Menningarsmygl um VOLAÐA LAND: Vor vansköpuðu lönd

Volaða land Hlyns Pálmasonar er sýnd þessa dagana á Karlovy Vary hátíðinni í Tékklandi. Ásgeir H. Ingólfsson er á hátíðinni og skrifar um myndina á vef sinn Menningarsmygl.

Ásgeir skrifar:

Volaða land er mynd margra titla. Danski titillinn er Vanskabte land og sá enski Godland – og sá danski er jafnrétthár þeim íslenska, þeir koma báðir fyrir með flúruðu letri í upphafi myndar og við lok hennar, og ef þú sérð myndina með enskum texta fylgja þessir kyndugu skjátextar með: „Godland (Icelandic)“ og „Godland (Danish).“

Lucas er danskur prestur sem er sendur til hjálendunnar Íslands – og hann ákveður að taka erfiðu leiðina, yfir hól og yfir dal, yfir fjöll og firnindi. Aðallega út af ljósmyndadellunni sem hann er haldinn, en í upphafi myndar kemur fram að myndin er innblásin af blautplötumyndum sem fundust nýlega. Sá fundur er hluti af skáldskapnum, hér rennur draumur, raunveruleiki og skáldskapur saman við alla þessa titla og öll þessi tungumál.

Hlynur Pálmason leikstýrði fyrst dönsku myndinni Vetrarbræður, þar sem Elliott Crossett Hove var í aðalhlutverki og næst Hvítur hvítur dagur þar sem Ingvar E. Sigurðsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir voru í aðalhlutverkum – og eftir eina íslenska mynd og eina danska er komið að dansk-íslenskri mynd með öllum þessum þremur leikurum í aðalhlutverkum. Ída í einu stærsta aukahlutverkinu á meðan Crossett og Ingvar eru með okkur mestalla myndina.

Þetta er líka mynd um flókið og oft erfitt samband þjóðanna. Þegar túlkur prestsins (Hilmar Guðjónsson) telur upp öll orðin sem Íslendingar hafa yfir regn hlær maður – en áttar sig um leið á að hann er aldrei að fara að kenna honum íslensku með þessu móti; það væri líklega betri byrjun að kunna 30 orð um 30 hluti en 30 orð um sama hlutinn?

Það staðsetur myndina vissulega rækilega í fortíðinni að engin notar ensku til að liðka fyrir samskiptum – en maður skynjar líka skilyrt og viljandi skilningsleysi; þetta eru skyld mál og áhrif dönsku mikil á Íslandi á þessum árum – en um leið og andúðin eykst þá byrja menn að loka eyrunum.

Og þetta ógestristna Ísland 19 aldarinnar gerir menn bitra og heyrnasljóa. Eða kannski er það fyrst og fremst þver presturinn, sem skortir algjörlega auðmýkt gestsins og virðingu fyrir sérþekkingu heimamanna á eigin landi.

Og fyrri hluti myndarinnar er fyrst og fremst um þrekraun, þá þrekraun að ganga á milli bæja á suð-austurlandi Íslands án nútímavega eða nútímafarartækja. Þrekraun sem er nógu erfið fyrir, þegar þú þarft ekki að taka við skipunum frá dönskum prest sem hefur engan skilning á aðstæðum. Þessi hluti er í raun spennumynd; komast þeir alla leið? Eða öllu heldur; hversu margir komast alla leið? Ægifögur spennumynd vissulega, sá framandleiki sem gróf áferðin og ferkantaður ramminn ljær myndefninu gerir að verkum að jafnvel langþreyttir gagnrýnendur sem eru búnir að fá yfir sig nóg af íslensku landslagsklámi verða bara nokkuð hrifnir.

Ólistrænn embættismaður

Þegar á áfangastað kemur tekur friðsældin við. Hér bregður Hlynur upp mjög skemmtilegri mynd af íslensku sveitalífi á nítjándu öld, ein besta sena myndarinnar er í kjölfar brúðkaups – hreinlega af því maður fær mjög skemmtilega svipmynd af því hvernig forfeður okkar skemmtu sér, börn jafnt sem fullorðnir, við aðrar aðstæður vissulega og öðruvísi klædd, með öðruvísi afþreyingarmöguleika – en ótrúlega margt er samt eins, við elskum öll gott partí á íslenskum sumardögum alltaf jafn mikið, hver sem öldin er.

Í þessum kafla mæta líka systurnar Ída (Ída Mekkín) og Anna (Vic Carmen Sonne, þekktust fyrir aðalhlutverkið í Holiday) og gefa myndinni bæði léttleika og snert af rómantík. En þótt stemmningin sé léttari en nokkuð ljóst að það er seint að fara að endast.

Í gegnum þetta allt saman tekur presturinn áfram myndir. Ekki beint í gríð og erg, þetta eru fágæt tæki og tól sem hann er að sýsla með og hann þarf því að vera sparsamur á myndatökurnar. Blautplötumyndirnar sem hann tekur ráða útliti myndarinnar, hún er að megninu til öll á þessum einkennilega nánast ferkantaða fleti, sem þýðir að nándin er öðruvísi, fjarlægðin öðruvísi.

Myndin kemur í kjölfar Kóperníku, skáldsögu Sölva Björns Sigurðssonar, þar sem þessi þröskuldur nútímans með nýrri ljósmyndatækni er líka skoðaður í samhengi við samband Íslendinga og Dana á nítjándu öld. En hér fáum við líka forvitnilega mynd af prestinum sem listamanni. Hann er vandvirkur en í raun afskaplega ólistrænn, bregst illa við öllum tillögum sem eru hið minnsta óhefðbundnar, flippaðar eða leikandi. Þetta minnir okkur einfaldlega á að hástétt hvers tíma fær alltaf fyrsta nasaþefinn af tækninýjungunum – það er oft ekki fyrr en tilraunaglaður almúginn fær myndavélar eða tölvur eða snjallsíma í hendurnar sem skapandi tilraunamennskan tekur völdin.

Í skáldskap um þessa tíma eru prestar þó oft listrænar sálir (eins og áðurnefndur Matthías); mann grunar stundum að þeir hafi einfaldlega endað í prestaskólanum af því annað var ekki í boði, þeir hefðu líklegast farið frekar í listaháskólann eða hugvísindadeildina ef þeir hefðu verið uppi einni eða tveimur öldum síðar. Þótt vitaskuld séu líka þeir sem vilji nálgast kirkjustörfin á skapandi, alþýðlegan og manneskjulegan hátt. En svo eru líka þeir sem gerast prestar einmitt af því þeim hugnast kennivald hennar, þvermóðska og það vald sem embættið færir þeim yfir öðrum mönnum. Og Lucas er svo sannarlega slíkur prestur, þótt stöku sinnum glitti í annað.

Leiðsögumaðurinn Ragnar er svo hreint náttúruafl; skáldmæltur og grófur, rómantískur fauti í augum glámskyggns prestsins, vissulega, en maður skynjar þó að Ragnar sé í raun miklu meiri guðsmaður á sinn hátt en presturinn. Ingvar E. Sigurðsson leikur Ragnar af mikilli list og fær á endanum einn eftirminnilegasta mónólóg íslenskrar kvikmyndasögu.

Á einhvern skringilegan hátt endar myndin svo dálítð eins og There Will Be Blood, þar sem flestum hlutverkum er snúið á haus. Íslenska norðrið reynist ekki síður grimmt en ameríska vestrið og Hlynur sýnir okkur hvernig dauði bæði dýra og manna birtist í hæglátri eilífðinni og íslenska vetrinum, þar sem strjáltíma (e. time-lapse) myndataka er notuð til að sýna okkur hvernig líkin veðrast og rotna, þangað til nýtt land rís af hræinu; volað og vanskapað Guðsland.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR