Morgunblaðið endurbirtir umsögn Jónu Grétu Hilmarsdóttir um Volaða land Hlyns Pálmasonar frá nóvember síðastliðnum í tilefni þess að myndin verður sýnd í kvikmyndahúsum frá 10. mars.
Jóna Gréta skrifar:
Volaða land eftir Hlyn Pálmason er ein besta kvikmynd þessa árs. Hún segir frá ungum dönskum lúterskum presti, Lucas (Elliott Crosset Hove), sem ferðast til Íslands með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda landið og íbúa þess. Fyrir ferðina er hann er varaður við íslensku náttúrunni og fólkinu: „Jörðin lyktar eins og hún hafi skitið í buxurnar og langir næturlausir dagar geta kallað fram alls konar andlega kvilla í mönnum.“
Lucas er hins vegar hugsjónamaður og áhugasamur um landið og fólkið. Hópur heimamanna leiðir prestinn í gegnum hið harðneskjulega Ísland en eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn smám saman tökin á ætlunarverkinu og eigin trú. Þegar hann nær til litla samfélagsins á norðurströnd landsins er hann nær dauða en lífi. Landið þar sem kirkjan er reist er undir umsjón Danans Carls (Jacob Hauberg Lohmann) en hann býr þar í tignarlegu húsi ásamt dætrum sínum, Önnu (Vic Carmen Sonne) og Idu (Ída Mekkín Hlynsdóttir). Ferðalagið gerði Lucas beiskari og það eina sem getur yljað honum um hjartans rætur á þessum kalda stað er elsta dóttirin, Anna.
Í byrjun Volaða lands kemur fram að kvikmyndin sé byggð og sæki innblástur í sjö votplötuljósmyndir (e. wet-plate photographs) sem teknar voru af dönskum presti á 19. öld og að þær myndir séu fyrstu ljósmyndir sem teknar voru á Suðurlandi. Þessar myndir eru hins vegar ekki til heldur aðeins uppspuni hjá Hlyni. Í viðtali við Nordic Film and TV News, sem Annika Pham tók, segir hann frá því að tilgangurinn með ljósmyndunum hafi verið að hafa einhvern hlut sem hann og teymið gátu notað sem eins konar akkeri í ferlinu. Ljósmyndirnar eru því hluti af skáldskapnum og sköpunarferlinu.
Í kvikmyndadómi hjá Variety skrifar Peter Debruge: „Í Volaða landi reynir íslenski handritshöfundurinn og leikstjórinn Hlynur Pálmason að sjá sitt heimaland með utanaðkomandi augum, eins og það hlýtur að hafa litið út fyrir Dönum sem stjórnuðu því fram að seinni heimsstyrjöldinni.“ Þessu er ég ósammála en mér finnst kvikmyndin einmitt fanga tilfinninguna hjá heimamönnum sem þurftu að þola oft ónærgætna framkomu nýlenduherranna en þegar Volaða land á sér stað er Ísland enn undir yfirráðum Dana. Atriðið heima hjá Carl sýnir það vel en þá hæðast Lucas og Carl að Ragnari sem sullar óvart niður rauðvíninu. „Svona eru Íslendingar, þeir éta matinn okkar og spilla víninu.“ Í því atriði er ekki annað hægt en að vera reiður yfir þessari framkomu en það er greinilegt að upplifun íslenskra áhorfenda og erlendra er ólík og eðlilega.
Kvikmyndin stillir Danmörku og Íslandi upp sem andstæðum strax í byrjun. Hinn háttsetti prestur, sem varar Lucas við íslensku veðri, er með skál af ferskum ávöxtum á skrifborðinu sínu sem er langt frá raunveruleika Íslendinga þess tíma. Hver þjóð hefur sinn leiðtoga, Danaleiðtoginn er Lucas og okkar Íslendinga heimamaðurinn Ragnar sem Ingvar E. Sigurðsson leikur. Lucas er hugsjónamaður en Ragnar jarðbundinn og tungumálahindranir þjóna sem eitt af lykilþemum myndarinnar. Lucas er birtingarmynd nýlenduhroka, hann kennir t.d. Ragnari og landinu um dauða túlksins og eina vinar síns (Hilmar Guðjónsson) þótt það hafi verið hann sem krafðist þess að þeir héldu áfram ferðinni þrátt fyrir veðurhættur.
Stór hluti kvikmyndarinnar eru fallegar náttúrumyndir og gegnir þar kvikmyndatakan stóru hlutverki. Kvikmyndatökumaðurinn Maria von Hausswolff notaði þessa hugmynd um blautplötuljósmyndirnar, líkt og aðrir, til þess að veita sér innblástur og tók upp í 1,37:1 Academy-hlutfallinu með hörðum brúnum og ávölum hornum líkt og í gömlum ljósmyndum. Myndin var tekin upp á 35 mm filmu og öll filman notuð þannig að engu er sóað, sem passar vel við tíðarandann og fagurfræði Hlyns en það gerði hann einnig í stuttmynd sinni Hreiðrinu (2022). Það er greinilegt að stærstur hluti myndarinnar er tekinn upp á dolly en þá er tökuvélin á teinum og mögulegt að færa hana fram og aftur í hreinni hreyfingu. 360 gráðu skim í sveitabrúðkaupi fangar gleðskapinn á sérstakan máta en stíllinn er leikstjóranum eðlislægur. Með þessu móti er auðveldara að setja saman heim eða, eins og í þessu tilviki, heilt land.
Eflaust eru sumir þeirrar skoðunar að Hlynur hafi fórnað persónusköpuninni og söguþræðinum fyrir fallegar náttúrumyndir, þ.e.a.s. að hann sé að kafa of djúpt í eigin stíl líkt og Wes Anderson gerði í nýjustu mynd sinni The French Dispatch. Anderson leggur þar gríðarlega áherslu á myndheildina (mise-en-scène), framsetninguna í hverju skoti fyrir sig og má líkja hverjum ramma við listaverk þar sem öll smáatriðin hafa hlotið merkingu. Það bitnar hins vegar á söguþræðinum sem er óþarflega flókinn og persónusköpuninni sem er lítil sem engin þar sem litlum tíma er eytt í hverja persónu. Harðkjarna Wes Anderson-aðdáendur kunnu hins vegar margir hverjir að meta The French Dispatch af því að þar leyfði Anderson sér að fara alla leið í að skapa mise-en-scene-kvikmynd.
Hið sama má segja um Hlyn með Hvítan, hvítan dag, í þeirri mynd fór hann öruggari leiðina þótt stíllinn hans sé þar einnig sýnilegur, eins og til dæmis forvitni hans um dauðann og að fylgjast með og kvikmynda í ákveðinn tíma hlut. Þetta gerir hann til dæmis í Hvítum, hvítum degi en þar fáum við að fylgjast með húsi persónunnar á ólíkum árstímum en í Volaða landi fylgjumst við með rotnunarferli hests eða manns. Ólíkt Hvítum, hvítum degi er Volaða land krefjandi kvikmynd. Það er ekki allra að fylgjast með presti ferðast um Ísland á síðustu öld í meira en tvær klukkustundir. Hann dýfir sér í djúpu laugina, tekur sinn tíma og úr því kemur sannkallað listaverk. Söguþráðurinn er vissulega ekki í fyrsta sæti en þarf það endilega alltaf að vera svo? Kvikmyndir eru listform en ekki einungis afþreyingarefni sem hægt er að græða á. List er svið sem lýtur ekki alltaf lögmálum kapítalismans. Það er greinilegt að hér er á ferð listamaður og Volaða land er sannkallað listaverk og fær þar af leiðandi fyrstu fimm stjörnur hjá rýni.