Nýjasta mynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Northern Comfort, verður frumsýnd á South by Southwest-hátíðinni í Austin í Texas á sunnudaginn.
Morgunblaðið skýrir frá:
South by Southwest er risavaxin og mikilsvirt listahátíð fyrir kvikmyndir, tónlist og uppistand. Búast má við því að frumsýning myndarinnar veki mikla athygli. „Hátíðin hentar þessari mynd mjög vel sem tekur sig ekki of alvarlega en er samt listrænt metnaðarfull,“ segir Hafsteinn í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Northern Comfort er lýst sem svartri kómedíu en myndin fjallar um skrautlegan hóp fólks á flughræðslunámskeiði í London þar sem ferðinni er heitið til Íslands. Timothy Spall, einn þekktasti kvikmyndaleikari Breta, fer með eitt af aðalhlutverkunum. Hafsteinn kveðst renna nokkuð blint í sjóinn með þessa mynd. „Maður veit aldrei hvað maður hefur í höndunum fyrr en maður upplifir myndina með fólk í kringum sig. Fram undan er því stund sannleikans, þarna sjáum við kannski hvaða líf þessi mynd fær … eða dauða.“