Ágúst Guðmundsson hyggst gera að minnsta kosti eina bíómynd og eina heimildamynd áður en hann sest í helgan stein, en Ágúst varð 73 ára á dögunum. Þetta kemur fram í viðtali við Lifðu núna.
Þar kemur eftirfarandi fram:
“Ég hef verið að draga saman seglin í kvikmyndagerðinni en í augnablikinu brenn ég helst fyrir myndum sem mig langar að gera um hrunið. Mér finnst fyrsti áratugur þessarar aldar vera einhver sá merkilegasti sem ég hef upplifað af mörgum merkilegum áratugum. Það var eitthvað svo fallegt við þessa sjúklegu bjartsýni þessarar þjóðar sem yfirleitt þarf ekki mikið til að státa af ágæti sínu en þarna fór bjartsýnin á eitthvert æðra svið. Góða tímann fyrir hrun héldu allir að þeir væru að græða svo mikið og höfðu svo mikla trú á efnahagsundrinu. Ég hef verið að horfa til baka á þessa tíma og skrifað þrjú handrit,” byrjar Ágúst Guðmundsson leikstjóri þar sem við setjumst niður á heimili hans við Grettisgötu til að spjalla um það hvar hann er núna.
“Nýlega sendi ég inn umsókn í Kvikmyndamiðstöð fyrir mynd sem heitir Lúx og gerist bæði í Lúxemborg og Íslandi. Ég yrði glaður ef það tækist að gera eina af þessari trílogíu, akkúrat þessa stundina vona ég að það verði Lúx. Þetta eru þrjár mismunandi sögur sem allar greina frá því hvernig bólutíminn hafði áhrif á venjulegt fólk, ekki aðalpersónurnar í efnahagsundrinu heldur alþýðumanninn, þá sem stóðu nálægt aðalpersónunum en voru ekki aðalgerendur, fólkið sem hreifst með.”
Sjá Húsavík
Ágúst er kominn með góðan framleiðanda í Lúxemborg sem hann segir að hafi mikla trú á verkefninu og sá hefur skuldbundið sig til að vera með. Svo er spurning um styrki úr Kvikmyndasjóði. Margt efnilegt ungt fólk hefur komið fram og samkeppnin hefur harðnað þannig að það er ekkert í hendi í þeim efnum.
”Ég hefði aldrei trúað því fyrir 40 árum að kvikmyndagerð yrði svona stór atvinnugrein. Í ár eru 40 ár síðan fyrsta myndin mín Land og synir var frumsýnd. Ég hefði seint trúað því að kvikmyndageirinn yrði það milljarðadæmi sem hann nú er orðinn,” segir Ágúst.
Fyrir honum er aðalatriðið sköpunin, hvað kvikmyndirnar gera fyrir íslenska menningu en svo eru allskonar hliðarafurðir, til dæmis hvað kvikmyndirnar hafa auglýst Ísland og eiga þátt í því hvað Ísland er mikið ferðamannaland. “Íslenskar myndir fara víða, t.d. á hátíðir, og svo eru allar erlendu myndir sem teknar eru hér á landi. Það eiga ófáir eftir að leggja land undir fót að sjá Húsavík,” segir hann og vísar þar til nýrrar myndar Wills Farells um Júróvisjón.
Rak tána í ójöfnu
Ágúst varð fyrir smávægilegu slysi í haust þegar hann var að flýta sér niður Frakkastíginn í Bíó Paradís. Hann rak tána í ójöfnu og var rétt dottinn en við það að halda sér uppréttum sleit hann vöðva í mjöðminni. Þetta var ekki stórt slys en hefur tekið kraftinn úr honum í vetur, það tekur tíma að jafna sig og á meðan haltrar hann um.
“Það tók ansi marga mánuði að koma sér aftur af stað en þetta varð til þess að ég fékk nógan tíma til að vinna í handritum og skoða hvað mig langar að gera áður en ég hætti alveg. Það verður ekki margt sem ég hef tök á að gera, ég hef kannski 2-3 ár. Til viðbótar við Lúx langar mig líka að gera eina heimildarmynd um dánaraðstoð, það sem kallað er líknardráp sem er svo gildishlaðið orð. Það er merkilegt mál og margar hliðar á því,” segir hann.
Ágúst er Reykvíkingur að uppruna. Hann hefur búið hér og þar í miðbænum og vesturbænum en kann best við sig í miðbænum. Þegar hann var í MR átti hann þátt í stofna kvikmyndaklúbb í Listafélagi MR. Kvikmyndaklúbburinn sýndi gamlar og merkar myndir, sumar jafnvel þöglar. “Ég held að áhugi minn hafi kviknað þarna þegar ég var 18-19 ára. Það tók mig tíma að finna réttu brautina því ekki var mikið um kvikmyndagerð á þessum tíma. Sjónvarpið byrjaði 1966 og enginn hafði verið að gera kvikmyndir. Tveimur árum eftir stúdentspróf fór ég að læra íslensku og kláraði BA-próf í íslensku með frönsku sem aukagrein. Ég fór jafnframt í leiklistarskóla Þjóðleikhússins og starfaði sem leikari í eitt ár áður en ég fór í kvikmyndaskóla á Englandi.”
Unnin á spretti
Eftir hann liggur stór fjöldi kvikmynda sem allar eru ólíkar og krefjandi á mismunandi hátt. Í fyrstu myndinni, Landi og sonum, var úr litlu að spila og merkilegt segir Ágúst að koma saman bíómynd með því takmarkaða fjármagni og tækjakosti sem þau höfðu. Útlaginn var metnaðarfullt verk sem tengdist þeim áhuga sem Ágúst hafði haft á Íslendingasögum frá barnæsku. Myndin var dýr í framleiðslu en seldist í sjónvarp erlendis og þá bjargaðist fyrirtækið fyrir horn.
“Með allt á hreinu var unnin á miklum spretti þar sem mesti tíminn um vorið fór í að taka upp tónlistina og ganga frá henni. Handritið var einungis til sem atriðahandrit, tiltölulega nákvæmt en ég tók þá stefnu að reyna ekki að skrifa samtöl ofan í þennan hóp heldur fá alla til að spinna upp textann inn í atriðin sem ég hafði skrifað. Margar hugmyndirnar urðu síðan til við tökur,” segir hann.
Ekki fór allt eftir áætlun. Ágúst segist hafa verið að kíkja á handritið um daginn og sá þá senu þar sem Haukur Morthens átti að sitja aftan á götumálningarvél og syngja Örlög mín eru að verða söngvari. “Þegar til kom fékkst hann ekki til þess og þá var Egill fenginn í staðinn. Þá slepptum við hugmyndinni um götumálninguna.”
Á Íslandi á sumrin
Ágúst er nýorðinn 73 ára, átti afmæli 29. júní, og segist því kominn á þann aldur huga að því sem eftir liggur. Hann býr með dóttur sinni og stjúpsyni í húsi við Grettisgötu, syndir á hverjum degi í Laugardagslauginni til að halda sér í formi og hjólar eða gengur um miðbæinn eftir þörfum. Áhugamálin tengjast kvikmyndum, bókmenntum, ljóðum og ferðalögum. Hann hefur komið einu sinni til Tenerife og fannst það fínt en hefur ekki þörf fyrir að fara aftur. Honum finnst hinsvegar gott að fara burt á veturna og hefur til dæmis dvalið tvo mánuði í Rómarborg. Í fyrra ætlaði hann til Marseilles í Suður-Frakklandi en komst ekki út af slysinu.
“Ég vil helst vera á Íslandi á sumrin en get vel hugsað mér einhvern samastað yfir háveturinn til að eyða þar mánuði eða tveimur,” segir Ágúst Guðmundsson leikstjóri.
Sjá nánar hér: Vill gera kvikmynd um hrunið