Marta Sigríður Pétursdóttir kvikmyndarýnir Lestarinnar á Rás 1 segir Gullregn vera tragikómískan sálfræðitrylli um rasisma og vítahring ofbeldis sem flyst frá einni kynslóð til annarrar. Þó henni fatist aðeins flugið í blálokin sé hún á heildina litið mjög vel gerð kvikmynd sem skilji eftir sig óþægilega tilfinningu að áhorfi loknu.
Marta Sigríður segir:
Gullregn er ný íslensk kvikmynd eftir leikstjórann Ragnar Bragason, byggð á samnefndu leikriti sem Ragnar skrifaði og leikstýrði og var sýnt í Borgarleikhúsinu árið 2012. Leikritið naut mikillar hylli bæði áhorfenda og gagnrýnenda þegar það var sýnt og hafði Ragnar mjög snemma hug á að koma því yfir á hvíta tjaldið. Nú hefur það erkefni tekist átta árum síðar. Ragnar er einstaklega fjölhæfur leikstjóri. Hann gerði meðal annars kvikmyndirnar Börn og Foreldra, í samstarfi við Vesturport, og Málmhaus, frá árinu 2013. Einna þekktastur er Ragnar þó fyrir að leikstýra Vaktaseríunni geysivinsælu sem lauk með kvikmyndinni Bjarnfreðarson. Eftir Vakataseríuna gerði Ragnar þáttaröðin Heimsendi árið 2011 en þættirnir náðu ekki sömu hæðum í vinsældum og Vaktaserían. Árið eftir eftir setur Ragnar á svið frumraun sína í leikritaskrifum, Gullregn, þannig að Indíana Jónsdóttir, aðalpersóna Gullregns vaknar til lífsins skömmu eftir að Georg Bjarnfreðarson hverfur af sviðinu og eiga þessar tvær persónur nokkuð margt sameiginlegt.
Indíana, sem leikin er af Sigrúnu Eddu Björnsdóttur bæði í leikritinu og í kvikmyndinni, er öryrki sem býr í Fellahverfi í Breiðholti. Það er augljóst frá upphafi að hún er ógeðfelld persóna. Hún er bæði rasisti sem fyrirlítur nágranna sína, sem flestir eru innflytjendur, og gerir sér auk þess upp veikindi sín. Hún lætur Jóhönnu vinkonu sína, sem Halldóra Geirharðsdóttir leikur og sem er augljóslega réttmætur öryrki og oft mjög kvalin, snúast í kringum sig og þjóna sér. Það eru mistök að lesa persónu Indíönu sem einhvers konar tákn fyrir ákveðinn þjóðfélagshóp eða Íslendinga almennt, til þess er hún allt of ýkt. Hún er ákveðin erkitýpa en líka jaðarkarakter og frávik. Hún er siðblind, sturluð af stjórnsemi og skýlir sér bak við gervi sárþjáðs píslarvotts.
Það er engin leið fyrir áhorfendur að vita hvenær hún segir satt eða ekki um fortíð sína. Það er hins vegar óumdeilanlegt að hún veldur gríðarlegum skaða í kringum sig, sérstaklega á syni sínum Unnari. Indíana er augljóslega haldin Münchausenheilkenninu svokallaða og hefur komið Münchausenheilkenni staðgengils yfir á Unnar. Hún gerir sér upp eigin veikindi og hefur einnig sannfært son sinn og allt samfélagið í kringum þau um að hann sé öryrki. Gullregn er ákveðin stúdía um það sjaldgæfa en jafnframt mjög svo áhugaverða fyrirbæri.
Indíana lifir í agnarsmáum heimi þar sem hún hefur fullkomna stjórn á öllu en þegar stjórnvöld senda frá sér tilkynningu um að fjarlægja eigi öll erlend tré á Íslandi, þ.e. tegundir sem bárust til landsins eftir 1905, byrjar að hrikta í stoðum tilveru hennar. Líf hennar og yndi er nefnilega gullregnið hennar, tréð sem hún hefur ræktað af mikilli natni í kyrfilega afmörkuðum garðskikanum við blokkaríbúðina hennar. Þetta er vitaskuld sterk táknmynd og til marks um hugarmisræmi Indíönu sem fyrirlítur öll erlend menningaráhrif, þrátt fyrir að hennar eigin fjölskylda virðist ekki vera alíslensk og tréð sé erlent.
Það er áhugavert að sjá hvernig Ragnar hefur leyft leikritinu og sterkri tilfinningu um svið og sviðsetningu að lifa áfram í kvikmyndinni. Íbúð Indíönu er leiksvið í marglaga merkingu þar sem hún fær að vera leikstjórinn. Sviðsmyndin og áferð myndatökunnar minna jafnframt á gamla ljósmynd. Tíminn hefur verið þvingaður til að standa í stað hjá Indíönu sem hefur vart jafnað sig af áfallinu yfir fréttunum af því að fella skuli gullregnið þegar Unnar sonur hennar kemur heim með kærustuna Daníelu sem er pólskur innflytjandi á Íslandi.
Margir af leikurunum sem tóku þátt í uppsetningu leikritsins koma fram í sömu hlutverkum í kvikmyndinni. Ég átti erfitt með að átta mig á stílbragðinu þegar myndin hófst, og mér fannst þær Indíana og Jóhanna ansi ýktar en ekki leið á löngu þar til ég var farin að skellihlæja að kolsvörtum húmornum sem gegnumsýrir söguþráðinn og búin að venjast frásagnarmátanum vel og samþykkja hann. Gullregni má lýsa sem einhvers konar súrrealískri tragikómedíu sem sveiflast á milli þess að vera kvikmyndað stofudrama og svo sósíalrealískt drama sem stendur nær hinu hefðbundna kvikmyndaformi. Sigrún Edda Björnsdóttir leikur Indíönu af miklum krafti og fer alla leið í að blása lífi í margslungna andhetju sem virðist ekki eiga sér nein takmörk í andstyggilegheitum.
Halldóra Geirharðs fer á kostum sem hin pollýönnulega Jóhanna sem hrífst af fjölmenningarlegu samfélagi blokkarinnar og myndar þannig ákveðið andsvar og kómískan létti gagnvart skaðræðinu Indíönu. Samband þeirra tveggja einkennist af óheflaðri meðvirkni en líka misnotkun Indíönu á innbyggðri góðsemi Jóhönnu. Með hlutverk Unnars fer Hallgrímur Ólafsson. Persóna hans minnir óneitanlega á Daníel í Vaktaseríunni og þeir eru heldur ekki svo ólíkir Hallgrímur og Jörundur Ragnarsson sem lék Daníel. Unnar er að reyna að brjótast undan ofríki móður sinnar og hefur gengið til liðs við björgunarsveit við upphaf sögunnar þrátt fyrir að vera metinn öryrki. Þar kynnist hann svo kærustunni Danielu sem pólska stórstjarnan Karolina Gruszka leikur. Við hliðina á Indíönu er Daniela eins og dýrlingur.
Gruszka hefur óneitnalega magnaða nærveru á kvikmyndatjaldinu og hún túlkar fíngerða en jafnframt sterka persónu Danielu af fágun og fegurð. Karolina Gruszka hefur einnig unnið nokkuð magnað þrekviki að leika á tungumáli sem hún sjálf talar ekki. Að hennar sögn lærði hún línurnar eins og tónlist. Í umræðu um innflytjendur á Íslandi og erfiðleika við að ná tökum á íslenskunni er stundum minnst á hversu óþolinmóð þau sem hafa íslensku að móðurmáli eru gagnvart þeim sem tala íslensku sem annað eða þriðja mál. Ein tilgáta er sú að við séum upp til hópa með óþjálfað eyra gagnvart ólíkum hreim og óvanalegri, kannski ekki alltaf kórréttri en oft mjög skapandi málnotkun. Þannig að það er frábært að heyra og sjá persónu í íslenskri bíómynd sem talar með sterkum hreim. Tungumál eru lifandi og ef þau fá ekki að þróast og breytast eða eru ekki töluð af nægilega stórum hópi fólks deyja þau út.
Það er annars vel valið í öll hlutverk í myndinni, Jón Gnarr á ansi góða innkomu sem kærasti Jóhönnu og Margrét Helga Jóhannsdóttir er ómissandi í hlutverki ömmunnar, móður Indíönu sem er komin út úr heiminum, en það fer ekki á milli mála að það stafar ógn af nærveru hennar, Margrét Helga segir allt sem segja þarf með andlitinu einu saman.
Gullregn er fyrst og fremst karakterstúdía og tragikómískur sálfræðitryllir sem fjallar um vítahring ofbeldis sem flyst frá einni kynslóð til annarrar. Innflytjendunum í myndinni er öllum stillt upp sem ákveðinni steríótýpu af góða innflytjandanum sem skarar fram úr sem samfélagsþegn. Það er vissulega gott og blessað en engum af þessum persónum, sem eru þó dramatískri framvindunni svo mikilvægar, fáum við að kynnast nægilega vel nema Danielu. Gullregn heldur góðum dampi lengst af en þegar dregur nær endinum fatast sögunni flugið að mínu mati og endirinn fannst mér alls ekki góður. Það er líka frekar óheppilegt að hlaða öllum kynþáttafordómunum í myndinni á eina persónu. Það styður við þá úreltu hugmynd að rasismi í nútímanum sé frekar til marks um persónuleikaröskun eða einstaklingsbundna illsku eða heimsku þegar raunin er sú að rasismi er kerfisbundið og risavaxið samfélagslegt vandamál. Á heildina litið er Gullregn þó mjög vel gerð kvikmynd sem skilur eftir sig óþægilega tilfinningu að áhorfi loknu.
Sjá nánar hér: Vítahringur ofbeldis sem erfist milli kynslóða