Morgunblaðið ræðir við Birki Blæ Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson sem hafa skrifað handrit að tveimur dramatískum nýjum sjónvarpsseríum, Ísalög (Thin Ice) og Ráðherranum, en báðar verða sýndar á þessu ári.
Ásdís Ásgeirsdóttir blaðamaður tekur viðtalið og þar kemur meðal annars þetta fram:
Það var svo í samvinnu við vinkonu þeirra, fjölmiðlakonuna Björgu Magnúsdóttur, að þeir hófu skrif á stjórnmálaseríu.
„Þá kviknaði sú hugmynd hjá okkur að gera dramaseríu um forsætisráðherra með geðhvörf. Þetta var á sama tíma og ég var að skrifa meistararitgerð mína í lögfræði. Ég hef aldrei skrifað neitt leiðinlegra en þessar 120 blaðsíður um lögsögumörk ríkja á internetinu,“ segir Jónas og hlær.„Við vissum ekkert hvað yrði úr þessu, þetta var bara hugmynd, en það opnaðist þarna nýr heimur og ég uppgötvaði að það gæti verið gaman að skrifa. Þá varð ekki aftur snúið,“ segir Jónas.
„Við fórum svo með hugmyndina til Sagafilm sem tók vel í þetta. Síðan eru liðin mörg ár og Ráðherrann er að fara í loftið núna í haust,“ segir hann.Eins og litlir strákar í Disney
Eftir að skrifum á Ráðherranum lauk voru Jónas og Birkir beðnir um að stíga inn í handritsgerð að hinni sænsk-íslensku seríu sem kemur fyrir sjónir íslenskra áhorfenda um miðjan febrúar.
„Þetta verkefni er búið að vera í gangi í sex, sjö ár en við höfum verið með í þrjú ár. Það byrjaði á því að hin þekkta sænska stjarna, Lena Endre, vildi vinna með framleiðandanum Sören Stærmose hjá fyrirtæki sem heitir Yellowbird. Þau vildu fjalla um hlýnun jarðar í seríu. Svo tóku nokkrir höfundar snúning á hugmyndinni en gáfust upp og að lokum endaði handritið inni hjá Jóhanni Ævari Grímssyni hjá Sagafilm, sem hringir þá í okkur,“ segir Jónas.
Þeir útskýra að ásamt Jóhanni Ævari hafi þeir sest niður og byrjað svo gott sem frá grunni á sögunni.
„Það var rosa skemmtilegt. Við vorum líka „star-struck“. Þarna voru sænskar stórstjörnur að koma að heilsa okkur og við fórum bara í kleinu. Þá vorum við búnir að reyna að skrifa handrit í fimm, sex ár og aldrei komið á sett! Við vorum eins og litlir strákar í Disney-landi og allt í einu vildi Mikki Mús vera vinur okkar!“ segir Jónas.
Sjá nánar hér: Tvö þrjóskufull kvíðabúnt