Finnski leikstjórinn Mika Kaurismäki var hér í heimsókn á dögunum vegna sýningar á nýjustu bíómynd sinni, The Grump: In Search of an Escort. Ingvar Þórðarson er einn meðframleiðenda.
Þetta er þriðja myndin sem gerð er um hinn geðstirða nöldursegg og hafa þær allar slegið í gegn. Sú fyrsta var sýnd hér 2015. Önnur myndin hefur ekki verið sýnd hér á landi. Ingvar Þórðarson var meðal meðframleiðenda í fyrsta og þriðja skiptið, en framleiðslufyrirtækið Solar Films í Finnlandi, sem framleiddi myndina, hefur tekið þátt í mörgum íslenskum kvikmyndum.
Fréttablaðið ræddi við Kaurismäki:
Ég held að þetta sé í fjórða skiptið sem ég kem til Íslands og mér finnst það alltaf jafn frábært,“ segir finnski stórleikstjórinn Mika Kaurismäki. Hann var staddur hér á landi í vikunni í tilefni frumsýningar á kvikmyndinni The Grump: In Search of an Escort.
„Ég kom hingað fyrst á kvikmyndahátíð á níunda áratugnum. Þá kynntist ég Friðriki Þór og fleira kvikmyndagerðarfólki. Svo þegar ég kom í annað skipti, á níunda áratugnum, þá kynntist ég Ingvari,“ segir Mika. Þar á hann við kvikmyndaframleiðandann Ingvar Þórðarson en hann er einn framleiðenda The Grump.
„Í þessari ferð fór ég ásamt fleira fólki á Kaffibarinn og þar var Ingvar á bak við barinn, var einn eigendanna. Þarna var fullt af fólki og mjög gaman,“ segir Mika. Hann og Ingvar hafa síðan unnið að ýmsum verkefnum saman og eru góðir vinir.
„Ég kalla hann son minn, það er alveg nægur aldursmunur á okkur til þess,“ segir Mika kíminn.
Fjölmargar kvikmyndir
Grump hefur fengið afar jákvæð viðbrögð eftir að hún var frumsýnd fyrir fullu húsi í Bíó Paradís í vikunni. Mika segir húmor Íslendinga og Finna að mörgu leyti líkan, það geti útskýrt vinsældirnar. „Ég held að við séum lík að mörgu leyti. Sérstaklega húmorinn. Kannski er það af því við erum að einhverju leyti bæði einangruð. Tungumál Íslendinga og Finna eru til dæmis ólík hinum skandinavísku tungumálunum,“ segir hann.
„Maður sér það oft á norrænum kvikmyndahátíðum að Finnar og Íslendingar hópast saman.“
Lesa má viðtalið í heild hér.