Breytingar á kvikmyndalögum komnar í samráðsgátt stjórnvalda

Breytingatillögur snúast meðal annars um að skilgreindur hagnaður af kvikmynd eða sjónvarpsverki verði endurgreiddur, samanber Kvikmyndastefnu til 2030.

Segir á samráðsgátt:

Menningar- og viðskiptaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001.

Stuðningur við kvikmyndagerð fellur undir málefnasvið 18, menningu, listir, íþrótta og æskulýðsmál. Meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar og lista er að jafna og bæta tækifæri til nýsköpunar í menningar- og listastarfsemi. Kvikmyndamál falla undir málaflokk 18.2 menningarstofnanir og 18.3 menningarsjóðir. Markmið stjórnvalda í málaflokkunum er meðal annars að skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytni, nýsköpun og frumkvæði í listum og menningu. Kvikmyndastefna til ársins 2030 var kynnt á heimasíðu Stjórnarráðsins 6. október 2020. Í kvikmyndastefnu stjórnvalda er fjallað um að styðja þurfi við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða í anda Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins. Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn styrkir framleiðslu á verkum í formi lána sem endurgreiðast skv. ákveðnum reglum. Sjóðurinn á rétt á hluta (endurgreiðsluhlutfalli) af tekjum á heimsvísu af kvikmynd/þáttaröð. Sambærileg heimild til endurgreiðslu rúmast ekki innan ákvæða kvikmyndalaga. Með breytingarfrumvarpinu er kvikmyndasjóði skylt að veita skilyrta styrki í álíka formi og Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn.

Helstu breytingar frumvarpsins eru:

• Að kveða skýrt á um að styrkir til kvikmyndagerðar skulu veittir með skilyrði um endurgreiðslu hluta hagnaðar af tekjum kvikmyndar.

• Skerpt er á hlutverki Kvikmyndasafns Íslands í markmiðum laganna um að safnið stuðli að varðveislu kvikmyndaarfs.

• Með tilkomu kvikmyndastefnu hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands fengið aukið hlutverk við að sinna kvikmyndafræðslu á Íslandi. Kvikmyndafræðslu er því bætt við verkefni miðstöðvarinnar.

• Bætt er við málsgrein um að heimilt sé að endurskipa forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands einu sinni til fimm ára. Það er í samræmi við skipunartíma forstöðumanna annarra opinberra stofnana á sviði lista, t.d. Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands.

• Orðalag 11. gr. laganna um gjaldtökuheimild Kvikmyndasafns Íslands er uppfært til dagsins í dag. Til dæmis lánar Kvikmyndasafn Íslands ekki út kvikmyndir í handbæru formi á diskum eða drifum heldur veitir safnið aðgang að efninu á stafrænu formi. Jafnframt er safninu heimilað að taka gjald fyrir sýningu, annan flutning og rétt til eintakagerðar í samræmi við ákvæði höfundalaga nr. 73/1972.

• Tekið er út orðalag um að í reglugerð megi finna nánari ákvæði um meginskiptingu fjárveitinga milli einstakra greina kvikmyndagerðar. Ekki er talið álitlegt að festa skiptingu fjárveitinga milli greina kvikmyndagerðar í reglugerð. Breyta þyrfti reglugerð í hvert skipti sem áherslubreyting verður í úthlutun sjóðsins og gerir miðstöðinni erfiðara fyrir. Orðalagið er því tekið út.

Samráðsgáttin er hér.

Gildandi kvikmyndalög má lesa hér.

Kvikmyndastefna til 2030.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR