Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, þarf að greiða Plús film ehf., í eigu Sveins M. Sveinssonar kvikmyndagerðarmanns, 20 milljónir króna í gegnum einkahlutafélag sitt Eyrarbúið ehf. sem hlutdeild í hagnaði af sýningu heimildamyndar um gosið í Eyjafjallajökli sem bar heitið Eyjafjallajökull Erupts.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu og þar er málið rakið í eftirfarandi frétt:
Myndin, sem er um 20 mínútur að lengd, var sýnd í gestastofu við Þorvaldseyri og seld á DVD-diskum. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands sem felldi dóm sinn í síðustu viku. Til viðbótar þarf Ólafur að greiða 5 milljónir í málskostnað.
Tók upp gosið og lífið á Þorvaldseyri
Málið má rekja til eldgossins í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Í framhaldi af því kom Sveinn að máli við Ólaf og var í framhaldinu ákveðið að Sveinn myndi mynda lífið á Þorvaldseyri og gosið. Deilt var um það hver ætti höfundarrétt að kvikmyndinni og hvort Sveinn ætti rétt á hlutdeild úr tekjum sem komu til gestastofunnar.Deildu þeir Sveinn og Þorvaldur um samkomulag sem gert hafði verið við gerð myndarinnar um að Sveinn fengi hlutdeild í sölu DVD-diska, en Ólafur gæti notað í gestastofunni. Þá taldi Sveinn að hann gæti notað efnið við dreifingu erlendis, meðal annars í tengslum við myndina Aska sem var sýnd víða erlendis.
Sveinn fór fram á 80 milljónir
Gestastofunni var lokað um áramótin 2017-18. Ólafur vildi meina að krafa Sveins um að hætt yrði að nota myndina hefði orðið til þess að hætt var að sýna myndina, en Sveinn taldi að með því að loka gestastofunni og hætta sölu DVD-diska hefði verið lokað fyrir tekjustreymi sitt vegna myndarinnar. „Við slíkar aðstæður sé rétt að framleiðendur skipti með sér í jöfnum hlutföllum hagnaði af þeirri nýtingu sem þegar hafi farið fram,“ segir um kröfu hans í dóminum.Sveinn fór fram á að fá samtals greiddar 80 milljónir vegna notkunar myndarinnar í aðalkröfu sinni og svo lækkandi eftir því hver væri fyrningardagsetning. Í varakröfu fór hann fram á 33,7 milljónir og lækkaði sú tala jafnframt eftir fyrningardagsetningu.
Í matsgerð sem unnin var vegna dómsmálsins kom fram að tekjur af myndinni væru 152 milljónir, þar af 20,7 milljónir vegna sölu á DVD-diskum og 131,3 milljónir fyrir sýningu í gestastofunni.
Ólafur taldi hins vegar að hann hafi greitt fyrir gerð myndarinnar og að samkvæmt samkomulagi ætti Plús film ekki að fá hlutdeild í aðgangseyri að gestastofunni, heldur hlutdeild í sölu á DVD-myndunum. Þá sagði Ólafur að hann hafi fengið Svein til að taka myndefnið upp í verktöku sem og klippivinnu og koma efninu saman í heimildarmyndina. Þetta hafi allt verið samkvæmt fyrirmælum Ólafs og á kostnað Eyrarbúsins. Taldi Ólafur að hann væri einn eigandi höfundarréttar myndarinnar.
„Engan veginn fallist“ á túlkun Ólafs
Í niðurstöðu dómsins segir að á þetta verði „engan veginn fallist.“ Er vísað í höfundarlög þar sem hver sá sem tilgreindur sé sem höfundur sé það nema annað komi fram. Ekkert hafi komið fram sem sýni fram á að svo sé og því sé Sveinn höfundur handrits, leikstjóri klippari og kvikmyndatökumaður verksins. Ekki sé sýnt fram á að Sveinn hafi framselt höfundarrétt sinn. Þá segir jafnframt að listrænt framlag Ólafs til myndarinnar verði ekki talið með nokkrum þeim hætti sem útrýmt geti höfundarrétti Sveins.Niðurstaðan er því að málsaðilar eigi höfundarréttinn að jöfnu. Er notast við útreikninga í matsgerðinni, en tekið tillit til þess að gestir gestastofunnar kunni einnig að hafa notið annarra verðmæta en kvikmyndarinnar við greiðslu aðgangseyris, sem var upp á 850 krónur. Er horft til þess að 10% tekna hafi komið vegna fræðslu- og skoðunarferða um Þorvaldseyri og 50% vegna jarðfræðisýningar. Er því fallist á þrautavarakröfu félags Sveins og honum dæmdar 20,2 milljónir sem Eyrarbúið þarf að greiða auk vaxta, en tekið er fram að kröfur fyrir maí árið 2016 hafi verið fyrndar.
300 milljóna hagnaður af gestastofunni
Eyrarbúið er að fullu í eigu Ólafs, en félagið heldur bæði utan um rekstur búsins og frá árinu 2011 hefur í ársreikningum þess verið tilteknar tekjur vegna ferðaþjónustu og gjöld gestastofunnar. Í skýringum kemur svo reyndar fram að tekjurnar séu vegna gestastofunnar. Frá 2011 til 2018, eða í þau átta ár sem gesta stofan var rekin, voru heildatekjur hennar um 500 milljónir og rekstrargjöld tæplega 200 milljónir. Rekstrarhagnaður var því um 300 milljónir yfir tímabilið.