„Hafsteini tekst mjög vel að búa til skemmtilega karaktera sem er virkilega gaman að fylgjast með skjóta sig aftur og aftur í fótinn,“ segir Kolbeinn Rastrick í Lestinni um Northern Comfort eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson.
Kolbeinn skrifar:
Fáir geta ímyndað sér nokkuð betra en að ferðast um heiminn, hvort sem er á framandi slóðir eða sólarströnd með Íslendingabar. Sá fasti liður sem fylgir nær öllum ferðalögum til og frá Íslandi er þó alltaf flugferðin. Sumir hafa þó brugðið á það ráð að prófa að keyra af landi brott en oftast leiðir það bara af sér að bíllinn endar á botni Reykjavíkurhafnar. Sumir hrópa nú kannski á útvarpið „það er hægt að sigla!“ en hver nennir að vagga og veltast yfir Atlantshafið í margar klukkustundir umkringdur Dönum. Flugleiðin skal það því vera.
Þó eru ekki allir sammála um hversu mikil snilld, sigur okkar á háloftunum er. Til dæmis deila söguhetjur kvikmyndar vikunnar ekki þeirri skoðun. Þau eru þátttakendur í námskeiðinu Fearless Flyers, eða Fífldjarfir flugfarþegar á íslensku. Á námskeiðinu læra þau að sigrast á ofsahræðslu sinni við flugferðir. Það var alla vega ætlunin. Það virðist sem það verði hægara sagt en gert í tilfelli söguhetjanna.
Á þessari hugmynd hefst nýjasta mynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Northern Comfort, en hún er íslensk, þýsk og bresk samframleiðsla. Myndin hefst í flughermi í London þar sem þáttakendur Fífldjarfra flugferðalanga eru að undirbúa sig fyrir lokaáskorun námskeiðsins; Flugferð til Íslands og til baka. Þegar þátttakendurnir mæta á flugvöllinn, tilbúnir að takast á við þetta verkefni, kemur í ljós að aðalþjálfari námskeiðsins kemst ekki með í flugið. Aðstoðarmaður hennar, nýgræðingurinn Charles leikinn af Simon Manyonda, þarf því að hysja upp um sig buxurnar og fylgja þeim einn í flugferðina. Þessar fréttir falla síður en svo vel í kramið hjá þátttakendum og nokkrir þeirra forða sér í óðagoti. Þeir einu sem eftir standa eru söguhetjurnar okkar. Sú sem við fylgjumst hvað mest með í gegnum myndina er hin breska Sarah, leikin af Lydiu Leonard, en hún þarf að sigrast á hræðslunni strax í dag, því kærasti hennar og stjúpdóttir eru lent á Grænhöfðaeyjum og bíða eftir henni. Sara átti nefnilega eftir að játa fyrir kærasta sínum að hún væri ennþá buguð af flughræðslu og að vinnuferðin hennar til útlanda í vikunni áður hefði aldrei átt sér stað. Hún faldi sig bara heima í íbúðinni sinni í London.
Söguhetjurnar fá þó allar að láta ljós sitt skína og þær eru jafn mismunandi og þær eru margar . Hinn miðaldra Edward, leikinn af Timothy Spall, er frægur rithöfundur sem hefur sína myrku hlið að geyma. Hann barðist í Falklandseyjastríðinu og virðast atburðir stríðsins enn ásækja hann og koma í veg fyrir að hann geti flogið áhyggjulaus.
Að lokum er það unga kærustuparið í hópnum, Coco og Alfons, leikin af Ellu Rumpf og Sverri Guðnasyni. Hún er frægur áhrifavaldur en hann starfar sem ljósmyndari og aðstoðarmaður hennar. Coco er óhrædd við flugferðir en Alfons getur varla litið á flugvél án þess að fá kvíðakast. Fyrir Coco er þetta ástand óásættanlegt þar sem að ein forsenda áhrifaveldisins er að hún sýni sig að spóka sig í útlöndum. Með nýskipaða fararstjórann Charles sér við hlið, leggur hópurinn af stað til Íslands. En ekki líður á löngu áður en þau lenda í fyrstu og alls ekki síðustu hremmingum þessa ferðalags. Svakaleg ókyrrð í loftinu og í kjölfarið seinkanir á flugi, íslenska lögreglan og vantrauststillögur upp á gamla mátann.
Northern Comfort er farsi og því vinda aðstæður nær ávallt upp á sig á meðan persónur sögunnar grafa sig dýpra og dýpra í eigin lygar og vandræðagang. Hafsteini tekst mjög vel að búa til skemmtilega karaktera sem er virkilega gaman að fylgjast með skjóta sig aftur og aftur í fótinn. Allir leikararnir standa sig vel í sínum hlutverkum og þá sérstaklega Timothy Spall sem er óborganlegur sem Edward. Hann fussar og sveiar eins náttúrulega og hann andar og í gegnum myndina verður það alltaf fyndnara og fyndnara að sjá hann breytast úr virðulegum rithöfundi í vænisjúkan herforingja. Innri virkni karakteranna, sérstaklega Coco, er kannski ekkert dýpst í heimi en þau virka mjög vel saman fyrir grínið í myndinni. Margar íslenskar grínmyndir verða oft of alvarlegar og jafnvel leiðinlegar þegar allir karakterar fá flókna og sorglega baksögu og er því hressandi að sjá grínið haft í fyrirrúmi. Það er svo gaman að sjá íslenska grínmynd sem einbeitir sér bara að kjánalegheitunum og vitleysisganginum.
Hljóðið er vel unnið en það er ekki alltaf hægt að segja um íslenskar myndir. Öfugt við sumar þeirra er það betri reynsla fyrir eyrun að sjá Northern Comfort í bíó heldur en t.d. heima á sófanum í sjónvarpshátölurum. Áhorfendur heyra og finna ókyrrðina í fluginu í bassanum í kvikmyndasalnum og hvert brak og brestur í flugvélarflykkinu heyrist. Þó að áhorfendur hafi ekki verið flughræddir fyrir áhorfið þýðir það ekki að þeir geti ekki farið út af myndinni ögn óöruggari við að fljúga.
Kvikmyndatakan stendur einnig fyrir sínu og Ísland verður að snæviþöktu undralandi. Það virðist þó stundum sem áherslan sé kannski einum of mikil á að Ísland sé undraland. Löng skot af lúxushóteli úti á landi, bjarminn af lömpunum sem sést í gegnum þokumökkinn yfir náttúrulauginni og hvít fjöllin í bakgrunni. Allt þetta saman verður til þess að myndin líkist á köflum frekar auglýsingum um Ísland sem draumamillilendingarstað heldur en grínmynd. Þetta þarf ekkert að vera slæmt en stundum virðist sögusviðið ekki ganga upp sjónrænt séð sem vekur athygli á ósamræmi staðsetninganna.
Sagan sjálf er fyndin í gegn og það eru mörg eftirminnileg atriði þar sem söguhetjurnar eru búnar að koma sér í fáránlegar aðstæður. Samt sem áður nær myndin ekki að halda skriði í gegn, aðstæður verða fáránlegar og fyndnar en í stað þess að fara lengra og grafa persónurnar dýpra í vitleysunni stoppar hún sig af. Með því gerir hún sér erfiðara fyrir að halda gríninu gangandi. Þegar boltinn er farinn að rúlla og er stoppaður af þarf að byrja aftur á byrjunarreit og skapa nýjar aðstæður í stað þess að geta haldið áfram með fyrri fáránleika. Það heftir flæði myndarinnar að óþörfu. Til dæmis hefði framvindan mögulega verið náttúrulegri, þó um sé að ræða fáránlegar aðstæður, ef hún hefði nýtt sér meira þessa einu nótt á hótelinu. Það að klippa úr aðstæðunum yfir í morguninn eftir braut sérstaklega upp flæðið.
Það er margt sem gengur upp í Northern Comfort en hún hefði mátt vera þéttari því það er snjóboltinn sem stækkar og stækkar og stoppar ekki fyrr en hann splundrast á vegg sem gerir farsann að þeirri snilld sem hann er.
Ég mæli með Northern Comfort fyrir alla sem vilja sjá fyndna íslenska mynd með vitleysisgang í fyrirrúmi og hvet ykkur til þess að njóta með góðum vinum, hvort sem þeir eru flughræddir eða fífldjarfir ferðalangar.