[Stikla] ÍSALÖG (THIN ICE) á RÚV frá 16. febrúar

Thin Ice (Ísalög) er átta þátta umhverfispólitísk, spennudrama þáttaröð sem hefur verið í þróun og framleiðslu í um sex ár á vegum sænska framleiðslufyrirtækisins Yellow Bird og hins íslenska Sagafilm. Sýningar hefjast í Svíþjóð í febrúarbyrjun en á RÚV 16. febrúar.

Þegar Svíþjóð reynir að fá Norðurskautsráðið til að banna olíuvinnslu í Norðurhöfum verður sænskt skip fyrir árás undan ströndum Grænlands. Ráðamennirnir verða að ákveða hvort þeir eigi að fresta fundinum vegna hryðjuverksins eða halda samningaviðræðum til streitu þrátt fyrir yfirvofandi ógn um fleiri árásir. Í framvindunni vegast á skammtímahagsmunir hvers þjóðríkis og framtíðarhagsmunir allrar heimsbyggðarinnar vegna loftslagsbreytinga.

Birkir Blær Ingólfsson, Jónas Margeir Ingólfsson og Jóhann Ævar Grímsson sem jafnframt er þróunarstjóri Sagafilm skrifuðu handritin að þáttaröðinni.

Þrátt fyrir að sögusviðið sé á Grænlandi var stærsti hluti þáttaraðarinnar tekinn upp á Íslandi. Stykkishólmi var breytt í grænlenskt þorp, en tökur stóðu yfir frá janúar til apríl á síðasta ári. Norska leikstýran Cecilie A. Mosli leiðir þriggja manna hóp leikstjóra og er íslenski leikstjórinn Guðjón Jónsson einn þeirra. Margir af lykilstarfsmönnum framleiðslunnar eru Íslendingar, um þrjú hundruð Íslendingar komu að verkinu hér á landi. Helga I. Stefánsdóttir sá um búningahönnun, Guðbjörg Huldís Kristinsdóttir um hár og förðun, Eggert Ketilsson er leikmyndahönnuður þáttaraðarinnar og Atli Geir Grétarsson listrænn stjórnandi, íslenskir kvikmyndatökumenn voru Bergsteinn Björgúlfsson, Víðir Sigurðsson og Tómas Örn Tómasson, Biggi Hilmars samdi tónlist þáttanna og Gunnar Árnason sá um hljóðhönnun svo nokkrir séu nefndir.

„Það er sérlega ánægjulegt að Sagafilm komi að alþjóðlegu verkefni af þessari stærðargráðu, ekki bara í að stýra öllum undirbúningi, tökum og eftirvinnslu, heldur líka að koma að þróun og allri skapandi vinnu við þáttaröðin strax á handritastigi. Með þessu verkefni höfum við sýnt og sannað að við erum komin í fremstu röð í Evrópu í framleiðslu á alþjóðlegum sjónvarpsþáttaröðum”, segir Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm.

Með aðalhlutverk fara einhverjir ástsælustu leikarar Norðurlandanna Lena Endre (Girl with the Dragon Tattoo), Alexander Karim (Tyrant), Bianca Kronlöf, Nukaka Coster-Waldau, Johannes Bah Kuhnke (Force Majeure), Grænlendingurinn Angunnguaq Larsen, og danska stórleikonan Iben Dorner en þau léku bæði í Borgen.

Thin Ice er fyrsta verkefnið sem fer í alþjóðlega dreifingu og er þróað með Sagafilm Nordic, Norðurlanda skrifstofu Sagafilm í Stokkhólmi sem er undir stjórn Kjartans Þórs Þórðarsonar sem jafnframt er einn yfirframleiðenda þáttanna.

„Það hefur sannarlega verið áskorun að koma verkefni af þessari stærðargráðu alla leið. Sú staðreynd að stórir aðilar eins og TV4/Cmore, DR, YLE, NRK, France Television og fleiri stórar erlendar sjónvarpsstöðvar hafi þegar keypt sýningarréttinn að Thin Ice sýnir að Sagafilm er komið í fremsta flokk í framleiðslu á alþjóðlegu sjónvarpsefni. Sagafilm Nordic er í samtarfi við fjöldan allan af framleiðendum að þróa og framleiða verkefni fyrir alþjóðamarkað og er Thin Ice einungis það fyrsta af mörgum sem von er á í nánustu framtíð.“ segir Kjartan.

Kidda Rokk framleiðandi Thin Ice, fyrir hönd Sagafilm, segir þetta vera stærsta kvikmyndaverkefni sem framleitt hefur verið sem byggir á íslensku hugviti. Það er flókið ferli að útfæra sögur sem þessa en sú aðgerð opnar marga möguleika fyrir erlenda framleiðendur á Íslandi. Náið samstarf hefur myndast milli Sagafilm og grænlenska iðnaðarins. Áhuginn á Grænlandi sem tökustað hefur aukist á heimsvísu og því lítum við á þetta sem stórt tækifæri þar sem við höfum myndað gott samstarf og þekkjum land og þjóð vel. Undirstöður svona framkvæmdar er fagleg þekking íslenska iðnaðarins og því er mikilvægt að halda áfram uppbyggingu hans á Grænlandi.

Þáttaröðin er eins og fyrr segir framleidd af Yellow Bird og Sagafilm en Yellow Bird er einna þekktast fyrir að hafa framleitt Stieg Larson þríleikinn og Wallander. Fyrirtækið er hluti af Banijay keðjunni sem er einn stærsti sjálfstæði framleiðsluaðili fyrir sjónvarp í heiminum. Banijay Rights dreifir þáttaröðinni á heimsvísu.

Thin Ice er unnin með stuðningi meðal annars frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum, auk þess að njóta endurgreiðslna Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR