Unnið hefur verið að bættu aðgengi fyrir hreyfihamlaða í allri aðstöðu Bíó Paradísar og bíósýningar hafa verið aðlagaðar til að mynda fyrir blinda, heyrnarskerta og einhverfa. Einnig hefur verið boðið upp á sýningar á óhefðbundnum tímum fyrir þau sem vilja.
Rætt var við Hrönn Sveinsdóttur framkvæmdastjóra kvikmyndahússins í Mannlega þættinum á Rás 1:
Er gríðarlega létt að hafa leyst þetta verkefni
Allt frá því að Bíó Paradís var stofnað hefur verið efst á lista að bæta út aðgengismálum húsnæðisins, sem er að sögn Hrannar barn síns tíma. „Það er furðulegt að einhver hafi hannað þetta húsnæði fyrir almenning þar sem stigagangarnir eru þröngir og ekki er möguleiki á að hleypa neinum að,“ segir Hrönn. „Við vissum að þetta yrði dýrt og flókið verkefni og ég get ekki lýst því hvað mér er gríðarlega létt að við séum búin að leysa það.“
Nú séu tveir af þremur bíósölum aðgengilegir fólki í hjólastól, sá þriðji opnar bráðlega, og er því boðið að koma í bíó sér að kostnaðarlausu. „Þau sem þess þurfa geta tekið með sér aðstoðarmann og þurfa ekki að greiða fyrir það heldur,“ bætir Hrönn við.
Húsnæðið var byggt árið 1976 og var þá fyrsta fjölsalakvikmyndahúsið á Norðurlöndum.
Loksins orðið boðlegt
Mikið hefur verið lagt í endurbæturnar og fengnir hönnuðir sem sérhæfa sig í aðgengismálum. Inngangarnir í þá sali sem í upphafi voru á efri pöllum kvikmyndahússins voru þröngir og brattir. „Það var ekki lifandi möguleiki að koma þar fyrir lyftu,“ segir Hrönn. Þau hafi náð setja lyftu þar sem áður var inngangur á milli tveggja sala og útbúa nýtt anddyri.
Lengi hafi verið lyfta upp í sal 1 sem fór á ská. „Hún var svo leiðinleg þessi lyfta, ég get varla talað um það ógrátandi,“ segir Hrönn. Þar hafi hún oft og tíðum stöðvað og fólk fest þar inni. Nú er komin ný lyfta og stór rampur var gerður inn í salinn og galleríið. Komið er salerni fyrir fatlaða og hjólastólastæði í alla salina. „Svo nú er þetta loksins orðið boðlegt og við erum rosalega ánægð með það.“
Bæta alls konar aðgengi
Rétt fyrir heimsfaraldur gafst Bíó Paradís færi á að taka þátt í samstarfsverkefni við kvikmyndahús í Slóvakíu í gegnum uppbyggingarsjóð EES sem fjallaði um að gera bíó sem aðgengilegast öllum. „Svo að allir geti fundið sig velkomna í bíóinu okkar,“ segir Hrönn.
Þau hafi nýtt styrkinn frá EES til að koma fyrir tónmöskvum, litlum útvarpssendum, aftast í hvern sal sem fara beint í heyrnartæki fólks svo heyrnarlausir geti notið þess betur að fara í bíó. Einnig séu þau að búa til sjónlýsingar fyrir íslenskar kvikmyndir sem hefur ekki verið gert áður. Þá sé lýsingin aðgengileg í appi sem fólk getur hlustað á í heyrnartólum á meðan sýningu stendur. „Þannig geta blindir farið í bíó með öðrum, það þarf ekki að vera sér sýning.“
Hrönn segir það hafa verið kappsmál síðan Bíó Paradís var stofnað að höfða til fólks af alls konar uppruna. Þetta hafi þau gert með því að hafa enska texta á öllum kvikmyndum og sýna kvikmyndir frá margvíslegum heimshornum og menningarheimum. „Mér hefur fundist það gaman hvað fólki af alls konar mismunandi uppruna, oft jaðarsettum hópum, finnst það vera velkomið og óhætt að fara í Bíó Paradís,“ segir Hrönn.
Frábær leið til að rjúfa félagslega einangrun
Önnur nýjung hjá Bíó Paradís eru miðvikudagssýningarnar. „Okkur hefur svo lengi langað til að vera með bíó á daginn fyrir þá sem eru ekki að vinna á daginn,“ segir Hrönn. Sýningarnar eru klukkan 14 og eru þá í boði þær myndir sem bera hvað hæst úr dagskránni. „Þetta er svo dásamlegur tími, að fara í bíó klukkan tvö á miðvikudegi,“ segir Hrönn.
Sýningarnar eru hugsaðar sérstaklega fyrir sjálfstætt starfandi fólk, fólk í veitingar- eða sviðslistargeiranum, námsmenn, eldri borgara og fólk í endurhæfingu svo dæmi séu nefnd. „Þarna er að myndast svo skemmtilegt samfélag,“ segir Hrönn og bendir á að þetta sé frábær leið til að rjúfa félagslega einangrun. „Ef þú ert bara bugaður rithöfundur sem ert bara einn heima hjá þér allan daginn, þá geturðu farið í miðvikudagsbíó í Bíó Paradís og hitt fólk og fengið þér kaffi eða bjór á eftir.“
Spennandi að hugsa út frá fjölbreyttari þörfum
Einnig hafa þau verið að prófa sig áfram með sérstakar sýningar á borð við fyrir einhverf börn. „Einhverfum finnst gaman að fara í bíó en það þarf bara að undirbúa það vel,“ segir Hrönn. Þá hafi þau búið til lítið kver sem fylgdi sýningunni svo fólk gæti skoðað myndir af kvikmyndahúsinu og í hvaða röð það vill gera hlutina. Oft getur einhverfu fólki þótt öll óreiða óþægileg og því sé gott að geta farið myndrænt yfir dagskrána og hvar hlutirnir séu.
Hljóðið í salnum sé dempað þar sem skynáreiti getur reynst einhverfu fólki erfitt og ljósin eru heldur ekki alveg slökkt. „Og það má standa upp og hreyfa sig og gefa frá sér hljóð á meðan myndin er í gangi,“ segir Hrönn. „Því það hentar krökkum sem eru á einhverfurófi, þau þurfa að geta hreyft sig og tekið sér pásu og jafnvel talað upphátt.“ Þau hafi haldið eina slíka barnakvikmyndahátíð og gekk vel.
Hrönn segir að stefnan sé að halda fleiri slíkar sýningar og jafnvel fyrir fólk með heilabilun. „Það er bara ótrúlega spennandi að bjóða upp á mismunandi sýningar sem eru ekki alltaf hugsaðar út frá þörfum þess sem við köllum hinn lægsta sameiginlega samnefnara,“ segir Hrönn. „Heldur hugsa þetta út frá þörfum alls konar fólks.“
„Við erum svo himinlifandi með þetta og bjóðum alla innilega velkomna í Bíó Paradís,“ segir Hrönn.