Íslenskar kvikmyndir er þema nýjasta heftis Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Birtast um efnið fjórar ritrýndar greinar, þrjár sögulegar og ein þar sem fjallað er um ákveðna bíómynd, Húsið eftir Egil Eðvarðsson.
Kvikmyndafræðingarnir Björn Ægir Norðfjörð og Björn Þór Vilhjálmsson skrifa sitthvora greinina, sú fyrri fjallar um sögu íslenskra kvikmynda frá upphafi sýninga, sú seinni um ritskoðun kvikmynda á Íslandi eða bannlistann.
Tvær greinar í heftinu eru eftir doktorsnema, Gunnar Tómas Kristófersson fjallar um upphaf kvikmyndaaldar hér á landi en Sigrún Margrét Guðmundsdóttir um fyrstu íslensku hrollvekjuna í fullri lengd, Húsið.
Nánar má lesa um greinarnar í inngangi þemaritstjórans, Björns Þórs Vilhjálmssonar.
Innan þemans er einnig að finna tvær þýðingar, önnur þeirra er þýðing á grein eftir Tom Gunning um árbíóið en hin er grein Andrews D. Higsons um þjóðarbíó. Þýðendurnir, Björn Þór Vilhjálmsson og Kjartan Már Ómarsson, fjalla um tilurð þýðinganna í inngangi að þeim.
Allt efni Ritsins er aðgengilegt á vefnum, sjá nánar hér: Árgangur 19 Númer 2 (2019): Ritið 2/2019 – Íslenskar kvikmyndir | Ritið