Pálmi Guðmundsson hefur látið af störfum sem dagskrárstjóri Símans að eigin ósk, en hann hefur gegnt stöðunni síðastliðin sjö ár.
Pálmi var ráðinn dagskrárstjóri Sjónvarps Símans í maí 2015. Fyrirrennari Sjónvarps Símans er Skjár einn, hvar Pálmi var dagskrárstjóri á árunum 2013-2015. Þar áður starfaði hann sem sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 á árunum 2001 til 2013.
Pálmi er lykilmaður í því að gera leikið sjónvarpsefni að reglulegum dagskrárlið í íslensku sjónvarpi. Undir hans stjórn sýndi Stöð 2 meðal annars þættina Næturvaktina, Dagvaktina og Fangavaktina, sem mörkuðu auk Pressu (einnig Stöð 2) upphafið að reglulegum sýningum leikinna innlendra þáttaraða. Sem dagskrárstjóri á Skjá einum og í Sjónvarpi Símans stóð hann fyrir gerð leikinna þáttaraða á borð við Stellu Blómkvist (2 syrpur), Venjulegt fólk (fimmta syrpa í framleiðslu), Jarðarförin mín, Systrabönd og Brúðkaupið mitt.
Pálmi sagðist í samtali við Vísi vilja halda því fyrir sig hvað tekur við.
Viðskiptablaðið greindi einnig frá.