Á vef RÚV segir:
Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi hefur framleitt um 60 myndir og sjónvarpsþáttaraðir í Hollywood og þekkir því umhverfið í þessum bransa vel. Hann segir að þessi kjaradeila, eins og aðrar, snúist um kaup og kjör en bendir á að handritshöfundar séu tvenns konar – þeir sem skrifa handrit út frá eigin hugmynd og þeir sem eru ráðnir til að skrifa eftir hugmynd annarra. „Þetta eru tveir ólíkir hlutir. Ef handritshöfundur er algjörlega upphafsmanneskjan af handritum þá er sjaldan efi um hver er höfundur verksins. Þá er þetta spurning um höfundarrétt. Þetta verkfall snýst um kaup og kjör en það snýst líka um virðið – hvernig er verkið metið.“
Sigurjón bendir á að áður fyrr hafi verið í gildi þögult samkomulag um virði verksins sem byggði á heildartekjunum sem verkið aflaði, ekki aðeins við sköpun þess heldur næstu áratui á eftir. Það hafi bæði átt við um handritshöfunda og leikara.
Það sem bætist hins vegar við nú er gervigreindin, en hluti af kröfum handritshöfunda var að tryggja að gervigreindin ylli þeim ekki tekjutapi. „Segjum sem svo að í dag vilji stúdío framleiða myndir án leikara og handritshöfundar og nota gervigreind – þetta er ein af þeim hættum sem handritshöfundar bentu á – þá vilja þeir ekki að það sé hægt að búa til þær persónur og þær sögur algjörlega með gervigreind,“ segir Sigurjón.
Segja má að þessar kröfur séu birtingarmynd þeirra breytinga sem streymisveitur ollu, en þær veita aðgang að öllu sínu efni fyrir ákveðna mánaðargreiðslu.
„Þá ertu í raun búinn að jafnvirða allt efnið sem þú ert að horfa á, hvort sem það er Star Wars sem kostar mörg hundruð milljónir dollara eða lítil heimildarmynd sem er framleidd til dæmis í Bretlandi,“ segir Sigurjón. „Veiturnar hafa alltaf neitað að gefa upp tölur um áhorf og annað slíkt. Hér hefur orðið ákveðin virðisrýrnun – maður veit ekki hvort fleiri eru að horfa á Star Wars eða heimildarmynd um Norðurheimskautið. Og ef höfundur Star Wars veit það ekki þá veit hann ekki hvert verðgildið er annað en það sem var greitt fyrir grunnvinnuna.“
Dæmi um þetta eru þættirnir Suits sem hófu göngu sína í sjónvarpi árið 2011 en eftir að þeir komu inn á Netflix í sumar slógu þeir met í streymi yfir eina viku.
„Venjulega kom til einhver hagnaðargreiðsla til handritshöfunda og leikara í samningum, ef verkið væri að fara að skila hagnaði,“ segir Sigurjón. „Netflix klippti á þennan þráð og sagði að þeir fengju bara eingreiðslu, 20% meira ef verkið yrði vinsælt. Meira var ekki greitt. Og þeir töldu sig ekki skylduga til að hvorki sýna né auglýsa verkið. Þetta varð til þess að það var klippt á virðismatið á verkinu.“
Engar samningaviðræður mánuðum saman
Verkfallið hófst 1. maí. Fyrstu áhrifin voru merkjanleg viku seinna þegar kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun MTV, sem áttu að fara fram 7. maí, var frestað. Ástæðan var að margir sem áttu að kynna verðlaunin, þar á meðal aðalkynnirinn Drew Barrymore, drógu sig í hlé til að sýna samstöðu með handritshöfundum.
Mánuðum saman var ekkert samtal á milli framleiðenda og handritshöfuna. Sigurjón segir að þegar leikararnir bættust við hafi það aftur á móti haft áhrif – til dæmis hafði það verið til umræðu að spjallþættir, meðal annars þáttur Drew Barrymore, héldu áfram án handritshöfunda. „Um leið og leikararnir fóru líka í verkfall sást að það var það mikil samstaða í heild innan geirans að þeir lögðu ekki í að halda spjallþáttunum áfram. Þannig að það er greinilega mjög mikil stéttarvitund í Hollywood.“
Drew Barrymore fékk að kenna á þessari stéttarvitund. Hún vakti reiði handritshöfunda með því að ákveða um miðjan september, meðan á verkfallinu stóð, að fara af stað með þáttinn. Hún var gerð afturreka með þá ákvörðun og handritshöfundarnir sem höfðu unnið með henni neituðu að snúa aftur. Drew Barrymore bast afsökunar í tárvotu myndskeiði.
Sigurjón bendir líka á að hagsmunir handritshöfunda og leikara séu um margt þeir sömu – verðgildi vinnunnar. „Segjum sem svo að Harrison Ford, sem er áttræður, hefði ekki fengið neitt fyrir endursýningar á Indiana Jones eða Starwars-myndunum, hefði hann þá tekið þátt í framleiðslu fleiri mynda? Fyrra kerfi, sem var kallað stjörnukerfi, tryggði ákveðið verðgildi. Mynd með Leonardo DiCaprio og Juliu Roberts hafði þegar ákveðið virði þegar andlit þeirra voru komin veggspjaldið. Nú segjast þau ekki vinna fyrir Netflix þar sem þau vita ekki hvort þau séu einhvers virði þar.“
Framleiðsluseinkun á fjölda þátta og mynda
Verkfallið seinkaði framleiðslu á hátt í 40 þáttum og kvikmyndum sem eru framleiddar í Hollywood.
Frumsýningum á Marvel-myndum á borð við Blade, Captain America og framhaldskvikmyndum af Avengers og Avatar hefur verið frestað. Sem dæmi átt að frumsýna Avatar 3 í desember á næsta ári – því verður seinkað um eitt ár – sem og öðrum framhaldsmyndum af Avatar – sú fimmta verður sýnd árið 2031.
Amazon hefur tilkynnt að hætt hafi verið við aðra seríu framtíðartryllisins The Peripheral og League of their own, sem fjallar um kvennalið í hafnabolta á stríðsárunum.
Eins fór með sjónvarpsþætti á borð við Abbott Elementary, Young Sheldon, Grey’s Anatomy og Law and Order – nýjar þáttaraðir verða ekki tilbúnar í haust eins og til stóð.
Nýjum þáttaröðum af frægum þáttum á Netflix seinkar líka, til dæmis af Emily in Paris og Stranger Things.
Raunveruleikaþættir fleiri en venjulega
Streymisveiturnar eiga þó efni til að bjóða fram. Það er erfiðara hjá sjónvarpsstöðvunum og þeirra haustdagskrá hefur fyllst af raunveruleikaþáttum og endurteknum þáttum. ABC sjónvarpsstöðin, sem hefur verið með þættina The Bachelor, kom til dæmis með nýja útgáfu, The Golden Bachelor. Þar er piparsveinninn sjálfur, Gerry Turner, 72 ára ekkjumaður, og þær sem keppa um hylli hans þurfa að vera eldri borgarar – 65 ára og eldri. Þessi þáttaröð átti reyndar að fara af stað 2020 en heimsfaraldurinn seinkaði því. Hann var settur á fimmtudagskvöld til að fylla rými sem skrifaður þáttur átti að fá.
Spjallþættir, sem hafa legið niðri, eru hins vegar farnir í gang – með mönnum eins og Jimmy Fallon og John Oliver.
Áhrifin eru hins vegar meiri en á framleiðsluhraða sjónvarpsþátta og kvikmynda. Framleiðendur hafa tapað miklum tekjum á þessu verkfalli – til að mynda er tap Warner Bros. talið vera 300-500 milljónir dollara, allt að 70 milljarðar króna. Þá er ótalið afleitt tap af að tökur liggja niðri, til dæmis hjá hótelum, veitingastöðum, bílaleigum og rútufyrirtækjum, svo eitthvað sé nefnt. Og Emmy-verðlaunahátíðin, sem hefði átt að fara fram í september og ná yfir tímabilið júní 2022 til maí 2023, fer ekki fram fyrr en í janúar.
Margar kröfur uppfylltar í samningum
Samkomulag náðist ekki fyrr en 27. september, og þá aðeins við handritshöfunda því leikararnir eru ennþá í verkfalli þegar þessi orð eru skrifuð. Verkfall handritshöfunda hafði þá staðið í 148 daga, fimm dögum styttra en lengsta verkfallið í sögu handritshöfunda.
Samkvæmt samkomulaginu fengu handritshöfundar ýmislegt fyrir sinn snúð. Grunnlaunin hækkuðu. Tryggja á að gervigreind fækki hvorki störfum né lækki laun, þó að ekki sé lagt bann við að hún sé notuð. Sigurjón telur þetta stærstu umbæturnar sem náðust fram í samningnum. Handritshöfundar fá einnig umbun ef eldri þættir slá í gegn á streymisveitum og eiga rétt á upplýsingum um áhorf þátta á slíkum veitum.
Þriðja viðbótin er svo sú að settur er inn lágmarksfjöldi handritshöfunda í minni þáttagerð. Félag handritshöfunda hafði krafist sex til tólf höfunda á hverja þáttaröð, eftir því hve margir þættirnir eru í hverri seríu. Málamiðlunin var sú að þeir sem stýra þáttum fá sveigjanleika til að ráða ákveðinn fjölda handritshöfunda eftir því hvaða fjármagn er sett í þættina.
Skortur á efni eftir 12-18 mánuði
Sigurjón segir áhrif verkfallsins ekki orðin þannig að áhorfendur verði varir við skort á efni. Framleiðsla á efni tekur tíma og ýmislegt var tilbúið eða komið vel á veg – en fyrst leikararnir fóru líka í verkfall sjá áhorfendur á endanum áhrif. Þau verði þó minni á streymisveitum en í kvikmyndahúsum.
„Það er vegna þess – og kannski er sjónvarpsfólk ekki hresst með þessa skoðun mína – að við gerum minni kröfur til efnis sem við erum að horfa á heima í gegnum streymisveitur. Það er alveg sama hvort það er í gegnum RÚV, sem er borgað með nefskatti, eða streymisveitu sem við borgum í mánaðarlega. Við gerum minni kröfur af því við fáum svo mikið magn en ekki endilega gæði. Aftur á móti held ég að þetta hafi mikil áhrif á kvikmyndabransann. Það verða mun færri myndir og þess vegna erfiðara að búa til eftirspurn.“
Sigurjón segir að auk þess sé hægt að framleiða sjónvarpsefni hraðar, meðal annars með tilkomu nýju samninganna sem hækkar lágmarksfjölda handritshöfunda. „Það verður engu að síður mikil vöntum á nýju efni eftir 12-18 mánuði, í 12-18 mánuði á eftir. Ég held að það sé ekki spurning um það.“
Skaðleg áhrif á framleiðendur
Sigurjón segir afleiðingar þessa samnings verða töluverðar fyrir framleiðendurna. „Ég held að þegar upp er staðið skaðist rekstrargrundvöllur stúdíóanna gífurlega mikið með þessum nýja samningi. Þau þurfa að sýna mun meira gegnsæi en þau hafa áður gert, þau þurfa að greiða mun meira bæði fyrir framleiðslu, í framleiðslu og í eftirgerð verksins. Ég held að það geti þýtt að þeirra framtíðartekjur af framleiddu efni verði mun minni.“
Og til lengri framtíðar gætu afleiðingarnar verið enn alvarlegri. „Ég er ekkert viss um að þessi stúdíó verði til eftir 10 ár í þeirri mynd sem þau eru í dag,“ segir Sigurjón og útskýrir þetta með því að með tilkomu Netflix hafi tekjurnar aukist af því að Netflix framleiddi ekkert sjálft heldur keypti efni af öðrum framleiðendum. Þegar Netflix ákvað síðan að fara í eigin framleiðslu fannst framleiðendunum að þeir þyrftu að vera með eigin streymisveitur, sem aftur ýtti undir enn meiri framleiðslu. „Þeir missa tekjur og þurfa síðan að framleiða miklu meira. Ég held að þetta gjörbreyti þeirra viðskiptamódeli.“
Sigurjón treystir sér ekki til að spá fyrir um hvað tæki við ef þessir hefðbundnu framleiðendur yrðu ekki til í þessari mynd eftir tíu ár. Breytingarnar verða þó töluverðar, og nefnir þetta dæmi af Netflix. „Gamla tekjumótið fyrir Netflix er ekki að virka lengur vegna þess að þeir eru búnir að missa svo mikið efni og eru farnir að gera ráð fyrir því að þurfa að framleiða allt sjálfir. Núna koma þessir nýju samningar, þannig að þeir þurfa bæði að hækka verð og bæta við auglýsingum, sem er gamalt módel. En Netflix segjast geta fyrir sömu fjárhæð og í fyrra, 15-17 milljarða dollara, jafn mikið efni og þeir gerðu árin áður. Og þá spyr maður: hvernig gera þeir það? Auðvitað með því að eyða minna í hvern þátt.“
Það er hins vegar misauðvelt fyrir fyrirtækin að standa undir framleiðslukostnaðinum, og getan er misjöfn til að framleiða gott efni. „20 milljarðar dollara fyrir Apple er ekki neitt. 20 milljarðar dollara fyrir Amazon er ekki neitt. Það hreyfir varla nálina. Þetta eru fyrirtæki sem eru allt að þúsund milljarða dollara virði þegar Apple hefur farið sem hæst. Mér hefur fundist gæði mjög mikil á efninu frá hjá Apple og Amazon, en þau eru ekki að framleiða mikið. Á meðan þarf Netflix að framleiða og framleiða og gæðin eru þá misjöfn. Framleiðendur voru áður að eyða 12-13 milljörðum dollara á ári í kvikmyndirnar og sjónvarpsþættina sem þeir framleiddu fyrir þær miðlunarleiðir sem voru til þá. Nú þurfa þeir að bæta streymisveitunum við, og reka þær. Þannig að ég held að þetta verði töluvert annar leikur, og ég er ekki viss um að þetta rekstrarmódel, með þessum 7-8 stúdíóum, verði til eftir 10 ár.