INGALÓ og SÓDÓMA REYKJAVÍK á sérsýningum í Bíó Paradís

Ingaló (1992) eftir Ásdísi Thoroddsen og Sódóma Reykjavík (1992) eftir Óskar Jónasson verða sýndar á sérstökum sýningum í Bíó Paradís á næstunni. Báðar eru þrjátíu ára á þessu ári.

Sódóma Reykjavík verður sýnd á svokallaðri föstudagspartísýningu 29. apríl kl 19, að viðstöddum leikurum, leikstjóra og starfsliði myndarinnar. Sýnt verður nýtt stafrænt eintak. Miðar fást hér.

Þvílík vandræði sem geta orðið þegar fjarstýringin týnist… og svo má auðvitað ekki gleyma gullfiskunum. Axel er feiminn og hlédrægur piltur sem býr enn heima hjá mömmu sinni, vinnur á bifreiðaverkstæði og ekur flottum, amerískum kagga. Líf mömmu hans snýst að mestu leyti um sjónvarpsdagskrána og þegar fjarstýringin týnist einn góðan veðurdag, er fjandinn laus.

Ingaló verður sýnd í Bíóteki Kvikmyndasafnsins þann 1. maí kl. 17. Myndin hefur verið endurunnin stafrænt. Miðar fást hér.

Ingaló er dramatísk kvikmynd um unga konu sem er til sjós á trillu föður síns, en feðginin eiga ekki skap saman. Ástir og átök eru örlagavaldar í lífi Ingulóar og í henni togast á verndarhvöt gagnvart yngri bróður hennar við ungæðislegar ástartilfinningar gagnvart öðrum. Villt partí í verbúð reynist afdrifaríkt fyrir Inguló og aðra verbúðarmenn.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR