Kvikmyndin Volaða land verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2024. Myndin var valin af dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, en í henni í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, gagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Umsögn dómnefndar er svohljóðandi:
96. Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin sunnudaginn 10. mars 2024, en tilnefningar til verðlaunanna verða kynntar þriðjudaginn 23. janúar 2024.
Volaða land er skrifuð og leikstýrð af Hlyni Pálmasyni (Hvítur, hvítur dagur, Vetrarbræður), og með aðalhlutverk fara þau Elliott Crosset Hove, Ingvar Sigurðsson, Vic Carmen Sonne, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Jacob Hauberg Lohmann, og Hilmar Guðjónsson.
Myndin er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures og Katrin Pors, Eva Jakobsen og Mikkel Jersin fyrir Snowglobe í Danmörku. Dreifingaraðili myndarinnar í Bandaríkjunum er Janus Films.
Frá frumsýningu myndarinnar á Cannes kvikmyndahátíðinni 2022 hefur hún safnað fjölda verðlauna og tilnefninga á mörgum virtustu alþjóðlegu kvikmyndahátíðunum, auk þess sem hún hefur verið tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.
Frumsýning myndarinnar í íslenskum kvikmyndahúsum var þann 10. mars 2023 og hlaut myndin tvenn verðlaun á Edduverðlaunahátíðinni í sama mánuði. Hlynur hlaut Edduverðlaun fyrir leikstjórn ársins og Maria von Hausswolff fyrir kvikmyndatöku.
Volaða land er stórbrotin saga af baráttu manns við náttúruna, trúna og sitt dýrslega eðli. Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.