Bíótekið verður með fyrstu sýningar í nýrri sýningarröð sinni sunnudaginn 29. janúar en þá verða sýndar fjórar klassískar kvikmyndir: Eldeyjan (1973), Björgunarafrekið við Látrabjarg (1949), Pierrot le Fou (1965) eftir Jean-Luc Godard og Compartiment Tueurs (1965) eftir Costa Gavras.
Eldeyjan og Björgunarafrekið við Látrabjarg – kl. 15
Eldeyjan er heimildamynd eftir Ásgeir Long, Ernst Kettler og Pál Steingrímsson sem markaði upphafið að löngu samstarfi þeirra. Myndin er um náttúruhamfarir og tímamótaatburð í sögu þjóðarinnar en hún hlaut meðal annars gullverðlaun á alþjóðlegri kvikmyndahátíð, The Atlanta International Film Festival í Bandaríkjunum. Liðin eru 50 ár frá eldgosinu í Heimaey sem varði í um fimm mánuði og eyðilagði nær þriðjung byggðarinnar en alls grófust tæplega 300 hús undir hrauni og ösku.
Heimildamyndin Björgunarafrekið við Látrabjarg, segir frá því þegar heimamenn á Látrum og nágrenni björguðu breskum skipbrotsmönnum árið 1947 eða fyrir 75 árum. Óskar Gíslason var við tökur veturinn 1948 til að kvikmynda leikna heimildamynd um afrekið þegar fréttir bárust af því að breski togarinn Sargon hefði strandað í aftakaveðri í Patreksfirði. Þustu menn á staðinn til aðstoðar, þar á meðal Óskar Gíslason með myndavélina. Þannig varð kvikmynd Óskars að raunverulegri heimildamynd um samtakamátt sveitunga við erfið björgunarstörf við hrikalegar aðstæður. Myndin var gefin út á fjölda tungumála og sýnd víða um heim.
Eftir sýningarnar ræða þeir Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur á Kvikmyndasafni Íslands og Ólafur Lárusson, Eyjamaður og björgunarsveitarmaður við áhorfendur.
Pierrot le Fou – kl. 17
Pierrot le Fou (1965) er spennandi, dramatísk og rómantísk mynd úr smiðju brautryðjanda frönsku nýbylgjunnar, Jean-Luc Godard. Ferdinand flýr leiðinlegt hjónaband og hálfgert persónulegt skipbrot með því að fá sér nýja kærustu, Marianne, sem er meira spennandi en hollt getur talist en hún er meðal annars á flótta undan hryðjuverkamönnum frá Alsír. Þau ákveða að fara saman í brjálæðislegt ferðalag út í óvissuna.
Eftir sýninguna er boðið upp á léttar veitingar og franska stemningu sem magnar upp andann fyrir síðustu sýningu dagsins.
Compartiment Tueurs – kl. 19:30
Síðast en ekki síst er á dagskrá kvikmyndin Compartiment Tueurs (1965). Sex manneskjur ferðast frá Marseille til Parísar með lest. Þegar þau koma á áfangastað hefur einn farþeginn verið myrtur. Hin fimm eru grunuð um glæpinn. En morðin halda áfram og hinum grunuðu fækkar hratt. Það liggur því mikið við að finna morðingjann áður en hann nær því markmiði sínu að myrða þau öll. Myndin er í leikstjórn hins margverðlaunaða Costa-Gavras.
Báðar frönsku kvikmyndirnar eru sýndar í samstarfi við Franska sendiráðið og Institut français
Með Bíóteki Kvikmyndasafns Íslands vill safnið gefa kvikmyndaáhugafólki tækifæri til að upplifa allskonar kvikmyndir einn sunnudag í mánuði. Margar kvikmyndir njóta sín best á stóru tjaldi í kvikmyndahúsi og við val á kvikmyndum til sýninga er lögð áhersla á að höfða til sem flestra og á öllum aldri. Miðaverði er sömuleiðis stillt í hóf og miðinn kostar einungis 1.000 krónur. Þeir sem vilja sjá allar sýningar dagsins fá þá þriðju fría. Sérstakir viðburðir verða í tengslum við margar af sýningunum sem geta veitt nýja innsýn í verkin. Bíó Paradís er góður vettvangur fyrir slíkar sýningar og viðburðirnir fara fram í nýuppgerðum sýninga- og samkomusal með glæsilegum bíóbar þar sem er allt til alls, popp, kók, kaffi, sælgæti og áfengir drykkir.