VOLAÐA LAND framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2024

Kvik­mynd­in Volaða land verður fram­lag Íslands til Óskar­sverðlauna 2024. Mynd­in var val­in af dóm­nefnd Íslensku kvik­mynda- og sjón­varps­aka­demí­unn­ar, en í henni í sátu full­trú­ar helstu fag­fé­laga ís­lenska kvik­myndaiðnaðar­ins, auk full­trúa kvik­mynda­húsa, gagn­rýn­enda og Kvik­mynda­miðstöðvar Íslands.

Umsögn dómnefndar er svohljóðandi:

“Volaða land er margslungið heilsteypt kvikmyndaverk sem ögrar áhorfandanum með því að spyrja sammannlegra spurninga um tilvist og tilgang mannsins á hugrakkan og áleitin hátt.
Myndin segir frá ungum dönskum presti, Lucas, sem heldur til Íslands undir lok 19. aldar í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Óvægin náttúruöflin hafa snemma áhrif á ferðalagið og samskipti “nýlenduherrans” við íslenska sveitamanninn Ragnar ganga ekki sem skyldi vegna tungumálaerfiðleika og menningarmuns.
Á ferðalaginu og í leit sinni að æðri mætti þarf presturinn að kljást við sjálfan sig andspænis náttúrunni. Löngun hans til yfirráða gagnvart henni verður honum að falli.
Kvikmyndataka Mariu Von Hausswolff er stórbrotin og er hver rammi eins og listaverk. Náttúra Íslands í gegnum linsu hennar er í senn óvægin, framandi, ógnvekjandi, fráhrindandi og blaut en líka ægifögur og heillandi án þess að verða nokkurntímann væmin eða yfirdrifin.
Þrátt fyrir að viðfangsefni myndarinnar og efnistök séu alvarleg og drungaleg er myndin oft á tíðum mjög fyndin og sett fram af einstakri næmni og dýpt.”

96. Óskar­sverðlauna­hátíðin verður hald­in sunnudaginn 10. mars 2024, en til­nefn­ing­ar til verðlaun­anna verða kynnt­ar þriðjudaginn 23. janúar 2024.

Volaða land er skrifuð og leikstýrð af Hlyni Pálmasyni (Hvítur, hvítur dagur, Vetrarbræður), og með aðalhlutverk fara þau Elliott Crosset Hove, Ingvar Sigurðsson, Vic Carmen Sonne, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Jacob Hauberg Lohmann, og Hilmar Guðjónsson.

Myndin er fram­leidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures og Katrin Pors, Eva Jakobsen og Mikkel Jersin fyrir Snowglobe í Danmörku. Dreifingaraðili myndarinnar í Bandaríkjunum er Janus Films.

Frá frumsýningu myndarinnar á Cannes kvikmyndahátíðinni 2022 hefur hún safnað fjölda verðlauna og tilnefninga á mörgum virtustu alþjóðlegu kvikmyndahátíðunum, auk þess sem hún hefur verið tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Frumsýning myndarinnar í íslenskum kvikmyndahúsum var þann 10. mars 2023 og hlaut myndin tvenn verðlaun á Edduverðlaunahátíðinni í sama mánuði. Hlynur hlaut Edduverðlaun fyrir leikstjórn ársins og Maria von Hausswolff fyrir kvikmyndatöku.

Volaða land er stórbrotin saga af baráttu manns við náttúruna, trúna og sitt dýrslega eðli. Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR