Heimildamynd Gauks Úlfarssonar Soviet Barbara sem fjallar um sýningu Ragnars Kjartanssonar í nýrri menningarmiðstöð, GES-2, í miðborg Moskvu, verður heimsfrumsýnd á heimildamyndahátíðinni Hot Docs, sem hefst 27. apríl.
Hot Docs er stærsta heimildamyndahátíð Norður-Ameríku. Í ár sóttust 2848 myndir eftir þátttöku á hátíðinni, en aðeins 214 voru valdar til sýninga.
Leikstjóri Soviet Barbara er Gaukur Úlfarsson, sem einnig er framleiðandi hennar ásamt Guðrúnu Olsen, Guðna Tómassyni og Kristínu Ólafsdóttur.
Myndin fylgir eftir Ragnari Kjartanssyni, þar sem hann undirbýr opnunarsýningu nýrrar menningarmiðstöðvar í Moskvu, GES-2, veturinn 2021. Hjarta sýningarinnar var verkið Santa Barbara, eins konar „lifandi skúlptúr“ í miðrými safnsins þar sem stór hópur lista- og tæknifólks tók upp og vann að fullu einn þátt á dag af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara.
Aðstæður voru krefjandi enda ekki lítið mál að setja upp fyrstu sýninguna í glænýrri menningarmiðstöð skammt frá stjórnarsetrinu Kreml, fyrir valdamikla aðila sem eru nærri hinu pólitíska valdi í landinu.
Santa Barbara sápuóperan var á sínum tíma fyrsta bandaríska sjónvarpsefnið sem sýnt var í rússnesku sjónvarpi, eftir fall Sovétríkjanna, og á sérstakan stað í hjörtum margra Rússa. Þættirnir nutu mikilla vinsælda og ummerki þeirra má enn greina í rússneskri menningu.
Í myndinni er sögð saga verkefnisins, rætt við listafólk og aðila sem komu að þessu stóra myndlistarverki og sérfræðinga sem þekkja bæði vel til verka Ragnars og þeirra gríðarlegu sviptinga sem urðu í rússnesku þjóðlífi á tíunda áratug síðustu aldar.