Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin fara fram í Berlín dagana 23. – 24. febrúar 2020. Þar hefur tónlist Gyðu Valtýsdóttur við kvikmyndina Undir halastjörnu eftir Ara Alexander Ergis Magnússon verið valin sem framlag Íslands til Hörpu verðlaunanna, sem eru árlega veitt einu tónskáldi af Norðurlöndunum.
Síðastliðinn október hlaut Gyða tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í Svíþjóð. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Gyða Valtýsdóttir hafi ekki einskorðað sig við neina tiltekna tónlistarstefnu, þrátt fyrir að vera menntuð í sígildri tónlist. „Ung að árum var hún einn stofnmeðlima hinnar rómuðu tilraunakenndu rafsveitar Múm. Síðan þá hefur hún verið áberandi sem fjölhæfur flytjandi í flokki þess íslenska tónlistarfólks sem hefur getið sér gott orð á erlendri grund.“
Í fyrra hlaut Davíð Þór Jónsson Hörpu verðlaunin fyrir tónlist sína við kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð. Árið þar áður hreppti Daníel Bjarnason verðlaunin fyrir tónlist sína við kvikmynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Undir trénu. Þá hlaut Atli Örvarsson verðlaunin árið 2016 fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Hrútar og það sama ár fékk Jóhann Jóhannsson sérstök heiðursverðlaun.
Hörpu verðlaunin voru sett á laggirnar árið 2009 með það að markmiði að beina kastljósinu að norrænum hæfileikum, færni og þekkingu og að kynna norrænt hæfileikafólk á sviði kvikmyndatónlistar og leiklistar fyrir alþjóðlega kvikmyndageiranum. Með þessu er stefnt að því að auka möguleika á samstarfsmöguleikum milli Norðurlandanna og hinum alþjóðlega kvikmyndamarkaði.
Nánari upplýsingar um Hörpu verðlaunin er að finna á heimasíðu hátíðarinnar.
Sjá nánar hér: Gyða Valtýsdóttir tilnefnd til Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunanna