Lagt til að gólf verði hækkað í 350 milljónir króna vegna 35% endurgreiðslu

Í breytingatillögum Atvinnuveganefndar Alþingis vegna frumvarps um 35% endurgreiðslu er lagt til að lágmark framleiðslukostnaðar verði 350 milljónir króna í stað 200 milljóna eins og lagt er til í frumvarpinu. Atkvæði verða greidd um frumvarpið í dag samkvæmt dagskrá Alþingis.

Varðandi 30 daga lágmark í sameiginlegum tökudögum og eftirvinnsludögum er gert ráð fyrir að það haldi sér, en að minnsta kosti 10 þeirra séu tökudagar.

Varðandi lágmarksfjölda starfsmanna er lagt til að 50 manna lágmarkið standi og að sú vinna nemi að lágmarki 50 starfsdögum. Skilyrði er að launa- eða verktakagreiðslur þessara starfsmanna séu skattlagðar hér á landi.

Einnig er lagt til að ráðherra láti óháðan aðila gera úttekt á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, þar á meðal hagrænum áhrifum þeirra og samfélagslegum ávinningi. Þá skal úttektin fjalla um hvernig til hafi tekist við hækkun á hlutfalli endurgreiðslu fyrir stærri verkefni. Úttektinni skal lokið fyrir árslok 2024 og niðurstöður hennar birtar opinberlega.

Í athugasemdum með frumvarpinu er meðal annars rætt um þau áhrif sem hækkun endurgreiðslunnar gæti haft á smærri framleiðendur. Þar segir:

Bent var á að frumvarpið getur haft áhrif á samkeppnisstöðu smærri kvikmyndaframleiðenda og framleiðslu minni verkefna, sem geta verið þýðingarmikil í listrænu og menningarlegu samhengi. Þannig getur orðið erfitt fyrir minni framleiðendur að keppa um starfsfólk, kvikmyndatökubúnað og aðra þjónustu. Nefndin bendir á að með frumvarpinu er ekki verið að breyta megintilgangi laganna, þ.e. eftir sem áður þurfa stór verkefni sem sótt er um endurgreiðslu fyrir að hafa ákveðna menningarlega skírskotun. Þá geta minni þjónustuaðilar notið góðs af því að verið sé að styrkja stærri kvikmyndaverkefni. Nefndin leggur til að fjallað verði um stöðu smærri kvikmyndaframleiðenda og áhrif frumvarpsins á þá í fyrirhugaðri úttekt sem mælt er fyrir um í breytingartillögum nefndarinnar.

Sjá má breytingartillögur og athugasemdir hér.

Atkvæði verða greidd um frumvarpið í dag.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR