[Kitla] Bíómyndin EFTIRLEIKIR væntanleg í haust

Þetta er frumraun Ólafs Árheim Ólafarsonar, sem nam í Kvikmyndaskóla Íslands.

Þetta er frumraun Ólafs Árheim Ólafarsonar, sem nam í Kvikmyndaskóla Íslands.

Kynningarstikla kvikmyndarinnar Eftirleikir er komin út. Fyrirhugað er að myndin komi í kvikmyndahús í haust. Verkinu er svo lýst:

Maður í leit að dauðanum og kona sem er að flýja lífið reyna að gera upp ofbeldisfulla fortíðina með meira ofbeldi, þvert á plan alheimsins.

Með helstu hlutverk fara Andri Freyr Sigurpálsson, Jói G. Jóhannsson og Vivian Ólafsdóttir. Eggert Þ. Rafnsson, Halldór Gylfason og Ólafía Hrönn Jónsdóttir koma einnig fram.

Ólafur leikstýrir, skrifar handrit ásamt Róbert Keshishzadeh og framleiðir, en meðframleiðendur eru Ásdís Sandra Ágústsdóttir og Andri Freyr Sigurpálsson.

Eftirleikir er mynd sem ég byrjaði að gera þegar ég var 21 árs gamall og nýkominn úr Kvikmyndaskólanum, nýbúinn að vinna Bjarkann fyrir bestu útskriftarmynd og fullur af mikilmennsku, segir Ólafur, inntur eftir tilurð verksins.

Hann segir ennfremur:

Ég var hrifinn af hugmyndinni um nútímafólk að fást við ævaforn mótíf eins og hefnd og örlög, og lagði upp með að gera einhvers konar Íslendingasögu í nútímanum – háleit markmið þar á ferð. Þetta yrðu þrjár hálftíma sögur, tengdar saman með persónum og þema, klipptar saman. Þetta hljómaði eins og brilljant, auðveld leið til að gera kvikmynd í fullri lengd og tæki enga stund. Þetta var fyrir 8 árum síðan.

Síðan þá hef ég eignast 3 börn og klárað háskólanám í sagnfræði samhliða því að vinna sem klippari og tökumaður. Mörgum sinnum fór þetta verkefni til hliðar og næstum því ofan í skúffu og ég villtist oft á leið, en ég tók það alltaf upp aftur. Ég hef viljað vera kvikmyndagerðarmaður síðan ég var 9 ára en það var í gegnum þetta ferli sem ég fann ég út úr því hvers konar kvikmyndagerðarmaður það er. Og vegna þess að myndin var gerð í svo mörgum áföngum yfir allan þennan tíma þá þroskaðist hún að miklu leyti með mér.

Myndin er einföld í konsepti, flókin í uppbyggingu. Budgetið er lágt en hljóðið er hátt. Hún flýgur yfir áratugi og kafar djúpt undir skinnið. Þemu hennar finnast kannski í okkar elstu sögum, en hún er gerð fyrir ykkur nútímafólkið. Og þó ég sé allt annar maður í dag en þegar ég byrjaði þá kynni ég með stolti þessa mynd sem minn fyrsta leik.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR