Morgunblaðið um BAND: Raunveruleiki og uppspuni

Flott og frumleg frumraun og vel unnin en náði ekki rýni á sitt band, segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir hjá Morgunblaðinu meðal annars um Band eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur.

Jóna skrifar:

Band er fyrsta kvikmyndin sem Álfrún Helga Örnólfs­dóttir leikstýrir og var frumsýnd á heimildamyndahátíðinni Hot Docs í Toronto í Kanada í vor. Band er eins konar blanda af heimildaháðmynd (e. mockumentary) og hefðbundinni heimildamynd. Hún styðst við stíl heimildamynda til að setja á svið að einhverju leyti skáldaða frásögn. Erfitt er að greina raunveruleikann frá uppspuna myndarinnar sem er viðeigandi þar sem viðfangsefni myndarinnar eru draumar og raunveruleikinn, þ.e. hvenær maður eigi að berjast við að láta drauma sína rætast og hvenær maður eigi að sleppa takinu.

Myndin fylgir þremur konum sem saman mynda hljómsveitina The Post Performance Blues Band eða PPBB. Hljómsveitin var stofnuð árið 2016 og er ekki síður mynd­listargjörningahópur. Myndin fylgir þar af leiðandi alvöruhljómsveit en allar eru þær listamenn og greinilegt að þær gleyma sér í tilbúna poppstjörnuhlutverkinu. Allar eru þær mæður og Álfrún leyfir áhorfendum að kynnast flækjunum sem fylgja því að vera móðir og „misheppnaður“ listamaður. Vinkonurnar reyna í sameiningu að finna gleðina í mistökum sínum og ósigri í listageiranum.

Titill myndarinnar hefur í raun þrefalda merkingu. Band þýðir hljómsveit á ensku sem er skýr tilvitnun í söguþráð myndarinnar en band eða bönd má einnig finna í orðunum fjölskyldubönd og vinasamband sem eru ekki síður mikilvægir þættir í myndinni.

Það er ekki annað hægt að segja en að Band sé einstök mynd en rýnir man ekki eftir að hafa séð íslenska háðsmynd áður. Níunda áratugar litirnir, súra listastemningin og tónlistin gerðu að verkum að rýni leið eins og hann væri á einhverju eiturlyfjatrippi en þótt hann hafi átt mjög erfitt með tónlistina er ekki hægt að segja annað en að hljóðið hafi verið vel unnið.

Það er greinilegt að markmið kvennanna var að nota húmor og einlægni til þess að fá áhorfendur með sér í lið og fagna með þeim ósigrinum og að það sé allt í lagi að gera mistök í atvinnu- og einkalífinu, jafnvel þótt maður sé orðinn fertugur. Boðskapurinn er fallegur en hann gleymist stundum í fíflagangi. Þær eru í sífellu að reyna að vera fyndnar í stað þess að reiða sig á einlægnina. Það geta allir samsamað sig þeim að vissu leyti en tengingin milli áhorfenda og persóna tapast þegar fíflagangurinn verður of mikill og áhorfendur eiga erfitt með að trúa því að einhver persóna myndi bregðast svona við í ákveðnum aðstæðum og fá þar af leiðandi bara kjánahroll en eflaust er það með vilja gert hjá leikstjóra. Eitt af sterkustu atriðunum er til dæmis þegar Álfrún fær ekki hlutverkið sem hana dreymdi um í nýjustu kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, Svar við bréfi Helgu . Þar er hún greinilega gráti nær og áhorfendur finna til með henni. Álfrún er þar ekki að leika einhverja uppstrílaða poppstjörnu heldur sanna útgáfu af sjálfri sér og það er sú Álfrún sem áhorfendur falla fyrir.

Á heildina litið er Band flott og frumleg frumraun hjá Álfrúnu og vel unnin hjá teyminu en náði ekki rýni á sitt band.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR