Bíó Paradís hlýtur hvatningarverðlaun ÖBÍ

Bíó Paradís hlaut í dag hvatningarverðlaun ÖBÍ réttindasamtaka en þau voru afhent við hátíðlega athöfn fyrr í dag. Fá þau verðlaunin fyrir frumkvæði að því að efla aðgengi fyrir alla með sérstöku tilliti til ólíkra hópa.

Þetta kemur fram á ruv.is og þar segir:

Bíó Paradís hlaut í dag hvatningarverðlaun ÖBÍ réttindasamtaka en þau voru afhent við hátíðlega athöfn í Mannréttindahúsinu fyrir hádegi í dag.

Á Alþjóðlegum degi fatlaðs fólks sem haldinn er í dag, 3. desember, er kastljósinu beint að réttindabaráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess breiða hóps í samfélaginu.

Bíó Paradís hlaut verðlaunin fyrir að auka aðgengi ólíkra hópa. Þau beiti nálgun sem endurspegli nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðli að einu samfélagi fyrir alla.

Fjölbreyttar lausnir í auknu aðgengi

Aukið aðgengi kvikmyndahússins felst meðal annars í því að bjóða upp á bíósýningar á miðjum degi fyrir hópa sem ekki sækja atvinnu vegna ólíkra ástæðna.

Þá hefur allt bíóið verið gert aðgengilegt hreyfihömluðum með uppsetningu rampa og lyftu fyrir hjólastóla. Þau hafa einnig sett tónmöskva í salina en með þeim getur fólk með heyrnartæki fengið hljóðið beint í tækin.

Þau bjóða líka upp á sjónlýsingar á bíómyndum fyrir blinda og sjónskerta auk þess sem fólk með skynúrvinnsluvanda eins og einhverfu getur sótt sérstakar sýningar en þá eru ljósin deyfð og hljóð og aðstæður stilltar þannig að það henti betur því fólki.

Kappsmál Bíó Paradís að fá fjölbreytta hópa til sín

„Eins og við vitum skiptir menning, þátttaka og samvera miklu máli fyrir samfélagið. Það er bensínið okkar og gerir okkur að þeim sem við erum. Þess vegna hefur það verið okkur svo mikið kappsmál að fá alla fjölbreytta hópa samfélagsins inn.

En ávinningurinn er allur okkar megin því menningarlega auðmagnið sem við fáum inn frá því að geta boðið alla velkomna er okkar megin,“ sagði Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís þegar hún veitti verðlaununum móttöku.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR