Lilja Ósk: Kvikmyndastefna markar nýtt upphaf fyrir greinina

Lilja Ósk Snorradóttir, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, segir nýframlagða Kvikmyndastefnu til 2030 marka nýtt upphaf fyrir íslenska kvikmyndagerð.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu og þar segir Lilja:

„Við fögnum þessum áfanga. Þetta er fyrsta heildstæða stefna stjórnvalda á sviði kvikmyndamála og mun hún styrkja bæði íslenska menningu og tungu á sama tíma og hún eflir atvinnulífið. Það má segja að þetta marki nýtt upphaf fyrir greinina.“ Hún segir markmiðið vel raunhæft ef aðgerðunum verður fylgt eftir. „Það liggur heilmikil vinna þarna að baki allt frá vorinu 2019. Við erum sannfærð um að þetta muni skila árangri.“

Kvikmyndastefna til ársins 2030, fyrsta heildstæða stefna íslenskra stjórnvalda á sviði kvikmyndamála, var kynnt á Edduverðlaununum í gærkvöldi. Stefnan var unnin í nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda, undir forystu Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Tilgangurinn er að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf.

Markmiðið er fjórþætt, að skapa auðuga kvikmyndamenningu, bjóða öfluga menntun á sviðinu, styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og gera Ísland að þekktu alþjóðlegu vörumerki á sviði kvikmyndagerðar.

Til að ná markmiðunum verður ráðist í tíu aðgerðir. Þar á meðal verður framlag til Kvikmyndasjóðs hækkað, komið á fót samstilltu stuðningskerfi og stutt verður við sjálfsprottin verkefni. Þá á að efla námið, allt frá valáföngum í framhaldsskólum til framhaldsnáms á háskólastigi. Þá á að bæta starfsumhverfið og koma á fót launasjóði fyrir leikstjóra og handritshöfunda. Til að varpa ljósi á arðsemi greinarinnar verða þróaðir hagvísar.

Fram kemur í stefnunni að opinber framlög til greinarinnar hafi numið 9,9 milljörðum króna á árunum 2014 til 2018, á sama tíma hafi þær skapað tæpa 15 milljarða króna í útflutningstekjur. Lilja Ósk segir brýnt að hagvísar og tölfræði séu aðgengilegri. „Hluti af aðgerðum er að þróa hagvísa og upplýsingavef með það að leiðarljósi að auka skilning á hagrænu áhrifunum, því að kvikmyndagerð borgar sig og skilar margfalt til baka.“

Sjá nánar hér: Markar nýtt upphaf fyrir greinina

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR