spot_img

Lestin um ÞORPIÐ Í BAKGARÐINUM: Með hjartað á réttum stað

„Þröngur rammi myndarinnar gerir að verkum að áherslan er öll á persónurnar og þær eru báðar grípandi og vel leiknar,“ segir Gunnar Theódór Eggertsson meðal annars í Lestinni á Rás 1 um Þorpið í bakgarðinum eftir Martein Þórsson.

Gunnar skrifar:

Þorpið í bakgarðinum er ný íslensk kvikmynd í leikstjórn Marteins Þórssonar sem einnig semur söguna ásamt Guðmundi Óskarssyni handritshöfundi. Þar segir frá Brynju, leikinni af Laufeyju Elíasdóttur, sem ílengist í Hveragerði eftir dvöl á heilsuhælinu. Hún fær herbergi á gistiheimili í bænum og kynnist þar Bretanum Mark, leikinn af Tim Plester, en saman eru þau einu gestirnir á staðnum um hávetur. Fljótlega kemur í ljós að Brynja er smeyk við að snúa aftur heim til Reykjavíkur vegna þess að hún vill ekki hitta móður sína, sem hefur óvænt snúið aftur inn í líf hennar eftir áratugalanga fjarveru. Endurkoma móðurinnar og nýlegt fráfall föður hennar hefur snúið lífi Brynju á hvolf og bakgarður gistiheimilisins virðist ágætur felustaður. Þá bankar Mark upp á og býður henni að borða með sér, úr því að þau eru þarna bæði ein á báti, og þar með hefst vinskapur þeirra á milli sem mun hafa sterk áhrif í báðar áttir.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn ákváðu víst að setja sér takmarkanir við gerð myndarinnar, hafa sögusviðið smátt, persónur fáar og fókusinn skýran, og það gengur nokkuð vel upp í Þorpinu í bakgarðinum. Myndin er tekin í Hveragerði og næsta nágrenni og að miklu leyti á gistiheimili sem leikstjórinn rekur sjálfur ásamt eiginkonu sinni og ekkert farið í felur með það. Sama nafni er haldið á fyrirtækinu, raunveruleg nöfn hjónanna sýnileg á útidyrahurðinni og fögur orð eru höfð um hvað gistiheimilið sé huggulegt. Umhverfið er annars vel nýtt og sérstaklega áhrifaríkt hvernig staðsetningin spilar inn í sögu Marks, en hann er að sjálfsögðu ekki staddur þarna um miðjan vetur að ástæðulausu.

Þröngur rammi myndarinnar gerir að verkum að áherslan er öll á persónurnar og þær eru báðar grípandi og vel leiknar. Tilfinningaflækjurnar komast vel til skila og handritið fer sparlega með baksöguna, leyfir okkur áhorfendum að kynnast þeim, rétt eins og þau kynnast hvort öðru smátt og smátt þessa daga sem þau eyða saman á gistiheimilinu. Myndin byrjar eins og rómantísk gamanmynd, með krúttlegum hittingi, og skemmtilega vandræðalegu matarboði, en þó dormar ólgusjór undir kurteisishjalinu beggja vegna borðsins. Myndin minnir stundum á leikrit og ákveðnir hlutar virka sviðsettir og dálítið þvingaðir, sem er líklega afleiðing þess að hafa svona þröngan ramma í kringum tvær dramatískar aðalpersónur. Gististofudramað er hins vegar brotið upp með stuttum ferðum út fyrir bakgarðinn, þar sem myndavélin fer á flug og hljóðmynd þagnarinnar í snjónum leikur lykilhlutverk. Þorpið í bakgarðinum er hugljúf og einlæg mynd með hjartað á réttum stað, mynd um sorg og missi og hvernig nýjar tengingar geta haft áhrif og breytt lífi annarra. Myndin var tekin upp fyrir COVID og henni fylgir undarlegur post-COVID eftirmáli sem færir ákveðna hluta sögunnar í nýtt samhengi og gerir efnið jafnvel enn meira knýjandi, sérstaklega hvað varðar tuttugu sekúndna regluna, atriði sem er alveg sérstaklega áhrifaríkt árið 2021.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR