Brynja Björk Garðarsdóttir aðalhöfundur dystópísku spennuþáttanna VAKA fyrir Amazon MGM Studios

Aðalhöfundur þáttanna er Brynja Björk Garðarsdóttir sem skrifar einnig handrit ásamt Pauline Wolff.

Henrik Georgsson (Brúin) leikstýrir þáttunum og Aliette Opheim og Jonas Karlsson eru í aðalhlutverkum.

Bakgrunnur Brynju liggur í blaðamennsku og markaðsmálum en undanfarin ár hefur hún starfað við auglýsinga- og kvikmyndagerð ásamt eiginmanni sínum, Guðjóni Jónssyni leikstjóra.

Þættirnir, sem gerast í Stokkhólmi, fjalla um útbreiðslu banvæns faraldurs sem veldur krónísku svefnleysi. Fylgst er með ráðherra í fjölmiðlakrísu sem berst við að halda landinu á réttum kili gegnum faraldurinn, sjúkraflutningakonu sem berst fyrir lífi eiginkonu sinnar og unglingsstúlku sem reynir að vernda ungan nágrannastrák frá fjölskyldu hans sem berst við hrikaleg áhrif sjúkdómsins. Þessar þrjár frásagnir fléttast síðan saman á meðan ótti og skelfing heltekur Stokkhólm og fangar íbúa borgarinnar í lifandi martröð.

Vaka er samframleiðsluverkefni Amazon MGM Studios, Unlimited Stories, Sagafilm og Skybound Entertainment með stuðningi frá kvikmyndaendurgreiðslukerfi menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Skybound Entertainment sér um dreifingu utan Norðurlanda.

Áætlað er að tökur hefjist nú í mars. Stefnt er að því að serían verði frumsýnd á Prime Video Nordics í nálægri framtíð og á RÚV hérlendis.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR