Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir fyrirsjáanlegt að draga þurfi saman í dagskrárgerð og fréttaþjónustu RÚV á næsta ári. Gert er ráð fyrir að framlög til RÚV verði skorin niður um 6,5% í fjárlagafrumvarpinu 2021 og að auki gerir RÚV ráð fyrir minni auglýsingatekjum á næsta ári. Nemur samdráttur í tekjum rúmlega 9%.
Fjallað er um þetta í Fréttablaðinu:
Í fjárlagafrumvarpinu er gert er ráð fyrir að framlög til Ríkisútvarpsins lækki um 310 milljónir króna á milli ára í samræmi við áætlaðar tekjur af útvarpsgjaldi. Samkvæmt tekjuáætlun er gert ráð fyrir að hækka útvarpsgjaldið um 2,5 prósent. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að framlög til Ríkisútvarpsins muni nema 4.515 milljónum króna á næsta ári en þau námu 4.825 milljónum í fyrra.
Gerir RÚV ráð fyrir að á næsta ári muni vanta yfir 600 milljónir í fjármögnun þess.
Skýra þurfi mat á tekjum af útvarpsgjaldi
RÚV gerir athugasemd við mat á tekjum af útvarpsgjaldi í fjárlagafrumvarpinu og að ekki sé skýrt á hverju það byggi. Þótt búast megi við fækkun í hópi greiðenda útvarpsgjalds vegna aðstæðna á vinnumarkaði, er af einhverjum ástæðum gert ráð fyrir mun betri heimtum sömu greiðenda að gjaldi í framkvæmdasjóð aldraðra en af útvarpsgjaldinu. Þá greiði lögaðilar jafnframt útvarpsgjald og samkvæmt upplýsingum RÚV sé gert ráð fyrir að fækka muni í þeirra hópi um 10 prósent.
„Ekki liggur fyrir á hvaða grunni það mat byggir enda ekki fjallað um það í frumvarpinu,“ segir í umsögn RÚV.
Boða niðurskurð í dagskrárgerð og fréttum
Í umsögninni segir að ráðist hafi verið í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir í rekstri RÚV til að mæta þessum breyttu rekstrarforsendum. Hafi þær einkum beinst af yfirstjórn og stjórnendum RÚV, fækkað hafi verið í framkvæmdarstjórn og hagrætt í starfsemi í deilda á borð við mannauðsdeild, kynningardeild og fjármáladeild.
Hins vegar sé ljóst að jafn umfangsmikil lækkun á tekjum og raun beri vitni, verði ekki mætt með enn frekari hagræðingu og niðurskurði í yfirstjórn og stoðdeildum RÚV eingöngu og fyrirsjáanlegt að draga þurfi saman í dagskrárgerð og fréttaþjónustu RÚV.
RÚV hafi mikilvægt afþreyingarhlutverk
Í umsögn Rúv segir að Alþingi þurfi að vera meðvitað um áhrif þessa á getu RÚV til að mæta aukinni eftirspurn eftir fréttum, fræðslu og afþreyingu.
„Eins og öllum er kunnugt um hefur öll menningarstarfsemi í landinu verið mjög takmörkuð og í sumum tilvikum alfarið stöðvast vegna COVID-19. Við þessu hefur RÚV brugðist m.a. með fjölbreyttri samvinnu við aðrar menningarstofnanir um miðlun á efni og með þróun á eigin dagskrá í takt við breyttar aðstæður og auknar kröfur. Miklar kröfur eru gerðar til RÚV í þeim efnum af hálfu annarra menningarstofnana og samtaka listamanna, en vandséð er hvernig RÚV á að geta staðið undir öflugri dagskrárgerð við þær fjárhagsaðstæður sem blasa við.,“ segir í niðurlagi umsagnarinnar og lögð áhersla á að tryggt verði að Rúv geti sinnt almannaþjónustuhlutverki á þeim fordæmalausu tímum sem nú eru.