágangi kvikmyndarinnar Cornucopia með Björk hjá fyrirtæki sínu S101. Einnig er í þróun næsta verkefni Valdimars Jóhannssonar. Grímar og Netop Films fara í tökur á kvikmyndinni Eldarnir í leikstjórn Uglu Hauksdóttur síðsumars.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR