Víðsjá um EINS OG MÁLVERK EFTIR EGGERT PÉTURSSON: Verkið er tilbúið þegar það hættir að breytast

Eggert Pétursson (mynd: RÚV)

„Heimildamyndir af þessu tagi eru afskaplega verðmætar,“ segir Sunna Ástþórsdóttir gagnrýnandi Víðsjár um myndina Eins og málverk eftir Eggert Pétursson eftir Gunnlaug Þór Pálsson.

Sunna skrifar:

Myndlistarmaðurinn Eggert Pétursson er líklega sá listamaður sem hefur skrásett íslenska náttúru, og þá sérstaklega blómin og jarðargróðurinn sem vex hér á landi, á sem nákvæmastan hátt – í senn með vísindin og skynfærin að leiðarljósi. Á dögunum kom út ný heimildarmynd um list, feril og blómaáhuga Eggerts, eftir Gunnlaug Þ. Pálsson sem ber titilinn Eins og málverk eftir Eggert Pétursson. Hún var frumsýnd á Stockfish kvikmyndahátíðinni, og náði þremur sýningum í Bíó Paradís, því mikilvæga menningarhúsi, áður en samgöngubann skall á. Eftir það var hægt að horfa á hana, og aðrar myndir hátíðarinnar, í gegnum vefstreymi. Hún er nú aðgengileg á sjónvarpi símans og verður mögulega sýnd á RÚV á komandi misserum.

Eins og málverk eftir Eggert Pétursson  fjallar um hvernig blómin hafa ratað á strigann. Sjálfur segir Eggert að áhugi úr barnæsku á blómum og grasafræði hafi leitt hann út í myndlistina, og eftir áhorfið er ljóst að myndlistin og aðferðir listarinnar hafa auðgað áhuga hans á gróðrinum. Við fylgjumst með hvernig Eggert og grasafræðingurinn Þóra Ellen Þórhallsdóttir virða fyrir sér plönturnar sem þau hitta fyrir í vettvangsferðum sínum um landið. Þau lesa í blómin eins og einstaklinga, útlit þeirra og einkenni. Eggert veltir meðal annars fyrir sér hvernig ljósið fellur á blómin – Hvernig ljósið hefur áhrif á það hvernig þau birtast okkur mannfólkinu. Það er nefnilega munur á því hvernig blómin eru og hvernig við sjáum þau. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að finnast hreyfing óhugsandi, vegna þess að við eigum svo erfitt með að ná utan um hana. Sjá hana fyrir okkur. En Eggert dvelur í náttúrunni, sem er sífellt á iði, og nýtir sjónina og önnur skynfæri til að skrásetja þá reynslu. Þannig nær hann til að mynda að fanga bláklukku í hreyfingu á kyrrstæðan, tvívíðan flöt. Eggert og Þóra Ellen ganga fram á blómabreiður sem eru eins og málverk eftir Eggert Pétursson – og málverk Eggerts eru eins og blóm í Þjórsárverum, við Öræfajökul, Tröllaskaga eða undan Skaftafellsjökli.

Verk Eggerts eru ekkert endilega landslagsmálverk. Það er stundum talað um það að landslagið sé sá staður sem þú horfir á úr fjarlægð, getur ekki snert, fundið lykt af eða steypt þér á bólakaf í. Þú getur ekki lagst á grasið eða fundið fyrir golunni á eigin skinni. Þú getur sumsé ekki staðsett eigin líkama í landslaginu og tengir það þá heldur ekki við þitt eigið umhverfi, þinn heim. Landslag er ósnertanlegt og flekklaust. Náttúran er það ekki (þó við auðvitað eigum að lifa í sátt og samlyndi við hana). Vegna þess að við getum dvalið í náttúrunni, eins og Eggert gerir, getum við líka túlkað hana eftir eigin höfði. Þannig verða verk Eggerts bæði vitnisburður um náttúruna og uppspretta nýrra hugmynda. Samspil mismunandi lita, forma og lína, eða eins og Ingólfur Arnarsson, myndlistarmaður og vinur Eggerts segir í myndinni: „Blómið sjálft er burðarvirki fyrir lit.“

Heimildarmyndir af þessu tagi eru afskaplega verðmætar. Myndir sem veita innsýn í mismunandi sjónarhorn, varðveita og skrásetja áhrif þeirra einstaklinga, hópa og fyrirbæra sem hafa mótandi áhrif á menningu okkar og samfélag. Það getur stundum háð samtímalistinni að við áhorfendur virðumst þurfa ákveðna lykla fyrirfram til að geta lesið hana – þó vil ég skjóta hér inn að oft hjálpar að ýta rökhugsuninni til hliðar og gleyma því að reyna að skilja verkin og einbeita sér frekar að skynfærunum. Það er líka bara allt í lagi að tengja ekki við ákveðin listaverk. En vel unnar heimildarmyndir, sem þessi er svo sannarlega, veita okkur aðgang að þessum lyklum. Verk Eggerts eru í sjálfu sér aðgengileg og bjóða áhorfendur innilega velkomna. Það er hægt að dvelja lengi fyrir framan þau, uppgötva ný smáatriði, gleyma sér í lagskiptri áferð málningarinnar eða ímynduðum atburðarrásum. Í myndinni fáum við líka að kynnast aðferðum Eggerts. Gott dæmi er þegar Hulda Hjartardóttir, kona hans, segir áhorfendum frá því þegar hún spurði Eggert einhverntíman að því hvenær ákveðið verk, sem hann hafði unnið að í langan tíma, yrði eiginlega tilbúið: „Verkið er tilbúið þegar það er hætt að breytast“ á Eggert að hafa svarað. Þessa magatilfinningu kannast eflaust flestir listamenn við, hvort sem þeir vinna með olíu á striga eða aðra miðla, en fyrir okkur hin geta þessi orð virst torræð. Hér endurtek ég það sem ég sagði hér áðan: Það er nefnilega auðvelt að falla í þá gryfju að finnast breyting óhugsandi, því við eigum erfitt með að sjá hana fyrir okkur. En í myndinni Eins og málverk fáum við að fylgjast með því sem gerist á striganum og sjá með eigin augum hvernig flöturinn tekur stakkaskiptum. Eggert deilir meira að segja með áhorfendum uppskriftum sínum að verkunum. Áður en hann byrjar að vinna á striga, fer hann í gegnum myndir og minningar frá vettvangsferðunum, skyssar og færir ítarlega í orð forskrift verkanna.

Mig langar að minnast á aðra heimildarmynd sem er í uppáhaldi hjá mér, myndina Vinterbillede eða Vetrarmynd eftir Jesper Jargil. Sú mynd fjallar um danska myndlistarmanninn Per Kirkeby, eða öllu heldur verk sem hann málaði veturinn 1994-1995. Á meðan Kirkeby snýr baki í áhorfendur og málar og málar, frá fyrstu til síðustu pensilstroku, heyrum við listamanninn sjálfan lýsa því sem fram fer á skjánum, næstum eins og hann sé að lýsa framvindu í fótboltaleik. Hann segir til dæmis: „Það er lítil næmni í byrjun málningarferlisins, ég þarf bara að þekja strigann með lit…“  og heldur svo áfram: „Nú þek ég stóran flöt með rauðu, ekki satt? Ég grunna stundum með rauðum lit, af því að rauður og grænn eru frekar óþægilegir litir í meðförum. Með því að mála með þessum litum strax í byrjun er eins og ég innleiði viðnám, bara til að sigrast á því óþægilega. Þá skapa ég orku, þá fer eitthvað í gang.“ Smám saman verður áhorfandanum ljóst hvernig sköpunarferlið og innsæið tekur yfir og hvenær vetrarmyndin er hætt að breytast.

Eins og málverk er öllu hefðbundnari í sniðum en stendur ekkert aftar hvað varðar gæði. Hún styðst við viðtalsformið og hreinar myndatökur. Hljóðmyndin, sem var í höndum Atla Örvarsson og Sindra Más Sigfússonar úr hljómsveitinni Sin Fang, er falleg og fer viðfangsefninu vel, þá sérstaklega glæsilegum loftmyndum frá vettvangsferðum Eggerts og Þóru Ellenar. Myndin flæðir áfram án greinilegrar framvindu, dálítið eins og verk Eggerts. Ef eitthvað á að setja út á, fannst mér myndunum frá sýningaropnunum ofaukið. Að mínu mati bættu þau skot litlu við heildaráhorfið, og þau gerðu það að verkum að ákveðið hik kom á annars saumlaust flæði myndarinnar. Þá á ég ekki við vangaveltur Eggerts um sýningarrýmið, umhverfi verkanna, sem standa frammi sem vitnisburður um það hvað hann er nákvæmur með allt sem hann tekur sér fyrir hendi og áhuga hans á staðnum, hvort sem hann er hvítur sýningarsalurinn eða laut á Hálendinu.

„Margbreytileikinn skiptir miklu máli,“ segir Þóra Ellen á einum tímapunkti í myndinni, og talar um mikilvægi þess að fjölbreytni í flórunni og erfðamenginu, skipti máli fyrir vistkerfi jarðarinnar og áframhaldandi þróun lífs hér á jörðu. Þessi sönnu orð eiga erindi víða, og meðal annars í vangaveltum um skrásetningu sögunnar og varðveislu. Líkt og klettafrúin, sem áhorfendur kynnast í myndinni, sem þarf að framleiða fleiri en einn blómklasa til að tryggja áframhaldandi tilveru sína, þarf að skrifa um, mynda og miðla áfram fjölbreyttum upplýsingum um menningu okkar, náttúru og samfélag til að þær falli ekki í gleymsku. Til eru margar frábærar íslenskar heimildarmyndir um listasenuna og listamenn, og myndin Eins og málverk eftir Eggert Pétursson er mikilvæg og stórgóð viðbót í það mengi.

Ég er svo þeirrar skoðunar að við eigum aldrei nóg af góðu heimildarefni og við þennan pistil vil ég bæta við hvatningu, til kvikmyndagerðarfólks og þeirra sem koma að gerð heimildarmynda, um að halda áfram, en byrja líka að sýna konum í listum meiri athygli, og öðrum listamönnum sem menning okkar hefur staðsett á jaðrinum. Komandi kynslóðir eiga svo sannarlega skilið að kynnast allri flórunni!

Sjá nánar hér: Verkið er tilbúið þegar það hættir að breytast

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR