Kristín Jóhannesdóttir heiðruð á Rvk Feminist Film Festival

Rvk Feminist Film Festival fer fram í þriðja sinn 5.-8. maí. Að þessu sinni leggur hátíðin áherslu á kynsegin málefni, aktívisma og konur með mismunandi menningarlegan bakgrunn og POC (People of Color).

Hátíðin fer fram í Bíó Paradís, Icelandair Marina Hotel og Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, ásamt nokkrum öðrum stöðum. Sýndar verða myndir eftir konur frá Indlandi, Frakklandi, Kenía, Austurríki, Brasilíu, Ameríku, Argentínu, Serbíu, Þýskalandi, Úkraínu og Póllandi svo eitthvað sé nefnt.

Heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar í ár er Kristín Jóhannesdóttir en hún mun taka við verðlaununum á opnunarkvöldinu 5. maí. Sýning á mynd hennar Alma ásamt Q&A verður 8. maí kl. 15:00 í Veröld.

Opnunarmynd hátíðarinnar, Rafiki, eftir Wanuri Kahiu frá Kenía fjallar um raunir tveggja kvenna sem fella hugi saman en samkynhneigð er ólögleg í Kenía.

SYSTIR – Stuttmyndakeppni RVK FFF verður á sínum stað með verðlaunaafhendingu þann 6. maí í Veröld kl. 18:00.

Gestir hátíðarinnar eru Sapna Moti B. frá Indlandi, sem sýnir mynd sína My Dog is Sick og Mylissa Fitszimmons frá Bandaríkjunum sem sýnir mynd sína Everything in the End, en hún er tekin upp hér á Íslandi.

Í pallborði verður rætt um sýnileika kynsegin og transfólks í bransanum – Queer, Hidden People in the Film Bizz. Annað pallborð kallast No Woman Alone og fjallar um ofbeldi í nánum samböndum í víðu samhengi. Þriðja pallborðið er Urðarbrunnur, sem er úrræði fyrir konur í neyslu sem eru barnshafandi. Þá mun sendiherra EU á Íslandi halda pallborð með konum sem starfa í opinbera geiranum – Running with an Invisible Backpack: Women in Public Life.

Lokaviðburður hátíðarinnar 8. maí eru Sólveigar Anspach verðlaunin í Bíó Paradís í samstarfi við Franska sendiráðið á Íslandi. Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra mun afhenda verðlaunin.

Vefur hátíðarinnar er hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR