Þáttaröðin Margt býr í Tulipop (Tulipop Tales) fær 22,5 milljónir króna (1,5 milljónir norskra) frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum í nýjustu úthlutun.
Um er að ræða teiknimyndir ætlaðar börnum, alls 13 þættir sem hver verður 7 mínútur.
Verkefninu er svo lýst:
Hin uppátækjasama Gló og heimakæri bróðir hennar Búi lenda í ævintýrum á eldfjallaeyjunni Tulipop, þar sem þau búa. Með í för er loðna skógarskrímslið Freddi, sem þekkir eyjuna eins og lófann á sér en er gjarn á að koma sér í vandræði. Skrautlegir íbúar eyjunnar þurfa að læra að umgangast Tulipop af virðingu, enda er náttúran síbreytileg og full af kyngimögnuðum kröftum. Með því að takast á við alls kyns uppákomur uppgjötva íbúarnir verðmæti vináttunnar og fjölbreytileikans.
Sigvaldi J. Kárason mun leikstýra. Handritshöfundar eru Gunnar Helgason og Davey Moore. Helga Árnadóttir og Guðný Guðjónsdóttir framleiða fyrir Tulipop Studios. Verkefnið hefur einnig hlotið 51 milljóna króna styrk úr Kvikmyndasjóði. Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans.