Lestin um HÚSÓ: Prýðisgóðir þættir með forvitnilegum persónum

"Skipar sér í röð nýstárlegs sjónvarpsefnis, þar sem íslenskur hversdagsleiki er sögusviðið," segir Brynja Hjálmsdóttir meðal annars í Lestinni á Rás 1 um þátttaröðina Húsó eftir Arnór Pálma Arnarson og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur.

Brynja segir:

Þættirnir segja frá Heklu sem hefur ráfað inn og út af meðferðarstofnunum frá unglingsaldri. Í upphafi sögunnar fáum við að vita að hún hefur misst allt frá sér, meðal annars það mikilvægasta af öllu, forræðið yfir dóttur sinni. Barnaverndaryfirvöld gera henni ljóst að eini möguleikinn á að fá að hitta dótturina aftur, og mögulega vinna forræðið á ný, sé annars vegar að halda sér edrú og hins vegar að sýna í verki að henni sé alvara með að halda sig á beinu brautinni. Til að sanna hið síðarnefnda hefur hún verið skráð í Hússtjórnarskólann. Heklu líst ekkert á þetta plan, frekar en neitt annað, hún er á móti öllu. Hún hefur takmarkaðan vilja og færni til að ögra sjálfri sér, sigrast á áskorunum. Hún er sjálfhverf því hún er haldin fíknisjúkdómi, sem er sjálfhverfastur allra sjúkdóma. Engu að síður hefur Hekla sigrast á stærstu hindrunni, sem er að hætta notkun vímuefna, og með semingi samþykkir hún að hefja námið.

Þegar í skólann er komið er ljóst að þar er ekkert „elsku mamma“ neitt. Í skólanum eru gerðar strangar kröfur um vandvirkni, ástundun og mætingu, orð sem Helka á ekki til í sinni orðabók. Fljótlega verður henni þó ljóst að hún á þess einan kost að láta á þetta reyna ef hún ætlar að rétta sig við og vinna dóttur sína aftur. Hún fer að taka þátt, jafnvel blanda geði við skólasystkini sín, og í ljós kemur að þar er nóg af dramatík.

Það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að áhorfendur gangist Helku á band í þessu stóra markmiði, að endurheimta barnið, því þó að hún hafi kannski sitthvað til brunns að bera, hefur hún ekkert með barnauppeldi að gera. Það er spennandi val hjá höfundum að láta aðalhetju seríunnar vera andhetju. Framan af er hún svo mikil andhetja að það liggur við að hún sé skúrkur. Þetta er áhætta, því það er ekki víst að allir áhorfendur nái að tengjast henni tilfinningaböndum og þar með gætu þeir átt í erfiðleikum með að komast inn í seríuna. Öðrum gæti þótt þetta kostur, að hafa svo breiska og mannlega aðalpersónu, jafnvel þannig að fyrst það er kosið að fara þessa leið á annað borð mætti Hekla vera enn þá meiri óhemja, mætti sjúga sígarettuna aðeins fastar, vera enn þá hvassari og hættulegri, segja eitthvað enn þá ljótara. Fyrsti þátturinn er ögn erfiður að þessu leyti, áhorfendur gætu átt erfitt með að staðsetja sig gagnvart aðalpersónunni og ferðalagi hennar, auk þess hann er nokkuð hlaðin af upplýsingum, sem er reyndar algengt í fyrstu þáttum sjónvarpssería. Það þarf líka smá átak til að kaupa upphafsforsenduna, að einhvers konar yfirvald sendi fólk á glapstigu í Hússtjórnarskólann til að „hafa hemil“ á því. En ef maður kýs að trúa því og ganga inn í þættina fer maður að gangast þessu á band, fer að hafa trú á því að þetta gæti virkað hjá Heklu og krossar fingur í von um að hún standi sig.

Húsó er efni sem ég hugsa að sé frekar beint að fullorðnum en ungmennum en hefur þó vissan ungmennaefnisbrag. Krakkarnir í skólanum virðast ungir, jafnvel ögn yngri en maður upplifir nemendur skólans svona yfirleitt. Þau eru upptekin af þeim málefnum sem almennt heilla ungmenni, djamm, ást og slúður. Það gaman af þessu high-school yfirbragði. Með þessu verður líka skarpt rof á milli nemendanna, sem eru mjög ungir og samtímanum samkvæmir, og kennaranna, sem eru vitaskuld mjög gamaldags. Þannig verður breið og góð dýnamík í hópnum og Húsó tekst markmið sitt, sem er að höfða til breiðs áhorfendahóps.

Þættirnir líta vel út, kvikmyndatakan er til sóma og litlaleiðrétting smekkleg og búningar Brynju Skjaldardóttur eru ansi sannfærandi. Mjög gott smáatriði að nemendur fái lánuð föt hver hjá öðrum. Þættirnir hljóma líka vel, hljóð annast Skúli Sigurgíslason og Gunnar Árnason, tónlist semur Salka Valsdóttir.

Samtölin í Húsó eru lipurlega skrifuð og leikurinn reglulega fínn. Ebba Katrín, sem hefur fyrir löngu sannað sig sem einhver öflugasta leikkona sinnar kynslóðar, skilar góðu verki, þrátt fyrir að hún sé ekki endilega sú fyrsta sem mann hefði dottið í hug fyrir þetta hlutverk. Edda Björgvinsdóttir er frábær í hlutverki skólastjórans Guðrúnar, sem lifir fyrir vinnuna þar sem hún er kóngur, prestur og dómari. Lífið utan veggja skólans, þar sem hún er ekki við stjórn, vekur hjá henni ótta. Hún er í djúpri tilvistarkrísu gagnvart því að þurfa brátt að setjast í helgan stein og virðist tilbúin að brenna allar brýr að baki sér til að þurfa aldrei að hverfa frá þessari litlu búblu sem skólinn er. Þetta er skemmtilegt hliðarplott, maður bíður spenntur eftir að vita hvort hún nái sönsum. Jóhann Kristófer Stefánsson er einstaklega sannfærandi sem Gústi, fávitafyrrverandi, hann nær að spila með áhorfendur jafnmikið og hann spilar með Helku. Aðrir í leikhópum, nemendur skólans og kennararnir, sýna einnig glæsilega frammistöðu.

Besti þátturinn að mínu mati er þáttur númer fjögur. Þar erum við komin vel inn í söguna, þekkjum lögmál heimsins. Í þættinum á undan gengur ofsalega vel, útlitið er bjart og á þeim nótum komum við inn í þátt númer fjögur. Allt virðist vera ganga upp en svo smámolnar undan hinu og þessu, lítils háttar sprungur gera vart við sig, sprungur sem við vitum að muni stækka. Í þeim þætti má líka finna bestu senuna í seríunni, þar sem Hekla og Guðrún, blúsaðar hvor á sinn hátt, baða sig í risastórum vöskum í þvottahúsi skólans og púa sígarettur.

Húsó skipar sér í röð nýstárlegs sjónvarpsefnis, þar sem íslenskur hversdagsleiki er sögusviðið. Hekla er hressandi karakter, ung móðir með fíknivanda sem er ekki viðbjóðslegt skrímsli þótt hún sé sannarlega gallagripur. Þetta er sjaldgæf aðalpersóna, sjaldgæf aukapersóna líka, stundum finnst manni látið eins og slíkar persónur séu einfaldlega ekki til. Þættirnir eru að miklu leyti á léttu nótunum en undirtónninn getur verið alvarlegur, mjög alvarlegur á köflum meira að segja. Þarna er glímt við erfið málefni, fíkn, meðvirkni og kvíða en ljúfari þemu, eins og vinátta, þrautseigja og æðruleysi, eru einnig í forgrunni. Upphaf seríunnar er ögn brokkótt og sjálfsagt hefði mátt liggja betur yfir hinu og þessu. Þegar allt kemst af stað hins vegar eru þetta prýðisgóðir og skemmtilegir þættir með forvitnilegum persónum.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR