„Prýðilegt kynningarrit fyrir erlenda lesendur sem áhugasamir eru um íslenska kvikmyndagerð,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson bókarýnir Víðsjár um yfirlitsritið A History of Icelandic Film eftir Kanadamanninn Steve Gravestock.
Björn segir:
Framan af tuttugustu öldinni átti íslensk kvikmyndagerð undir högg að sækja. Frá því að kvikmyndaframleiðsla og sýningarhald hófust hér á landi á fyrsta áratug liðinnar aldar og allt fram að stofnun Kvikmyndasjóðs 1978 valt innlend kvikmyndagerð á einstaklingum og persónubundinni aðstöðu þeirra til að fóta sig innan eins kostnaðarfrekasta listforms veraldar. Útkoman var eftir því og nýjar kvikmyndir litu dagsins ljós með handahófskenndum og stopulum hætti; eina reglan bróðurpart íslenskrar kvikmyndasögu voru langvarandi eyður, tímabil þegar engar kvikmyndir voru gerðar hér á landi.
Kvikmyndagerð varð hins vegar að samfelldri menningarstarfsemi í krafti marvissrar íhlutunar og stuðnings hins opinbera. Kvikmyndasjóður var eins og áður segir settur á laggirnar árið 1978, fyrstu úthlutanir voru ári síðar og vani er orðinn að kalla uppskeruna „íslenska kvikmyndavorið“, en þar er vísað til vors og sumars 1980 þegar þrjár íslenskar kvikmyndir sem hlotið höfðu styrk voru frumsýndar: Land og synir eftir Ágúst Guðmundsson, Óðal feðranna eftir Hrafn Gunnlaugsson, og Veiðiferðin eftir Andrés Indriðason. Eftir 1980 hefur ekkert dagatalsár liðið án frumsýningar íslenskrar kvikmyndar en fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs var lengsta samfellan þrjú ár (1949–1951).
Óhætt er að telja Land og syni ákveðna lykilmynd í þessu samhengi, verk sem sló tóninn fyrir íslenska kvikmyndagerð. Myndin fjallar um efni sem jafnframt var eitt hið miðlægasta í íslenskum bókmenntum og svo kvikmyndum nær alla síðustu öld; umskiptin sem áttu sér stað þegar búferlaflutningarnir úr sveit í borg breyttu ásýnd þjóðarinnar og lifnaðarháttum með óafturkræfum hætti. Rof átti sér stað sem þurfti að vinna úr, og Land og synir er eitt af verkunum sem það gera.
Hér gæti ég auðvitað haldið áfram, ég er í raun bara rétt að byrja. En það sem ég hef verið að ræða fram að þessu tilheyrir þekkingarsviði sem fellur undir hugtakið „íslensk kvikmyndasaga“, en það er þessi hugmynd um íslenska kvikmyndasögu sem mig langar til að staldra við. Enda þótt við séum öll meðvituð um þessa sögu, upp að einhverju marki í öllu falli, þar sem við sjáum henni vinda fram í rauntíma, þá stendur furðu lítið að baki sjálfri hugmyndinni, hún er óljós og erfitt að festa hendur á henni. Sem þekkingarsvið er íslensk kvikmyndasaga meingallað fyrirbæri. Fyrir því er fyrst og fremst ein ástæða. Ólíkt íslenskri bókmenntasögu eða myndlistarsögu hefur þessi saga ekki enn verið færð til bókar með viðunandi hætti. Það er dálítið sláandi staðreynd, leyfi ég mér að fullyrða, jafnt í ljósi miðlægrar stöðu kvikmynda í menningunni og gangsins sem hefur verið á íslensku kvikmyndagerðarfólki á síðustu árum, skemmst er í þessu samhengi að minnast Óskarsverðlaunanna sem Hildur Guðnadóttir hlaut.
Raunar má segja að eina tilraunin til þess að skrá íslenska kvikmyndasögu með heildstæðum hætti sé Icelandic Films eftir Peter Cowie, yfirlitsrit sem kom út árið 1995, afskaplega vel myndskreytt en yfirborðskennd bók. Þá hafa vissulega atlögur verið gerðar að ritun ákveðinna kafla í þessari sögu, það hafa Erlendur Sveinsson, Írís Ellenberger, Eggert Þór Bernharðsson, Kristín Svava Tómasdóttir og Gunnar Tómas Kristófersson gert, hvert með sínum hætti – svo nokkur séu nefnd. En umsvifamestur hefur Björn Ægir Norðfjörð verið, eftir hann liggja fjölmargar greinar um efnið auk þess sem hann skrifaði doktorsritgerð um íslenska kvikmyndasögu við Iowa háskóla í Bandaríkjunum. Árið 1999 kom út bókin Heimur kvikmyndanna í ritstjórn Guðna Elíssonar, þar sem einum bókarhluta af fjórum er varið í íslenskar kvikmyndir, og ýmsir skrifa þar um afmörkuð efni. Þar sem um þúsund blaðsíðna rit er að ræða vegur jafnvel einn bókarhluti af fjórum nokkuð þungt, á þriðja hundruð síður. En íslensk kvikmyndasaga bíður þess engu að síður enn að út komi rit sem hana rekur með fræðilega ábyrgum og heildstæðum hætti.
Það er ekki síst af þeirri ástæðu sem útkoma A History of Icelandic Film eftir Steve Gravestock hlýtur að vekja nokkra athygli, en hún kom út síðastliðið haust, og spyrja má hvort ritið sem ég kallaði eftir rétt í þessu hafi þá loks birst? Svarið við því er reyndar nei, svo gott er það nú ekki. Gravestock hefur um árabil starfað við Kvikmyndahátíðina í Toronto, þar sem hann sér m.a. um norræna bíóið. Þess má geta í þessu samhengi að bókin er einmitt gefin út af Kvikmyndahátíðinni í Toronto og Íslensku kvikmyndamiðstöðinni.
Þá er Gravestock jafnframt Íslandsvinur mikill, og virðist vera í góðu talsambandi við íslenskt kvikmyndagerðarfólk, og hefur prýðilega yfirsýn yfir íslenska kvikmyndasögu. Það er raunar einn af styrkleikum bókarinnar að fjallað er um stuttmyndir og sjónvarpsmyndir samhliða kvikmyndum í fullri lengd, og má segja að þar reyni virkilega á þekkinguna og aðgengið, því um er að ræða efni sem í mörgum tilvikum er afar erfitt er að koma höndum yfir.
Gravestock hefur hins vegar ekki íslenskuna og kemur það í veg fyrir aðgengi hans að flestum frum- og lykilheimildum. Í þessu sambandi verð ég reyndar að minnast á eitt atriði, en það er að höfundur leiðir hjá sér að því er virðist með öllu skrif þess kvikmyndafræðings sem mest hefur látið að sér kveða um íslenska kvikmyndasögu, og þá oft og tíðum í greinum á ensku, en það er áðurnefndur Björn Ægir Norðfjörð. Yfirsjón þessi er einkennileg, og auðvelt var að sjá kafla í bókinni sem nákvæmari hefðu verið og greinabetri, ef vísað hefði verið í og notast við skrif hans.
Að því sögðu er þó mesta furða hversu yfirgripsmikil og á köflum nákvæm kvikmyndasaga Gravestock er, bókinni vindur fram í tímaröð, frá fyrstu ummerkjum um kvikmyndagerð hér á landi til dagsins í dag, og nær bókin til eiginlega þeirrar stundar, ímynda ég mér, sem höfundur sendi vinnsluskjalið í prentun. Það er meira að segja minnst á Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson, sem frumsýnd var í lok nóvember í fyrra. Tveir leikstjórar fá kafla fyrir sig, það eru þeir Friðrik Þór Friðriksson og Baltasar Kormákur, og er það í ágætu samræmi við þyngdarlögmálin í íslenskri kvikmyndagerð á umliðnum áratugum.
Kaflarnir tveir sem mér þóttu bitastæðastir, kannski einfaldlega vegna þess að þeir fetuðu síður sögulegu slóðina, og voru þess í stað frekar dæmi um greiningu og afstöðu höfundar í garð viðfangsefnisins, koma frekar seint í bókinni og skera sig nokkuð úr. En það eru kaflar annars vegar um viðveru hins yfirnáttúrulega í íslenskum kvikmyndum, umfjöllun sem svo verður að hluta til saga íslensku hrollvekjunnar, og svo kaflinn sem kemur í beinu framhaldi og fjallar um íslenskar greinahefðir, sjönrur, en þar fjallar Gravestock um glæpamyndina, barna- og fjölskyldumyndina, og rómantísku gamanmyndina. Af ástæðum sem höfundur nefnir og eru út af fyrir sig forvitnilegar hafa þessar svokölluðu „greinamyndir“ ekki verið áberandi í íslenska bíóinu, ekki frekar en því norræna, fyrr en á nýju árþúsundi, og helgast það meðal annars af slagsíðu styrkjasjóða, sem fannst fjármunum skattborgara betur varið í það sem kalla má „listamyndir“ en greinamyndir, sem hafa lengi haft á sér formúluorðspor og þótt tengjast kvikmyndagerðinni Hollywood.
A History of Icelandic Film eftir Steve Gravestock er prýðilegt kynningarrit fyrir erlenda lesendur sem áhugasamir eru um íslenska kvikmyndagerð, og tekur ritinu sem fyrir var til, bókinni eftir Peter Cowie, langt fram. Ég ætla svo að leyfa Gravestock að eiga síðustu orðin hér, en þetta eru sömuleiðis lokaorðin í sögubók hans:
„Í aldarlangri sögu sinni hafa íslenskar kvikmyndir sífellt endurskapað og endurskilgreint sig. Þrátt fyrir landfræðilega og menningarlega einangrun, ótryggt fjármögnunarumhverfi og tæknilegar takmarkanir, hefur íslenskum kvikmyndum tekist að ferðast um heiminn og eignast stóran alþjóðlegan áhorfendahóp, samhliða því sem auðug hefð hefur verið sköpuð. Og um leið og við erum að enduruppgötva eldri kvikmyndir, sem jafnvel voru álitnar glataðar, er allt útlit fyrir að íslensk kvikmyndagerð eigi enn eftir að styrkjast. Það hefur verið mér gríðarleg ánægja að fylgja sögu íslenskra kvikmynda, og það er ekki síður spennandi að velta fyrir sér hvert stefnan verði tekin næst.“
Sjá nánar hér: Gott yfirlit um íslenska kvikmyndasögu