Síminn gagnrýnir styrkveitingar til sjónvarpsverkefna

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum segir jafnræðis ekki gætt í styrkveitingum Kvikmyndamiðstöðvar til leikinna þáttaraða og að kvikmyndasjóður hafi verið tæmdur til Ríkisútvarpsins þetta árið meðan engin verkefni hjá öðrum miðlum virðast fá styrk.

Gísli Snær Erlingsson forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar segir það rangt að horft sé til þess hvar sýna eigi þætti sem styrktir hafa verið af Kvikmyndasjóði. Styrkirnir séu ekki til sjónvarpsstöðvanna heldur er litið fyrst og síðast til möguleika handritsins.

Vísir fjallar um málið:

Vísir greindi frá þessu í gær að Magnús teldi jafnræðis ekki gætt, allir styrkirnir úr Kvikmyndasjóði renni til sjónvarpsverkefna sem til standi að sýna á dagskrá Ríkisútvarpsins.

RÚVarar með allt til sín

Kvikmyndamiðstöð Íslands veitir árlega styrki úr kvikmyndasjóði, meðal annars fyrir leikið sjónvarpsefni. Fjögur verkefni eru á lista, þrjú þeirra; Vigdís, Danska konan og Ráðherrann 2, hafa fengið vilyrði fyrir 200 milljónum króna í heildina í ár.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum, segir að framleiðslufyrirtæki á þeirra vegum sem sótt hafi um hafi fengið þau svör að það væri ekki meira fjármagn til staðar.

Þrjú verkefni hafa fengið vilyrði fyrir 200 milljónum króna á árínu. Öll verkefnin eru í samvinnu við Ríkisútvarpið. Aðrir aðilar hafa fengið þau svör að sjóðurinn fyrir árið 2023 sé tómur.

„Það virðist vera að þessi vilyrði sem hafa verið gefin núna úr sjóðinum þetta ár fari öll til framleiðslufyrirtækja sem eru að vinna verkefni fyrir Ríkisútvarpið. Þannig áfram heldur þessi samkeppnisstaða okkar á einkareknu miðlunum að vera frekar sérkennileg, það er að segja að við sitjum alveg óbætt hjá garði þarna líka,“ segir Magnús en hann hefur áður gagnrýnt umsvif RÚV harðlega.

Hingað til hafi það verið eins konar óskráð regla að reyna að ráðstafa fjármagninu betur, þannig að aðrir miðlar komist einnig að, en nú sé ekki gætt jafnræðis. Erfitt sé að standa fyrir öflugri framleiðslu á meðan Ríkisútvarpið yfirtekur sjóðinn en ríkið sé búið að ráðstafa öllum peningnum til síns sjálfs. Ríkisútvarpið hafi þá haft ærið forskot fyrir.

Ekki verið að styrkja sjónvarpsstöðvarnar

Vísir bar þessa stöðu undir Gísla Snæ Erlingsson en hann er nýtekinn við stöðu forstöðumanns og tekur við þeirri stöðu af Laufey Guðjónsdóttur sem hefur verið forstöðumaður undanfarna tvo áratugi.

Gísli Snær segir það ekki með öllu rétt að hann komi að öllum sjóðum tómum en eftir því sem hann best viti sé vissulega búið að úthluta því sem til er fyrir sjónvarpsverkefnin.

Gísli Snær segir að sjóðinn vitaskuld ekki hugsaðan þannig að hann sé til að styrkja sjónvarpsstöðvar heldur vel unnin og spennandi handrit til framgangs.

„Svo er skoðað hverjir eru að sækja um og þá kemur reynsla og annað til álita; hversu líklegt er að verkefnið verði að veruleika. Endanleg fjármögnun er svo í erlendu fé í flestum tilfellum og þá eru möguleikar á því skoðaðir.“

Forstöðumaðurinn segir að í sumum tilfellum þá liggi ekki fyrir hvar afurðin verði sýnd heldur er verið að þróa verkefnið sem slíkt burtséð frá því. Hann segir jafnframt að bæði Ríkissjónvarpið og Síminn hafi staðið sig vel í að stuðla að innlendu leiknu efni en, eins og áður segir, séu ráðgjafar ekki að skoða beint hvar efnið verður svo tekið til sýninga. Þannig sé rangt sem Magnús haldi fram að sýningarstaður sé ráðandi þegar tekin er ákvörðun um hvaða verkefni eru styrkt.

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR