[Stikla] VOLAÐA LAND, íslensk stikla

Volaða land eftir Hlyn Pálmason verður sýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi frá 10. mars næstkomandi. Íslensk stikla myndarinnar er komin út.

Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí 2022 og hlaut þar afar góðar viðtökur. Hún hefur síðan unnið til fjölda verðlauna víða um heim og verið sýnd í kvikmyndahúsum víða, nú síðast í Bandaríkjunum þar sem hún fékk afar góða dóma.

Volaða land er stórbrotin saga af baráttu manns við náttúruna, trúnna og sitt dýrslega eðli. Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Myndin er framleidd af danska framleiðslufyrirtækinu Snowglobe og hinu íslenska Join Motion Pictures. Framleiðendur eru Katrin Pors, Anton Máni Svansson, Eva Jakobsen, og Mikkel Jersin, í samvinnu við sænska og franska meðframleiðendur.

Með aðalhlutverk fara þeir Elliott Crosset Hove og Ingvar E. Sigurðsson, og í stærstu aukahlutverkum eru þau Hilmar Guðjónsson, Jacob Hauberg Lohmann, Vic Carmen Sonne, og Ída Mekkín Hlynsdóttir. Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sá um klippingu myndarinnar. Frosti Friðriksson var leikmyndahönnuður, Alex Zhang Hungtai samdi tónlistina og Björn Viktorsson sá um hljóðhönnun ásamt Kristian Eidnes Andersen.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR