Morgunblaðið um NORTHERN COMFORT: Mót kvíðasjúklinga

„Of almenn og sker sig þar af leiðandi ekki úr, en burtséð frá því þá er hún mjög fín grínmynd,“ segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í umsögn sinni um Northern Comfort eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson.

Jóna Gréta skrifar:

Nýjasta kvikmynd íslenska leikstjórans Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Norðlæg þægindi eða á ensku Northern Comfort, fjallar um fjölbreyttan hóp af fólki með alvarlega flughræðslu sem verður strandaglópar á Íslandi eftir að hafa sótt flughræðslunámskeið, en lokaprófraunin var útskriftarflug frá London til Íslands. Hópurinn samanstendur af vanhæfum leiðbeinanda (Simon Manyonda), byggingarverkfræðingi (Lydia Leonard), samfélagsmiðlastjörnu (Ella Rumpf), forritara (Sverrir Guðnason) og fyrrverandi sérsveitarmanni og rithöfundi sem breski leikarinn Timothy Spall leikur, en margir þekkja hann kannski betur sem Peter Pettigrew úr Harry Potter-kvikmyndunum.
Leikarahópurinn er flottur og frábær dýnamíkin á milli þeirra skilar sér til áhorfenda. Simon Manyonda, sem ráðvillti leiðbeinandinn Charles, er hins vegar senuþjófur myndarinnar. Undir lokin var nóg að stilla myndavélinni fyrir framan Manyonda og leikarinn sagði áhorfendum nákvæmlega hvað hann var að hugsa án þess að segja stakt orð – hugsunin og um leið húmorinn spratt fram af andliti hans. Það er alltaf gaman þegar sögn er breytt í aðgerð og er merki um bæði góðan leik og tök leikstjórans á kvikmyndaforminu. Parið, þ.e. samfélagsmiðlastjarnan Coco og kærasti hennar og forritarinn Alfons, var hins vegar óþolandi og eflaust var það viljandi en undirrituð efast um að það hafi verið viljandi að gera þau ófyndin. Hugmyndin um sjálfumglöðu og heimsku samfélagsmiðlastjörnuna og kærastann sem fylgir í eftirdragi var kannski mjög viðeigandi fyrir nokkrum árum, þegar kvikmyndin var skrifuð, en í dag eru þetta ofnotaðar og ofureinfaldar steríótýpur og þar af leiðandi hætt að vera fyndið. Það er bara, því miður, ekki hægt að segja sömu brandarana oft.
Norðlæg þægindi er fyrsta enskumælandi kvikmyndin sem Hafsteinn Gunnar leikstýrir. Fyrri myndir hans eru Undir trénu (2017), Á annan veg (2011) og París Norðursins (2014) en auk þess var hann höfundur vinsælu þáttanna Afturelding (2023-). Undirrituð er almennt mjög hrifin af verkum Hafsteins, en það er einhver sjarmi sem tapast í enskunni. Í verkum hans er aldrei langt í grínið þótt það virðist kannski ekki í fyrstu og þau takast á við erfið viðfangsefni, eins og í Undir trénu. Það getur verið erfitt að flytja húmor yfir á annað tungumál en breski og íslenski húmorinn eru ekki svo ólíkir. Undirritaðri finnst hins vegar vanta þennan einlæga vandræðaleika og kjánahroll sem fylgir íslenska húmornum og er til dæmis áberandi í París norðursins. Húmorinn í Norðlægum þægindum er ekki undirliggjandi eins og í fyrri myndum Hafsteins heldur er myndin auglýst sem grínmynd og er í raun bara einn stór farsi. Undirrituð er ekki mikið fyrir farsa en þar með er ekki sagt að myndin sé ekki fyndin. Ástæðan fyrir því að undirrituð fílar ekki farsa er vegna þess að þeir eru kvíðavaldandi, en það er einmitt þess vegna sem farsaformið hentar fullkomlega þessari mynd.
Sagan er ekki mjög íslensk þó að hún eigi sér stað hérlendis. Það er enginn íslenskur karakter þótt það séu íslenskir leikarar, og eins og fram hefur komið er húmorinn ekki séríslenskur. Það er í raun tapað tækifæri að Hafsteinn gerði ekki grín né gagnrýndi íslenskt samfélag. Undirritaðri fannst vanta að gefa íslenskum áhorfendum eitthvað meira en öðrum áhorfendum með því til dæmis að fá íslensku aukapersónurnar til þess að gera eða segja eitthvað séríslenskt, einkabrandara. Í atriðinu með Pétri Jóhanni beið undirrituð til dæmis eftir því að hann tæki einhverjar línu úr Næturvaktinni (Ragnar Bragason, 2007) eða byrjaði að hvæsa, en hann lék því miður bara venjulegan þjón. Sama á við um atriðið með Helgu Brögu, undirrituð beið eftir að hún tæki línu úr Fóstbræðrum (1997) eða Stelpunum (2005). Satt að segja gæti kvikmyndin átt sér stað hvar sem er. Það getur verið kostur en sýningarréttur myndarinnar hefur til dæmis verið seldur til allra Norðurlandaþjóðanna, Belgíu, Hollands, Lúxemborgar, Ástralíu, Ítalíu, Spánar, Portúgals og Póllands, auk fleiri landa, og verður síðar sýnd á Netflix í Bretlandi, að því er Hafsteinn segir í viðtali á mbl.is.
Það að myndin sé auðmeltanleg og hafi breiðan leikhóp er samt ekki endilega alltaf gæðamerki. Undirrituð myndi segja að það væri einn galli kvikmyndarinnar, þ.e. að hún er of almenn og sker sig þar af leiðandi ekki úr, en burtséð frá því þá er hún mjög fín grínmynd. Endirinn var reyndar ákveðin vonbrigði af því að hann er mjög hefðbundinn en það hefði verið skemmtilegra að fá eina góða högglínu (e. punchline) til að enda myndina með trompi. Þrátt fyrir fyrrnefnda vankanta er Norðlæg þægindi í heild vel unnin grínmynd eða farsi sem undirrituð hvetur fólk með sterkar taugar til að sjá.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR