Kvikmyndasafnið og Skjaldborg í samstarf

Skjaldborg hefur hafið samstarf við Kvikmyndasafn Íslands um varðveislu sögu hátíðarinnar.

Kvikmyndasafnið varðveitir íslenska kvikmyndaarfinn og sér um endurgerðir á íslensku kvikmyndaefni en það á jafnt við leiknar myndir, heimildamyndir sem og heimildaefni úr einkasöfnum.

Safnið mun varðveita eintök heimildamynda sem sýndar hafa verið á hátíðinni frá stofnun árið 2007 og verður sérstök ítarskráning tengd sögu hátíðarinnar í kerfi safnsins. Jafnframt mun safnið varðveita grafískt útlit hátíðarinnar í gegn um árin ss. plaköt, dagskrárbæklinga og barmmerki.

Kristín Andrea Þórðardóttir, einn stjórnenda Skjaldborgar, og Davíð Rúnar Gunnarsson frá Lionsklúbbi Patreksfjarðar, sem rekur Skjaldborgarbíó, skiluðu fyrstu sendingu af verkum og grafísku efni til safnsins á dögunum. Ester Bíbí Ásgeirsdóttir verkefnastjóri skilaskyldu og miðlunar hjá Kvikmyndasafninu veitti sendingunni viðtöku en áfram verður haldið að safna efni frá sögu hátíðarinnar.

Í tilkynningu frá Skjaldborg segir:

Ef þú hefur frumsýnt mynd á hátíðinni á upphafsárunum en aldrei skilað eintaki til Kvikmyndasafnsins endilega hafðu samband við okkur. Eins eru þeir sem luma á heillegum plakötum, dagskrárbæklingum eða barmmerkjum sem þeir tíma að láta frá sér hvattir til að gefa sig fram.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR