Bankside selur ELDANA á heimsvísu, tökur í sumar

Breska sölufyrirtækið Bankside Films hefur tekið að sér heimssölu á eldfjallatrylli Uglu Hauksdóttur, Eldunum.

Jarðskjálftahrina á Reykjanesi boðar eldgos og Anna, færasti eldfjallafræðingur landsins, er með öryggi almennings í höndum sér. Eldgosið reynist óútreiknanlegt og þegar hún verður ástfangin af manni utan hjónabands, missir Anna tökin á aðstæðum og bíður hættunni heim.

Sagt er frá þessu í ScreenDaily.

Verkið er frumraun Uglu Hauksdóttur og verður tekið upp á Íslandi í sumar. Með helstu hlutverk fara Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Þór Tulinius, Arndís Hrönn Egilsdóttir og Jörundur Ragnarsson.

Ugla og Markus Englmair skrifa handrit, sem byggt er á samnefndri skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur.

„Þegar ég las skáldsögu Sigríðar í janúar 2021 gat ég ekki ímyndað mér að atburðirnir sem lýst er í bókinni gætu orðið að veruleika, en tveimur mánuðum seinna hófst fyrsta gosið í 800 ár á Reykjanesskaga,“ segir Ugla.

„Fimm eldgosum síðar erum við í atburðarásinni miðri og nú hefur Grindavíkurbær verið rýmdur um óákveðinn tíma,“ segir hún ennfremur.

Ugla er fyrsti íslenski kvenleikstjórinn til að hljóta aðild að Directors Guild of America (DGA), en hún hefur meðal annars leikstýrt þáttum í þáttaröðinni Power frá Amazon Studios.

Myndin er framleidd af Grímari Jónssyni hjá Netop Films og Klaudia Śmieja-Rostworowska hjá Madants, sem meðal annars var meðframleiðandi að Dýrinu og Gullregni.

„Þetta er ekki fyrsta íslenska verkefnið sem heillar mig, þau hafa ótrúlegar sögur að segja þarna uppfrá,“ segir Śmieja-Rostworowska.

HEIMILDScreen
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR