Helgi Snær Sigurðsson hjá Morgunblaðinu ræðir við Þorkel Harðarson um velgengni Síðustu veiðiferðarinnar og Ömmu Hófí, sem og frekari fyrirætlanir þeirra Markelsbræðra.
Segir í inngangi:
Kvikmyndirnar, Amma Hófí og Síðasta veiðiferðin, hafa samanlagt lokkað um 54 þúsund manns í bíó, álíka marga og sáu allar þær íslensku myndir sem voru í bíó í fyrra en þær voru 16 talsins.
Rætt er við Þorkel í nýjasta þætti kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓ og fór samtalið fram á taílenskum veitingastað eins og heyra má glöggt undir lok samtalsins.
„Við erum búnir að vinna í þessum bransa frá því á síðustu öld og vorum alltaf að vinna fyrir aðra í gamla daga, mikið fyrir Friðrik Þór og fleiri, vorum svona þrælar í þessum myndum að halda á þungum hlutum fyrir ákvarðanafælið fólk á skrítna staði á furðulegum tíma sólarhringsins, það er kvikmyndagerð í hnotskurn,“ segir Þorkell. „Þá sáum við hvernig þessar myndir voru gerðar og hvað væri að fara í súginn, að okkar mati. Þannig að við fundum það út að ef við slepptum óþarfanum væri hægt að gera mynd á miklu hagkvæmari hátt,“ segir Þorkell.
Þeir Örn bjuggu til módel út frá þessari reynslu sinni, segir Þorkell, eða aðferð við að búa til kvikmyndir. „Módelið snýst um að þú gerir mynd af ákveðnum toga á ákveðinn hátt og hluti af módelinu er að þú kemur fólkinu á ákveðinn stað – eins og til dæmis í Síðustu veiðiferðinni, þá komum við því í veiðikofann – og í kringum veiðikofann og í ánni og út frá þessum sentral punkti þá gerum við út, skjótum myndina. Það þýðir að þú ert ekki að eyða dýrmætum tíma með fólk á launum í að keyra landshorna á milli,“ segir Þorkell.
Víðar er komið við í samtalinu eins og heyra má í hlaðvarpsþættinum hér fyrir neðan.
Sjá nánar hér: Fundu leið að settu marki