Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg og Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson keppa um titilinn Norræn heimildamynd ársins á Nordisk Panorama. Gullregn Ragnars Bragasonar hefur verið valin á Toronto hátíðina.
14 myndir keppa um titilinn Norræn heimildamynd ársins, en verðlaunafé nemur 11 þúsund evrum, eða sem nemur um 1,8 miljón króna. Norrænu almannastöðvarnar fjármagna verðlaunin sameiginlega. Nordisk Panorama verður haldin í Malmö dagana 17.-27. september.
Athygli vekur að Bergmál sé valin á heimildamyndahátíð en myndin er nokkurskonar blanda skáldskapar og veruleika. Í viðtali við Nordic Film and TV News sagði Rúnar meðal annars að „fólk hefur tilhneigingu til að líta á heimildamyndir sem sannari en leiknar myndir, en bæði formin byggja á sýn og ákvörðunum tiltekinnar manneskju.“
Þá hefur Gullregn eftir Ragnar Bragason verið valin á Toronto hátíðina sem fram fer í blönduðu formi (fýsisku og rafrænu) dagana 10.-20. september.