Heimildamyndin Collective eftir rúmenska leikstjórann Alexander Nanau var valin besta heimildamyndin á Iceland Documentary Film Festival sem fór fram dagana 15.-19. júlí á Akranesi.
Í umsögn dómnefndar segir að Collective fari alveg nýja leið að viðkvæmum efnistökum sem eru spilling og litilsvirðing við mannslíf.
“Leikstjórinn Alexander Nanau sem var einnig tökumaður og klippari myndarinnar sýnir mikla næmni við hvernig sagan þróast. Sagan er ekki sögð með texta eða sögumanni og það er bara efnið sjálft sem segir hana. Leikstjórinn grefur djúpt ofan í hneyksli í Rúmeníu þegar næturklúbburinn Collectiv brann og fjöldi manns létust.”
Sérstaka viðurkenningu dómnefndar hlaut myndin Scheme Birds en hún er frumraun leikstjóranna Ellen Fiske og Ellinor Hallin og er tilfinningalega hrátt portrett af ungri skoskri konu af verkamannastét, gerð frá ljóðrænu sjónarhorni.
Besta stuttmynd hátíðarinnar var myndin Carne eftir brasílíska leikstjórann Camila Kater. Þetta er tilraunakennd mynd sem notast við marga miðla til að segja sögur af hlutgervingu kvenlíkamans og hvernig virði líkamanna breytist á mismunandi lífsskeiðum.
Dómnefndina skipuðu Marina Richter kvikmyndagagnrýnandi og Anna Zamecka kvikmyndagerðarmaður. Gunnar Eggertsson, Anka Paunescu og Yrsa Roca Fannberg voru í dómnefnd stuttmynda.
Iceland Documentary Film Festival var nú haldin í annað sinn en hátíðina stofnuðu þau Ingibjörg Halldórsdóttir, Heiðar Már Björnsson og Hallur Örn Árnason. Hátiðin fer fram á Akranesi og býður upp á fjölda heimildamynda, barnadagskrá, vandaða tónlistardagskrá, kvöldvökur, jóga og margt fleira. Myndirnar eru sýndar í Bíóhöllinni á Akranesi.
Hægt er að kaupa passa á hátíðina á www.icedocs.is og horfa á myndirnar á hátíðinni í þrjár vikur eftir hátíðina.