Morgunblaðið um VILLIBRÁÐ: Frábær frumraun

„Ein skemmtilegasta kvikmynd sem gerð hefur verið hér á landi í mörg ár,“ segir Helgi Snær Sigurðsson hjá Morgunblaðinu um Villibráð eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur.

Helgi Snær skrifar:

Ég kom alveg af fjöllum þegar ég sá fyrst veggspjald kvikmyndarinnar Villibráð og hélt í fyrstu að þarna færi ný mynd frá Vesturporti sem flogið hefði undir radarinn hjá mér. En nei, aldeilis ekki, þó svo nokkrir leikaranna hafi vissulega gert það gott með portinu. Hér var komin kvikmynd byggð á ítalskri mynd, Perfetti Sconosciuti sem kom út árið 2016. Er það býsna merkileg kvikmynd því hún hefur ratað í Heimsmetabók Guinness sem sú mynd sem oftast hefur verið endurgerð í kvikmyndasögunni. Villibráð er 22. endurgerðin (!!) og löndin því orðin mjög mörg sem búið hafa til sína útgáfu, m.a. Egyptaland, Spánn, Noregur (í fyrra) og núna Ísland. Ítalska frummyndin komst fyrir þremur árum í heimsmetabókina og voru endurgerðirnar þá orðnar 18 og átta voru þá væntanlegar, sú íslenska þeirra á meðal. Eins og bent var á í ljósvaka hér í Morgunblaðinu í fyrradag hefur egypska útgáfan valdið hvað mestu uppnámi en streymisveitan Netflix stóð að henni. Egypskir þingmenn kröfðust þess að lokað yrði fyrir veituna vegna myndarinnar sem er auðvitað fáránleg ritskoðun.

Í raun er þetta merkileg tilraun, að gera svo margar útgáfur af sömu kvikmynd og má eflaust þakka formúlunni eða grunnsögunni, hún er mjög góð og hægt að laga hana að ólíkri menningu og aðstæðum. Nú má ekki greina of ítarlega frá því sem gerist því margt á að koma á óvart og kannski best að nota bara lýsinguna sem finna má á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands: „Í matarboði í Vesturbænum ákveða sjö vinir að fara í stórhættulegan samkvæmisleik. Viðstaddir leggja símana á borðið og fallast á að öllum símtölum og skilaboðum sem berast verði deilt með samkomunni til að sanna að ekkert þeirra hafi nokkuð að fela.“

Eins og sjá má er hér komin krassandi uppskrift að neyðarlegum uppákomum, afhjúpun leyndarmála og uppgjörum af ýmsu tagi. Matarboðið fer fram í glæsilegu húsi vel stæðra hjóna, læknisins Rúnars (Hilmir Snær) og sálfræðingsins Evu (Nína Dögg). Þau hafa boðið bróður Rúnars, Þorsteini (Björn Hlynur), og nokkru yngri unnustu hans, Björgu (Þuríður Blær), og vinahjónum, Hildi og Leifi sem leikin eru af Anítu og Hilmari. Einn vinur þeirra hjóna, Pétur (Gísli Örn) mætir að auki en án maka og reynist hann vera sú persóna sem erfiðast er að átta sig á í boðinu og sú sem í fyrstu virðist líklegust til að sprengja allt í loft upp. Það er sálfræðingurinn Eva sem stingur upp á hinum hættulega símaleik og í ljós kemur þegar á líður að allir eiga sér sín leyndarmál sem best væru geymd í símunum. Undir niðri kraumar svo eldgosið á Reykjanesi og í upphafi boðsins titrar húsið hressilega og fljótlega brýst kvikan út, bæði úr jörðu og sálum viðstaddra. Þetta er skemmtileg samlíking og í raun mikil heppni fyrir kvikmyndagerðarfólkið að gosið skyldi eiga sér stað á sama tíma og verið var að taka myndina. Reglulega er hún brotin upp með skotum af flæðandi hrauninu og þá m.a. dáleiðandi drónamyndum.

Annar tveggja handritshöfunda, Tyrfingur, er þekkt leikskáld og hafa verk hans vakið mikla athygli og lof og þá ekki síst fyrir snörp og skondin samtöl og húmoríska sýn á samskipti manna. Þetta er hans fyrsta kvikmyndahandrit og afar vel heppnað sem slíkt og á Elsa, leikstjóri myndarinnar, jafnstóran þátt í þeim skrifum. Þetta er hennar fyrsta kvikmynd í fullri lengd og frábær frumraun, verður að segjast. Halda mætti að hér færi þaulreyndur kvikmyndaleikstjóri og greinilegt að Elsu er lagið að stýra leikurum. Allir, eða öll, eru þau afbragðsgóð í sínum ólíku hlutverkum enda þaulreyndur hópur. Hilmir er þeirra elstur og smellpassar í hlutverk hins sjálfsörugga læknis sem býður upp á sjö rétta máltíð og þá m.a. hreindýr sem hann felldi sjálfur. Yngri bróðir læknisins er andstæða hans, kæruleysislegur leigubílstjóri sem hópurinn gerir óspart grín að út af fyrri klúðrum og hugmyndum, t.d. þeirri að selja lifrarpylsu á torgum í Kaupmannahöfn. Aníta leikur taugatrekkta athafnakonu sem hefur engan tíma til að sinna börnum sínum og Hilmar eiginmann hennar, leikara sem virðist hafa lítið að gera annað en að hanga í símanum og Playstation. Sem fyrr segir er það svo Pétur, makalausi gesturinn, sem reynist mesta ráðgátan og spegill fyrir hinar sex persónurnar. Uppstillingin við matarborðið sýnir þetta með táknrænum hætti, Pétur situr einn fyrir endann en pörin þrjú til hliða og andspænis honum. Þannig fylgist Pétur með því sem fram fer, oftar en ekki líkt og áhorfandi og myndavélinni er beint að honum ýmist að framan eða aftan. Bíógesturinn verður þannig tengdari honum en öðrum persónum. Við erum Pétur.

Villibráð minnir á stofudrama í leikhúsi, sviðið nær eingöngu borðstofa í fínu húsi og stundum eldhús. Einstaka sinnum er farið út úr húsi og þá út í garð til að horfa á gosið. Hvert dramað kemur upp á eftir öðru í boðinu og mörgum áfengisflöskum er torgað. Áhorfandinn veltir því fyrir sér hvað geti mögulega komið næst í ljós, hvaða skandall geti mögulega verið verri en sá síðasti. Er það til þess gert að hækka í dramanu og bleksvörtu gríninu og bjóða upp á vaxandi tilþrif leikara.

Þótt allir standi þeir sig vel verð ég að nefna sérstaklega Anítu Briem sem er í hvað erfiðustu hlutverki, þarf að sýna miklar tilfinningasveiflur og einnig er gaman að sjá Gísla Örn í hlutverki sem er býsna ólíkt öðrum sem ég hef séð hann í. Leikur hans fer að stórum hluta fram án tals og felst í óræðum og oftar en ekki ógnandi og þjáningarfullum svipbrigðum. Hver er Pétur? er stóra spurningin. Hann virðist til alls liklegur. Undir ómar svo áhrifamikil og lymskulega fyndin tónlist Gísla Galdurs, rafskotin og taktföst. Takturinn minnir á hjartslátt og inn í fléttast hljóð úr fuglum sem sjaldan eða aldrei heyrast í í Reykjavík. Þetta virkar undarlegt og skondið á Íslending en útlendir áhorfendur munu líklega missa af gríninu.

Nú kann einhver að spyrja hvort ekki sé einfalt mál að endurgera kvikmynd frá öðru landi, hvort það felist ekki einfaldlega í að þýða handrit, staðfæra og finna leikara og leikstjóra? Nei, það er ekki svo einfalt því upprunalega myndin var bara útgangspunktur, ef rétt er skilið. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Tyrfingur að þau Elsa hefðu horft einu sinni á ítölsku myndina og tekið þaðan boltann þar sem þau höfðu ekkert handrit til að vinna út frá. Þau höfðu því afar frjálsar hendur og uppskáru ríkulega. Villibráð er ein skemmtilegasta kvikmynd sem gerð hefur verið hér á landi í mörg ár.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR