Sveini í Plús film dæmdar 20 milljónir króna í bætur eftir deilur við Ólaf bónda á Þorvaldseyri

Ólaf­ur Eggerts­son, bóndi á Þor­valds­eyri und­ir Eyja­fjöll­um, þarf að greiða Plús film ehf., í eigu Sveins M. Sveins­son­ar kvik­mynda­gerðar­manns, 20 millj­ón­ir króna í gegn­um einka­hluta­fé­lag sitt Eyr­ar­búið ehf. sem hlut­deild í hagnaði af sýn­ingu heim­ild­a­mynd­ar um gosið í Eyja­fjalla­jökli sem bar heitið Eyja­fjalla­jök­ull Erupts.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu og þar er málið rakið í eftirfarandi frétt:

Mynd­in, sem er um 20 mín­út­ur að lengd, var sýnd í gesta­stofu við Þor­valds­eyri og seld á DVD-disk­um. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Suður­lands sem felldi dóm sinn í síðustu viku. Til viðbót­ar þarf Ólaf­ur að greiða 5 millj­ón­ir í máls­kostnað.

Tók upp gosið og lífið á Þor­valds­eyri
Málið má rekja til eld­goss­ins í Eyja­fjalla­jökli í apríl 2010. Í fram­haldi af því kom Sveinn að máli við Ólaf og var í fram­hald­inu ákveðið að Sveinn myndi mynda lífið á Þor­valds­eyri og gosið. Deilt var um það hver ætti höf­und­ar­rétt að kvik­mynd­inni og hvort Sveinn ætti rétt á hlut­deild úr tekj­um sem komu til gesta­stof­unn­ar.

Deildu þeir Sveinn og Þor­vald­ur um sam­komu­lag sem gert hafði verið við gerð mynd­ar­inn­ar um að Sveinn fengi hlut­deild í sölu DVD-diska, en Ólaf­ur gæti notað í gesta­stof­unni. Þá taldi Sveinn að hann gæti notað efnið við dreif­ingu er­lend­is, meðal ann­ars í tengsl­um við mynd­ina Aska sem var sýnd víða er­lend­is.

Sveinn fór fram á 80 millj­ón­ir
Gesta­stof­unni var lokað um ára­mót­in 2017-18. Ólaf­ur vildi meina að krafa Sveins um að hætt yrði að nota mynd­ina hefði orðið til þess að hætt var að sýna mynd­ina, en Sveinn taldi að með því að loka gesta­stof­unni og hætta sölu DVD-diska hefði verið lokað fyr­ir tekju­streymi sitt vegna mynd­ar­inn­ar. „Við slík­ar aðstæður sé rétt að fram­leiðend­ur skipti með sér í jöfn­um hlut­föll­um hagnaði af þeirri nýt­ingu sem þegar hafi farið fram,“ seg­ir um kröfu hans í dóm­in­um.

Sveinn fór fram á að fá sam­tals greidd­ar 80 millj­ón­ir vegna notk­un­ar mynd­ar­inn­ar í aðal­kröfu sinni og svo lækk­andi eft­ir því hver væri fyrn­ing­ar­dag­setn­ing. Í vara­kröfu fór hann fram á 33,7 millj­ón­ir og lækkaði sú tala jafn­framt eft­ir fyrn­ing­ar­dag­setn­ingu.

Í mats­gerð sem unn­in var vegna dóms­máls­ins kom fram að tekj­ur af mynd­inni væru 152 millj­ón­ir, þar af 20,7 millj­ón­ir vegna sölu á DVD-disk­um og 131,3 millj­ón­ir fyr­ir sýn­ingu í gesta­stof­unni.

Ólaf­ur taldi hins veg­ar að hann hafi greitt fyr­ir gerð mynd­ar­inn­ar og að sam­kvæmt sam­komu­lagi ætti Plús film ekki að fá hlut­deild í aðgangs­eyri að gesta­stof­unni, held­ur hlut­deild í sölu á DVD-mynd­un­um. Þá sagði Ólaf­ur að hann hafi fengið Svein til að taka mynd­efnið upp í verk­töku sem og klippi­vinnu og koma efn­inu sam­an í heim­ild­ar­mynd­ina. Þetta hafi allt verið sam­kvæmt fyr­ir­mæl­um Ólafs og á kostnað Eyr­ar­bús­ins. Taldi Ólaf­ur að hann væri einn eig­andi höf­und­ar­rétt­ar mynd­ar­inn­ar.

„Eng­an veg­inn fall­ist“ á túlk­un Ólafs
Í niður­stöðu dóms­ins seg­ir að á þetta verði „eng­an veg­inn fall­ist.“ Er vísað í höf­und­ar­lög þar sem hver sá sem til­greind­ur sé sem höf­und­ur sé það nema annað komi fram. Ekk­ert hafi komið fram sem sýni fram á að svo sé og því sé Sveinn höf­und­ur hand­rits, leik­stjóri klipp­ari og kvik­mynda­tökumaður verks­ins. Ekki sé sýnt fram á að Sveinn hafi fram­selt höf­und­ar­rétt sinn. Þá seg­ir jafn­framt að list­rænt fram­lag Ólafs til mynd­ar­inn­ar verði ekki talið með nokkr­um þeim hætti sem út­rýmt geti höf­und­ar­rétti Sveins.

Niðurstaðan er því að málsaðilar eigi höf­und­ar­rétt­inn að jöfnu. Er not­ast við út­reikn­inga í mats­gerðinni, en tekið til­lit til þess að gest­ir gesta­stof­unn­ar kunni einnig að hafa notið annarra verðmæta en kvik­mynd­ar­inn­ar við greiðslu aðgangs­eyr­is, sem var upp á 850 krón­ur. Er horft til þess að 10% tekna hafi komið vegna fræðslu- og skoðun­ar­ferða um Þor­valds­eyri og 50% vegna jarðfræðisýn­ing­ar. Er því fall­ist á þrauta­vara­kröfu fé­lags Sveins og hon­um dæmd­ar 20,2 millj­ón­ir sem Eyr­ar­búið þarf að greiða auk vaxta, en tekið er fram að kröf­ur fyr­ir maí árið 2016 hafi verið fyrnd­ar.

300 millj­óna hagnaður af gesta­stof­unni
Eyr­ar­búið er að fullu í eigu Ólafs, en fé­lagið held­ur bæði utan um rekst­ur bús­ins og frá ár­inu 2011 hef­ur í árs­reikn­ing­um þess verið til­tekn­ar tekj­ur vegna ferðaþjón­ustu og gjöld gesta­stof­unn­ar. Í skýr­ing­um kem­ur svo reynd­ar fram að tekj­urn­ar séu vegna gesta­stof­unn­ar. Frá 2011 til 2018, eða í þau átta ár sem gesta stof­an var rek­in, voru heilda­tekj­ur henn­ar um 500 millj­ón­ir og rekstr­ar­gjöld tæp­lega 200 millj­ón­ir. Rekstr­ar­hagnaður var því um 300 millj­ón­ir yfir tíma­bilið.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR