Pétur fæddist 31. október 1940 í Vestmannaeyjum, sonur Einars Guttormssonar læknis og Margrétar Kristínar Pétursdóttur húsmóður. Pétur lauk námi frá Leiklistarskóla LR og stundaði leiklistarnám í Georgíu í Bandaríkjunum. Hann átti langan og farsælan feril sem leikari og leikstjóri í leikhúsi, aðallega hjá Leikfélagi Reykjavíkur.
Pétur tók einnig þátt í íslenskri kvikmyndagerð, allt frá því að hún komst á skrið á síðari hluta áttunda áratugs síðustu aldar. Þannig kom hann fram í Morðsögu (1977), Veiðiferðinni (1980), Á hjara veraldar (1983) og átti sérlega eftirminnilegan sprett í Hrafninn flýgur (1984). Hann var einnig frábær sem ófyrirleitinn herforingi og fjölskyldufaðir í stuttmynd Óskars Jónassonar, SSL-25 (Sérsveitin Laugarnesvegi 25, 1989). Meðal margra annarra mynda sem hann lék í eru Fíaskó, Ikingút og Englar alheimsins (allar 2000), Nói albínói (2003), Strákarnir okkar (2005) og Kurteist fólk (2011).
Eftirlifandi eiginkona Péturs er Birgitte Heide, listdansari og kennari hjá Listdansskóla Íslands. Pétur lætur eftir sig sex börn og ellefu barnabörn.